Það var um aldamótin að við hjónin, Áslaug Jónsdóttir og Oddur Gunnarsson stóðum á tímamótum þá 40 ára gömul. Við höfðum starfað í Húsgagnahöllinni frá tvítugsaldri en hún ásamt Intersport og fasteigninni að Bíldshöfða 20 var að stærstum hluta í eigu foreldra Áslaugar, Jóns Hjartarsonar og Maríu Júlíu Sigurðardóttur. En einnig áttu Áslaug, systur hennar og eiginmenn hlut. Árið 2000 voru bæði fyrirtækin seld ásamt fasteigninni og nú gafst tækifæri til að finna sér nýjan og spennandi starfsvettvang.
Sagan
Okkur lá ekkert á og sumarið 2002 fórum við í langt og gott frí þar sem við létum drauminn rætast og keyrðum um Evrópu og drukkum í okkur menningu, listir og sögu. Við keyrðum til Pontigny í Frakklandi til að skoða klaustur þar sem faðir Odds hafði dvalið á fjórða áratugnum og þaðan fórum við til Auxerre sem er mörghundruð ára gamall bær þar rétt hjá. Þar gengum við um alveg heilluð af því sem fyrir augun bar. Þar sáum við meðal annars heimilisvöruverslun í margra alda gömlu húsi sem vakti áhuga okkar og við litum inn. Það má segja að þarna hafi verið upphafið að Líf&List. Áslaug sá svo fallegt matar- og kaffistell að hún varð að eignast það. Oddur var hinsvegar alls ekki til í að keyra um Evrópu þvers og kruss með matarstell í skottinu svo við fengum bækling. Það var einhver áhugi sem kviknaði þarna og við fórum að vera meira í búðum að skoða heimilisvörur en að skoða söfn og byggingar. Við byrjuðum að skrá hjá okkur vörumerki sem okkur þótti álitleg og voru áberandi í verslunum í mörgum löndum. Þegar heim var komið höfðum við skráð hjá okkur 19 eftirsóknarverð vörumerki og vorum komin með brennandi áhuga á að stofna heimilisvöruverslun.
Við komum heim í lok júlí og daginn eftir heimkomu óskuðum við eftir fundi með framkvæmdastjóra Smáralindar sem hafði opnað haustið áður. Úr varð að við festum okkur pláss, þó með þeim fyrirvara að okkur tækist að ná viðskiptasamningum við birgja, en við vorum þá alveg óþekkt í þessum bransa. Í byrjun ágúst fórum við á sýningu í Þýskalandi og okkur til mikillar gleði náðum við samningum við alla 19 birgjana sem voru efstir á óskalistanum okkar og fleiri til. Þegar heim var komið þá tók við mikið verk. Við vorum með 289m2 fokhelt pláss í Smáralind og við fengum aðstoð hjá VA Arkitektum við að hanna verslunina og á gamla góða íslenska mátann, þá opnuðum við Líf&List í Smáralind 16. nóvember 2002, rétt um 4 mánuðum eftir að hugmyndin fæddist. Ári seinna opnuðum við Líf&List-húsgögn í Ármúla og gekk sú verslun vel en við tókum þá ákvörðun að loka henni í efnahagshruninu þar sem útlitið var ekki bjart framundan og ákváðum að einbeita okkur að rekstrinum í Smáralind.
Þróunin
Verslunin hefur tekið miklum breytingum. Eins og komið hefur fram þá vorum við nýgræðingar og áttum margt eftir ólært. Við höfum ávallt haft það að leiðarljósi að hlusta á óskir og þarfir viðskiptavinanna og sáum fljótlega að við gætum bætt okkur mjög mikið, ef við myndum bæta við skandinavískum vörumerkjum og hönnunarvörum. Og þá fóru veggirnir að þrengja að okkur, bara alls ekki nóg pláss fyrir allar hugmyndirnar. Auk þess togaði það alltaf í okkur að selja vönduð húsgögn og höfðum við mestan áhuga á að selja húsgögn frá Skovby í Danmörku og Ekornes í Noregi. Við höfum stækkað verslunina nokkrum sinnum og erum núna að leggja lokahönd á 5. stækkunina og hefur þá verslunin stækkað úr 289m2 í 958m2 .
Fjölskyldufyrirtæki
Þegar við opnuðum Líf&List vorum við með barn og unglinga á heimilinu og þetta var svona eins og gerist og gengur með fjölskyldufyrirtæki. Fjölskyldan er samheldin, vinnuferðum og fríi gjarnan slegið saman. Börnin komu með á vörusýningar og svo var farið í Tívolí, dýragarða og tónleika í útlöndum. Líf&List er dæmigert gamaldags fjölskyldufyrirtæki sem er í dag í helmings eigu okkar hjónanna og meðeigendur okkar eru börnin okkar þrjú. Sonur okkar Jón Hjörtur Oddsson er viðskiptafræðingur og er framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Kona Jóns Hjartar, Dóróthea, er grafískur hönnuður og hefur lagt okkur mikið lið. Dóttir okkar María Björk Oddsdóttir er innanhússhönnuður. Hún býr í Englandi ásamt manni sínum, Freddie Carballido byggingatæknifræðingi og þremur dætrum. Þau reka sitt eigið fyrirtæki í fasteignabransanum en María Björk er einnig í hlutastarfi hjá Líf&List, þökk sé tækni nútímans. Yngsta dóttir okkar Sólveig Erla Oddsdóttir er lögfræðingur en hún tók þá ákvörðun að námi loknu að koma til starfa hjá fyrirtækinu. Jón Þór, eiginmaður Sólveigar er hugbúnaðarverkfræðingur og hann hefur lagt okkur lið í allskonar nútíma tæknimálum. Velgengni fyrirtækisins felst í því að við „þessi gömlu“ erum íhaldssöm og varkár en unga fólkið okkar er vel menntað, upplýst og framsækið. Þetta er fullkomin blanda stjórnenda ef þeir eldri halda ekki of fast um taumana. Unga fólkið er framtíðin og kann betur á nútímann.
Mannauður
Auk fjölskyldunnar eru nú 14 starfsmenn í fullu starfi og 10 starfsmenn í hlutastarfi. Ingunn Egilsdóttir verslunarstjóri hefur unnið með okkur í 30 ár í haust og Eyjólfur Þórður Þórðarson lagerstjóri og Þórleif Sigurðardóttir útstillingarhönnuður og hafa bæði unnið með okkur í yfir 10 ár. Við höfum verið lánsöm með samstarfsmenn frá upphafi og eigum orðið fjöldan allan af föstum og góðum viðskiptavinum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd