Sveitarfélagið Langanesbyggð varð til við sameiningu Þórshafnarhrepps og Skeggja-staðahrepps árið 2006. Tveir byggðakjarnar eru í sveitarfélaginu, Þórshöfn og Bakkafjörður, auk dreifbýlis. Þann 1. janúar 2020 voru 482 íbúar í sveitarfélaginu. Á Þórshöfn voru 359 íbúar og á Bakkafirði voru 60 íbúar. Mikið samstarf er við nágrannana í Svalbarðshreppi sem sækja skóla og aðra þjónustu til Þórshafnar.
Atvinna
Aðalatvinnuvegur beggja þorpa er sjávarútvegur enda fengsæl fiskimið allt um kring. Á Þórshöfn rekur Ísfélags Vestmannaeyja öfluga starfsstöð, en þar er unninn bolfiskur auk þess sem vertíðir í uppsjávarfiski eru nú stór partur af vinnslunni. Þá er einnig öflug smábátaútgerð á báðum stöðum og á Bakkafirði var nýlega opnuð fiskvinnsla á ný. Á Þórshöfn er einnig matvöruverslun, banki, heilsugæsla og önnur helsta þjónusta. Ferðaþjónusta á svæðinu hefur farið vaxandi og fjölbreyttir gistimöguleikar á svæðinu. Landbúnaður á sér sterkar rætur og er að mestu byggður á sauðfjárrækt.
Umhverfið
Eitt helsta aðdráttarafl svæðisins er ósnortið Langanesið. Á leiðinni út á Font, sem er oddurinn á nesinu, er ýmislegt að sjá. Þverhnípt björgin, rekaviðurinn og fuglalífið engu líkt. Á Skoruvíkurbjörgunum er útsýnispallurinn Járnkarlinn og þar er hægt að virða fyrir sér Súluvarp og fjölmargar fuglategundir. Á vordögum má jafnvel horfa á sigmenn í bjarginu við eggjatínslu. Á Fonti er gamall viti og tilfinningin þegar þangað er komið er eins og að vera á heimsenda. Þar má sjá yfir fallegan Bakkaflóann og í góðu skyggni austur á firði. Á Langanesi er eyðiþorpið Skálar og má sjá nokkra húsgrunna standandi ennþá. Þar eru söguskilti sem segja frá sögu þorpsins. Í Bakkafirði má sjá fallega náttúru og sólarlagið töfrum líkast. Þar má til dæmis fara að Draugafossi sem er nærri prestsetrinu Skeggjastöðum eða skoða þorpið sjálft, en þar stendur nú yfir uppbygging á áningarstað.
Afþreying og menning
Gönguleiðir á svæðinu eru fjölmargar og fallegar. Má þar nefna göngu að Digranesvita í Bakkafirði eða Grenjanesvita á Langanesinu. Íþróttahúsið á Þórshöfn er vel nýtt og sundlaugin þar mikilvæg heilsubót. Hestamennska er nokkur á svæðinu auk þess sem heimamenn nýta sér veturna vel til vetraríþrótta. Fjöldi félagasamtaka eru starfandi og öflugar björgunarsveitir. Á sumrin er haldin bæjarhátíðin Bryggjudagar, auk þess sem sjómannadagurinn er fastur liður í byrjun sumars. Þorrablótsins er alltaf beðið með eftirvæntingu en það er stærsti menningarviðburður ársins.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd