Léttitækni ehf

2022

Árið 1989 keyptu Jakob Jóhann Jónsson, húsasmíðameistari og Hallur Hilmarsson, bifreiðastjóri hjólbarðaverkstæði á Blönduósi af Hallbirni Kristjánssyni, það fékk nafnið Ósdekk og er í raun grunnurinn að Léttitækni. Áður hafði Jakob starfað sjálfstætt við smíðar í nokkur ár. Árið 1993 keyptu Jakob, Hallur og Bergþór Gunnarsson vélsmíðameistari fyrirtækið Léttitæki ehf. í Reykjavík og fluttu það á Blönduós til þess að styrkja stoðir dekkjaverkstæðisins. Léttitæki hélt þó áfram að vera með söluskrifstofu í leiguhúsnæði á Bíldshöfða í Reykjavík.
Reksturinn gekk ekki nógu vel og árið 1995 stofnuðu Jakob og Bergþór Léttitækni ehf. á grunni Léttitæki ehf. Jakob og Bergþór ráku Léttitækni saman fram til ársins 1999 í formi hjólbarðaverkstæðis og stálsmiðju sem framleiddi handvagna og handtrillur auk þess að flytja inn ýmis léttitæki. Jakob keypti svo hlut Bergþórs árið 1999 og hefur síðan rekið Léttitækni ehf. einn ásamt eiginkonu sinni Katrínu Líndal sjúkraliða.
Stálsmiðjan og innflutningurinn uxu hratt og árið 2005 var komið að því að einfalda reksturinn og ákvað Jakob þá að selja hjólbarðaverkstæðið út úr rekstrinum og einbeita sér að stálsmiðju og innflutningi. Í byrjun var framleiðslan stór partur af veltunni og innflutningurin smærri í sniðum.
Árið 2002 tók sonur Jakobs, Jón Guðmann við keflinu í Reykjavík og fyrirtækið festi kaup á verslunarhúsnæði á Stórhöfða 27. Flutningurinn var mikið gæfuskref og fyrirtækið hélt áfram að dafna og með þekkingu Jóns í erlendum samskiptum jókst innflutningurinn til muna og veltan jókst smátt og smátt. 2013 var Sveinn Jónsson bróðir Jakobs ráðinn í Reykjavík og hafa þar verið tveir starfsmenn síðan þá. Árið 2016 snéri Jón Guðmann sér að sínum eigin rekstri og Jóhann Sigurjón yngri sonur Jakobs tók við keflinu í Reykjavík. Á haustmánuðum 2018 seldum við Stórhöfða 27 í Reykjavík og keyptum nýtt og glæsilegt húsnæði á Lambhagavegi 13 þar sem búðin er rekin núna.

Aðsetur og starfsfólk
Starfsemin á Blönduósi hefur alla tíð verið á Efstubraut 2. Fyrst bakatil í gamla Votmúlanum en eftir brunann árið 2004 var Votmúlinn endurbyggður að stórum hluta og flutti Léttitækni í nýja hlutann syðst í húsinu haustið 2006. Árið 2008 bætti fyrirtækið við sig og byggði lagerhúsnæði á sömu lóð og starfar fyrirtækið því í 1175 fermetrum samtals a Blönduósi.
Stöðugildin hafa verið 5-6 alla tíð á Blönduósi en þar fer öll framleiðslan fram og einnig er stór hluti lagersins þar. Þar starfa 3 starfsmenn við framleiðslu, Bergþór sem var einn af stofnendum Léttitækni kom aftur til starfa hjá fyrirtækinu árið 2007, Njáll Runólfsson hefur unnið hjá fyrirtækinu frá upphafi (1993) og Grímur Guðmundsson kom til starfa hjá okkur 2017. Péturína Laufey dóttir Jakobs starfar á skrifstofunni og hefur séð um bókhald og launavinnslur síðan 1996 en kom í fullt starf árið 2007 og starfar við hlið Jakobs framkvæmdastjóra. Eins og sjá má er Léttitækni sannkallað fjölskyldufyrirtæki.
Sérstaða
Grunnhugsun varðandi Léttitækni er að útvega fólki og fyrirtækjum tæki sem létta fólki störfin, sérstaða fyrirtækisins er samspil innflutnings og framleiðslu sem hentar einstaklega vel þegar verkefnið er að sérsníða lausnir. Léttitækni flytur inn vörur frá u.þ.b. 30 birgjum víðsvegar um heiminn.

Góð þjónusta
Léttitækni hefur alla tíð lagt mikla áherslu á góða og trausta þjónustu, verkefnum er skilað fullbúnum og mikið kapp lagt á að ganga snyrtilega um á verkstað. Góð þjónusta skilar ánægðum viðskiptavinum aftur til okkar og þess vegna eigum við stóran hóp af dyggum viðskiptavinum.

Verkefni
Léttitækni vinnur að mestu leyti á tilboðsmarkaði, viðskiptavinirnir eru bæði fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar. Verkefnin eru síbreytileg og sniðin að þörfum markaðarins hverju sinni, mörg af okkar stærri verkefnum snúast um að hanna hillukerfi, milliloft, sérsmíðaða stiga, skápa og aðrar lausnir í stór og smá vöruhús sem við svo smíðum eða flytjum inn og bjóðum í lokin upp á uppsetningu á heildinni. Heildarlausnir frá okkur í vöruhús hafa mælst vel fyrir enda höfum við nú orðið gríðarlega þekkingu á þessum hlutum.

Framtíðarsýn
Framtíðin er björt og stefna Jakob og Katrín á að reka fyrirtækið áfram í svipaðri mynd bæði á Blönduósi og í Reykjavík en þó verður auðvitað alltaf að þróa fyrirtækið eftir markaði og breytingum í þjóðfélaginu eins og þau hafa gert alla tíð í sögu Léttitækni ehf.

Efstubraut 2
540 Blönduósi
452 4442
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd