Lífeyrissjóður Rangæinga er samtryggingarsjóður og lögformlegur vörslu- og innheimtu-aðili lífeyrissjóðsiðgjalda. Starfar hann samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyissjóða. Hann starfar sömuleiðis á samningssviði Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands og samkvæmt samkomulagi stéttarfélaga og atvinnurekenda frá 19. maí 1969 og 12. desember 1995 ásamt síðari breytingum. Helsta markmið er að tryggja þau lágmarksréttindi sem þar er kveðið á um og hlutverkið er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt ákvæðum samþykkta sjóðsins hverju sinni.
Sagan
Í kjölfar áðurnefnds samkomulags frá 19. maí 1969 hófst undirbúningur að stofnun lífeyrissjóða fyrir þá launþega sem ekki voru í lífeyrissjóði fyrir. Lífeyrissjóður Rangæinga var stofnaður 12. janúar 1971 og voru stofnaðilar samtök vinnuveitenda í Rangárvallasýslu, iðnaðar- og verkamannadeild Verkalýðsfélagsins Rangæings og Bílstjórafélag Rangæinga. Félagssvæði sjóðsins er því í upphafi Rangárvallasýsla.
Fyrsti formaður stjórnar var kjörinn Hilmar Jónasson en aðrir í stjórn voru Garðar Björnsson, Hilmar Jónsson og Páll Björnsson. Fyrsti starfsmaður sjóðsins til nokkurra mánaða var Hilmar Jónasson. Sigurður Þorgilsson, starfsmaður Verkalýðsfélagsins, starfaði einnig fyrir sjóðinn við innheimtumál allt fram til loka árs 1972. Í byrjun árs 1973 var fyrsti framkvæmdastjóri sjóðsins ráðinn til starfa en það var Filippus Björgvinsson. Hann lét af störfum í árslok 2001 eftir gifturíkt starf fyrir sjóðinn. Frá sama tíma er Þröstur Sigurðsson ráðinn framkvæmdastjóri og er enn starfandi.
Starfsemin
Rétt eftir stofnun sjóðsins fóru í hönd miklir uppgangstímar hvað varðar atvinnu hér í Rangárvallasýslu. Stórfelldar virkjanaframkvæmdir fóru af stað hér á hálendinu og á félagssvæði sjóðsins. Sigölduvirkjun og síðar Hrauneyjafossvirkjun auk annarra framkvæmda sem fylgdu því að virkja fallvötnin. Af harðfylgi tókst forsvarsmönnum verkalýðsfélagsins að tryggja forgang sinna félagsmanna að atvinnu á virkjanasvæðinu sem og innheimtu félagsgjalda og lífeyrisiðgjalda þeirra starfsmanna sem unnu á svæðinu hvort sem um var að ræða heimamenn eða aðkomumenn. Fjölmargir aðilar, sem unnu á virkjanasvæðinu á þessum árum frá 1973 og vel fram yfir 1980, eiga því lífeyrisréttindi hjá Lífeyrissjóði Rangæinga. Svo mikill var atgangurinn á hálendinu að erfitt var að manna ýmis störf í byggð.
Þessum uppgangi fylgdi að uppbygging þétttbýliskjarnanna í sýslunni tók kipp og fjölmörg hús voru byggð. Sjóðurinn fylgdi á eftir og hóf að veita sjóðsfélagalán. Fyrstu umsóknir um sjóðsfélagalán bárust í árslok 1974 og fyrstu sjóðsfélagalánin afgreidd í byrjun árs 1975. Á þessum árum var líka töluvert um lánveitingar til atvinnurekenda á svæðinu. Það þótti umdeilt og var gagnrýnt af hálfu annarra lífeyrissjóða og æðstu manna innan verkalýðshreyfingarinnar. Töluverð eftirspurn var eftir lánum sjóðsins fyrsta rúma áratug starfseminnar. Draga fór verulega úr eftirspurn 1995 og hætti sjóðurinn að lána til sjóðfélaga um það leyti, enda var almennt aðgengi að lánsfjármagni orðið mun betra en áður.
Sjóðurinn hefur í seinni tíð komið að fjármögnun ýmissa húsnæðisverkefna á félagssvæði sínu og hefur því tekið þátt í uppbyggingu á svæðinu líkt og á upphafsárunum.
Verkalýðshús
Snemma árs 1974 höfðu deildir innan Verkalýðsfélagsins Rangæings ákveðið að hefja byggingu húss fyrir aðstöðu sína og annarra áhugasamra. Lífeyrissjóði Rangæinga var boðið að gerast þátttakandi í þessari framkvæmd og var það samþykkt af stjórn sjóðsins.
13. janúar 1975. Fyrsta skóflustunga að byggingu Verkalýðshússins á Hellu, að Suðurlandsvegi 3, var tekin 24. maí 1975 og hófust framkvæmdir fljótlega eftir það. Frá miðju ári 1978 hefur sjóðurinn haft starfsstöð sína og aðstöðu í Verkalýðshúsinu, Suðurlandsvegi, Hellu og er svo enn í dag. Þess má geta að Verkalýðshúsið er í dag hluti af Miðjunni svokölluðu á Hellu en það er samstæða Suðurlandsvegar 1, Suðurlandsvegar 3 og nýbyggingar á milli hinna eldri húsa sem mynda þannig eina heild við Suðurlandsveginn sem blasir við öllum sem leið eiga um.
Starfsemi Lífeyrissjóðs Rangæinga hefur verið í föstum skorðum um langt skeið. Sjóðurinn var í upphafi lengi í samstarfi við Búnaðarbanka Íslands, Landsbanka Íslands og Iðnaðarbankann og naut þjónustu þeirra við fjárvörslu. Síðar komu við sögu Kaupþing, til skamms tíma, Íslensk Verðbréf, Íslandsbanki og fleirri minni aðilar. Sterkust hafa þó verið tengslin við Búnaðarbanka Íslands og þá sem á eftir honum hafa komið.
Rekstur
Kröfur til lífeyrissjóða hafa stigvaxið hin seinni ár. Sjóðirnir lúta opinberu eftirliti og ýtarlegar kröfur eru gerðar um innra eftirlit, áhættustýringu og vörslu og ávöxtun fjármuna. Rekstur minni sjóða hefur því þyngst verulega vegna aukinna krafna og því hefur þurft að leita leiða til að uppfylla þær kröfur sem uppi eru. Eftir miklar umræður og skoðun valkosta ákvað stjórn sjóðsins, haustið 2012, að ganga til samninga við Arion banka um rekstur og eignastýringu sjóðsins. Lífeyrissjóður Rangæinga hefur því frá 12. september 2012 verið í rekstri og umsjón bankans. Eins og áður er það þó ársfundur sjóðsins sem fer með æðsta vald í málefnum sjóðsins og stjórn sjóðsins fer með yfirstjórn hans á milli ársfunda.
Rekstur sjóðsins hefur alla tíð gengið vel. Sjóðurinn hefur verið heppinn með samstarfsaðila og þá sem hafa þjónustað hann á margan hátt. Á þessu ári 2021 eiga yfir 11.000 einstaklingar réttindi hjá sjóðnum, um 1.100 einstaklingar eru virkir sjóðfélagar og um 900 manns þiggja lífeyri hjá sjóðnum. Heildareignir sjóðsins nú eru rúmlega 18 milljarðar króna.
Aðilarfélög:
- Verkalýðsfélag Suðurlands (Vlfs)
- FIT, Félag iðn- og tæknigreina
- Samtök atvinnulífsins
Núverandi stjórn:
Aðalmenn í stjórn Lífeyrissjóðs Rangæinga að loknum ársfundi 2021.
Formaður: Guðrún Elín Pálsdóttir tilnefnd af Vlfs.
Ritari: Margrét Jóna Ísólfsdóttir, tilnefnd af SA.
Meðstj.: Heimir Hafsteinsson, tilnefndur af FIT.
Meðstj.: Guðmundur Svavarsson, tilnefndur af SA.
Varamenn í stjórn:
Pétur Magnússon, tilnefndur af Vlfs.
Drífa Hjartardóttir, tilnefnd af SA.
Framkvæmdastjóri: Þröstur Sigurðsson
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd