Landsvirkjun

2022

Landsvirkjun er orkufyrirtæki í eigu íslensku þjóðarinnar og vinnur rafmagn úr endurnýjanlegum orkugjöfum: Vatnsafli, jarðvarma og vindi. Fyrirtækið er stærsta orkuvinnslufyrirtæki landsins og vinnur um 72% allrar raforku á Íslandi. Aflstöðvar eru 18 talsins, víðs vegar um landið: 15 vatnsaflsstöðvar og þrjár jarðvarmastöðvar, auk tveggja vindmylla. Hlutverk fyrirtækisins er að hámarka verðmæti þeirra endurnýjanlegu orkulinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi. Gildi Landsvirkjunar eru framsækni, ráðdeild og traust. Fyrirtækið leggur áherslu á skilvirka orkuvinnslu og framþróun í þeim efnum. Það vill taka forystu í sjálfbærri þróun og veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu. Markmiðið er að Landsvirkjun sé framsækinn og eftirsóttur vinnustaður og fyrirtækið kappkostar að vera fyrirmynd í opnum samskiptum og samvinnu við alla hagsmunaaðila.

Framtíðarsýn og kolefnishlutleysi
Framtíðarsýn Landsvirkjunar er sjálfbær heimur, knúinn endurnýjanlegri orku. Samkvæmt Parísarsamningnum frá 2015 hafa þjóðir heims sett sér það markmið að halda hlýnun andrúmsloftsins innan við 2°C, miðað við upphaf iðnbyltingarinnar. Því markmiði verður ekki náð nema með aukinni orkuvinnslu úr endurnýjanlegum auðlindum, þar sem um tveir þriðju hlutar af losun gróðurhúsalofttegunda koma frá orkuvinnslu, en yfir 80% af orkunotkun í heiminum er mætt með brennslu jarðefnaeldsneytis, sem endurnýjar sig ekki og hefur kolefnislosun í för með sér. Auk þess að leggja sitt af mörkum til baráttunnar við loftslagsbreytingar með því að vinna orku úr endurnýjanlegum auðlindum hefur Landsvirkjun samþykkt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til ársins 2030, sem miðar að því að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda úr starfseminni. Samkvæmt áætluninni verður fyrirtækið kolefnishlutlaust árið 2025, sem þýðir að binding kolefnis verður a.m.k. jafn mikil og losun þess í starfseminni. Í þessum aðgerðum verður fyrst lögð áhersla á að fyrirbyggja nýja losun, þá að minnka núverandi losun og svo mótvægisaðgerðir.
Fjölbreyttar atvinnugreinar nýta orku frá Landsvirkjun til verðmætasköpunar. Efnahagsleg áhrif af starfsemi fyrirtækisins birtast því m.a. í formi starfa og tekna sem dreifast um allt land. Fjórðungur orkunnar sem fyrirtækið vinnur er nýttur á höfuðborgarsvæðinu og þrír fjórðu eru nýttir á landsbyggðinni. Áhrifa af starfseminni gætir m.a. í útflutningstekjum, greiðslu launa, greiðslum til birgja, skattgreiðslum og fasteignagjöldum.
Landsvirkjun greiðir árlega arð af rekstri til eigenda fyrirtækisins, íslensku þjóðarinnar. Arðurinn er greiddur til ríkissjóðs Íslands.

Stofnun Landsvirkjunar
Landsvirkjun var stofnuð þann 1. júlí árið 1965, í þeim tilgangi að byggja og reka raforkuver sem gætu selt raforku til stóriðju og séð almennum markaði fyrir raforku á hagstæðu verði. Fram að þeim tíma hafði rafvæðing á Íslandi einkum verið rekin af ríki og sveitarfélögum og stóð rekstur veitufyrirtækja ekki undir nýframkvæmdum í orkumálum. Eiríkur Briem var fyrsti forstjóri fyrirtækisins og fyrsti orkusamningur hins nýja fyrirtækis var við svissneska álframleiðandann Alusuisse árið 1966.

Bygging fyrstu virkjana og breyting á eignarhaldi
Við stofnun Landsvirkjunar var ráðist í byggingu Búrfellsvirkjunar. Lögð var áhersla á að fyrirtækið yrði sjálfstætt ásamt því að öruggt tekjuflæði yrði tryggt strax frá stofnun. Með það að markmiði lögðu íslenska ríkið og Reykjavíkurborg Sogsvirkjun ásamt vatnsréttindum inn í fyrirtækið, en Sogsvirkjun var á þeim tíma stærsti raforkuframleiðandi landsins. Ríkið lagði einnig inn vatnsréttindi í Þjórsá við Búrfell og undirbúningsvinnu vegna virkjunar þar. Þá lagði hvor aðili fyrir sig fleiri eignir til fyrirtækisins, auk 50 milljóna króna í reiðufé. Á fyrstu árum fyrirtækisins og fram undir lok 8. áratugar 20. aldar byggði fyrirtækið þrjár virkjanir í Þjórsá og Tungnaá. Eftir að byggingu Búrfellsvirkjunar lauk árið 1972 var ráðist í Sigölduvirkjun og síðan Hrauneyjafossvirkjun sem hóf rekstur 1981. Á þessum fyrstu árum óx sala til álversins í Straumsvík og samið var um sölu á raforku til Járnblendifélagsins á Grundartanga. Sala fyrirtækisins á rafmagni til almenningsveitna hafði stóraukist, eða álíka mikið og orkan sem unnin var í Hrauneyjarfossvirkjun fyrstu rekstrarár virkjunarinnar. Halldór Jónatansson tók við sem annar forstjóri fyrirtækisins árið 1983. Sama ár eignaðist Akureyrarbær hlut í Landsvirkjun og áttu þá Reykjavík og Akureyri helming í fyrirtækinu á móti ríkinu (Reykjavík 45%, Akureyri 5% og ríkið 50%). Laxárvirkjun sem var í eigu Akureyringa og ríkisins var sameinuð Landsvirkjun á þessum tíma. Við þetta varð Landsvirkjun raforkufyrirtæki á landsvísu, en fram að því hafði starfsemin verið bundin við Suður- og Vesturland. Árið 1985 keypti Landsvirkjun Kröflustöð og árið 1986 eignir jarðvarmaveitna ríkisins í Bjarnarflagi af ríkinu.

Vatnsfellsstöð, yfirfall.

Aukin raforkusala
Á árunum 1995-1997 voru gerðir samningar um aukin raforkukaup álversins í Straumsvík, Járnblendifélagsins og nýs álvers, Norðuráls, en allir þessir samningar voru gerðir á tæplega tveimur árum. Í hönd fór mikið uppbyggingartímabil hjá Landsvirkjun sem jók framleiðslu sína um 60% á fimm árum. Blöndu-, Búrfells- og Kröfluvirkjanir voru stækkaðar og byggðar virkjanir við Sultartanga og Vatnsfell, lokið við Kvíslaveitu og gert miðlunarlón við Hágöngur. Friðrik Sophusson var ráðinn þriðji forstjóri Landsvirkjunar á miðju þessu uppbyggingatímabili og hóf störf í ársbyrjun 1999, sama ár og Sultartangavirkjun var tekin í notkun. Árið 2003 voru gerðir samningar um sölu á raforku til Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði og samfara þeim var hafist handa við byggingu Kárahnjúkavirkjunar sem lauk haustið 2008. Aflstöð virkjunarinnar, Fljótsdalsstöð, hóf vinnslu rafmagns í lok mars 2007. Kárahnjúkavirkjun er stærsta framkvæmd Landsvirkjunar og fól hún í sér 60% aukningu í raforkuframleiðslu fyrirtækisins.

Ný raforkulög og auknar fjárfestingar
Miklar breytingar áttu sér stað með setningu nýrra raforkulaga árið 2003 sem fólu í sér markaðsvæðingu raforkugeirans. Í aðdragandanum, nokkrum árum fyrr, hófu starfsmenn Landsvirkjunar undirbúning að þessari breytingu með gagngerri endurskoðun á stefnu, skipulagi og starfsháttum fyrirtækisins. Vinna þessi miðaði að því að nýta væntanlegar breytingar við markaðsvæðingu orkumála til vaxtar og bætts rekstrar. Fram fór gagngert endurmat á vinnubrögðum í rekstri raforkukerfisins, markaðsstaða fyrirtækisins var greind og mótað var nýtt skipulag fyrir alla starfsemina. Í kjölfar hinnar nýju lagasetningar varð flutningssvið fyrirtækisins að Landsneti, sjálfstæðu hlutafélagi og dótturfélagi Landsvirkjunar. Landsnet á og rekur flutningskerfi landsins og stýrir raforkukerfinu.
Frá og með 1. janúar 2007 yfirtók ríkið eignarhlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun sem varð þar með sameignarfélag í fullri eign ríkisins og á forræði fjármálaráðuneytisins. Haustið 2007 var gerður rafmagnssamningur við Becromal, sem reisti aflþynnuverksmiðju á Akureyri. Hörður Arnarson tók við sem fjórði forstjóri fyrirtækisins árið 2009 og í kjölfarið voru nýjar áherslur kynntar sem miða að aukinni áherslu á arðsemi og rekstur Landsvirkjunar sem markaðsdrifnu fyrirtæki.

Framkvæmdatímabil 2012-18 og fleiri viðskiptavinir bætast í hópinn
Árið 2012 hófst uppsetning tveggja vindmylla á Hafinu og voru þær gangsettar á árinu 2013. Vindmyllurnar eru hluti af rannsóknar- og þróunarverkefni á hagkvæmni raforku og eru á svæði sem gengur undir nafninu „Hafið“, skammt norðaustan af Búrfelli. Rekstur rannsóknavindmyllanna hefur leitt í ljós að aðstæður á Íslandi eru einstaklega hagstæðar og nýtingarstuðull með því hæsta sem mælist á landi.
Hafist var handa við byggingu Búðarhálsvirkjunar, sextándu aflstöðvar Landsvirkjunar, síðla árs 2010. Búðarhálsstöð var svo gangsett árið 2014. Eftirspurn eftir íslenskri raforku fór vaxandi á þessum tíma. Á vormánuðum 2015 hófust framkvæmdir við nýja jarðvarmastöð á Þeistareykjum og var hún gangsett í tveimur áföngum, haustið 2017 og vorið 2018. Stöðin var fyrsta jarðvarmastöð sem Landsvirkjun reisti frá grunni.

Búðarhálsstöð.

Á sama tíma var byrjað að reisa Búrfellsstöð II og var hornsteinn að henni lagður og stöðin gangsett sumarið 2018. Stöðin nýtir rennsli Þjórsár við Búrfell sem eldri stöðin nýtti ekki og er stöðvarhús neðanjarðar í Sámsstaðaklifi. Lögð var áhersla á að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af framkvæmdinni, en stöðin nýtir sama inntakslón, mannvirki og tengingar við raforkukerfið og Búrfellsstöð I.
Jafnrétti hefur verið áherslumál Landsvirkjunar undanfarin ár og árið 2018 var samþykkt þriggja ára aðgerðaáætlun í jafnréttismálum, en hún var unnin upp úr greiningu og hugmyndavinnu starfsfólks fyrirtækisins. Landsvirkjun hlaut Hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2019 og í rökstuðningi dómnefndar sagði m.a. að fyrirtækið hefði lagt ríka áherslu á að skapa góða fyrirtækjamenningu, þar sem jafnrétti og virðing fyrir fjölbreytileika samfélagsins lægju til grundvallar. Tekið væri mið af jafnréttismálum í heildarstefnu fyrirtækisins og væri ávinningurinn áþreifanlegur.

Umsvifamikið rannsóknastarf
Starfsemi fyrirtækisins fylgir umfangsmikið rannsóknarstarf á sviði umhverfis- og loftslagsmála og sjálfbærni. Umfangsmiklar lífríkis-, náttúru- og vatnafarsrannsóknir hafa átt sér stað á vegum Landsvirkjunar í tengslum við uppbyggingu og rekstur virkjana, bæði á sviði vatnsafls og jarðvarma. Sérstaklega er rétt að benda á rannsóknir tengdar hálendi Íslands, en þar eru virkjanasvæðin mun betur rannsökuð en aðrir hlutar hálendisins.
Stór hluti rannsóknarverkefna er unninn í samstarfi við háskóla, ýmsar stofnanir og fyrirtæki sem og einstaka vísindamenn, innan jafnt sem utan landsteina Íslands. Má þar nefna Veðurstofu Íslands, ÍSOR, Jarðvísindastofnun, verkfræðistofur og háskóla. Landsvirkjun er á meðal stærstu kaupenda rannsóknarverkefna á Íslandi sem tengjast m.a. orkuvinnslu fyrirtækisins, þróun nýrra virkjunarkosta og viðskiptatækifæra og umhverfisvöktun.
Landsvirkjun veitir árlega styrki úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar til rannsóknarverkefna á sviði umhverfis- og orkumála. Veittir styrkir úr sjóðnum námu 60 milljónum króna á árinu 2020. Sjóðurinn var stofnaður árið 2007 og til ársins 2020 veitti hann samtals 728 milljónir króna í styrki til ýmissa rannsóknaverkefna, sem og til framúrskarandi nemenda.

Framlag til nýsköpunar
Landsvirkjun styrkir fjölmörg verkefni sem stuðla að nýsköpun í nærsamfélagi aflstöðva fyrirtækisins. Má þar nefna samstarfsverkefnin Orkídeu á Suðurlandi, Eim á Norðurlandi og Bláma á Vestfjörðum. Fyrirtækið vinnur einnig einnig með sprotafyrirtækjum. Auk fjárframlaga er Landsvirkjun virkur þátttakandi í mörgum verkefnum sem gefa tækifæri til að skiptast á þekkingu og reynslu í orkutengdri nýsköpun.

Háaleitisbraut 68
103 Reykjavík
5159000
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd