Lífland í 100 ár – Lífland hóf starfsemi sína 24. mars árið 1917 og hét þá Mjólkurfélag Reykjavíkur. Félagið var stofnað af bændum í Reykjavík og nærsveitum til að annast vinnslu og dreifingu mjólkur í Reykjavík. Jafnframt því hóf félagið að útvega bændum rekstrarvörur til búskapar. Afskiptum félagsins af mjólkurdreifingu lauk 1935 þegar umdeild mjólkursölulög tóku gildi og yfirtók Mjólkursamsalan í Reykjavík mjólkurstöð MR. Eftir það fór félagið að einbeita sér að sölu á rekstrarvörum til bænda og síðar fóðurframleiðslu. Fyrirtækið hefur tekið töluverðum breytingum frá því að það var stofnað fyrir rúmlega 100 árum síðan en hefur þó ætið haldið tryggð við íslenskan landbúnað og er enn stór hluti starfseminnar tengdur þjónustu við bændur.
Nafni félagsins breytt
Árið 2005 var nafni félagsins breytt úr Mjólkurfélagi Reykjavíkur í Lífland. Ástæðan var sú að nafnið þótti ekki eiga lengur við, enda umsýsla með mjólk og mjólkurafurðir ekki lengur hluti af starfseminni. Var þá valið nafn sem var í takt við það sem fyrirtækið vildi vera fyrir land og þjóð. Lífland – fyrir lífið í landinu varð þannig til og hefur okkur þótt þessi setning ná vel utanum það sem Lífland stendur fyrir.
Eigendur og stjórn Líflands
Forstjóri Líflands er Þórir Haraldsson. Þórir er fæddur árið 1953 og ólst upp á Hvanneyri. Hann er menntaður verkfræðingur og hefur starfað hjá Líflandi frá árinu 2003. Og hefur hann gengt starfi forstjóra félagsins. Árið 2004 keypti Þórir ásamt Kristni Björnssyni hlut í félaginu og árið 2010 eignuðust þeir félagið 100%. Árið 2015 lést Kristinn. Árið 2017 keypti framtakssjóðurinn Horn III 50% hlut Kristins af konu hans Sólveigu Pétursdóttur. Stjórn félagsins skipa í dag þau Þórarinn V. Þórarinsson stjórnarformaður, María Steinunn Þorbjörnsdóttir meðstjórnandi og Steinar Helgason meðstjórnandi.
Starfsemin
Hjá fyrirtækinu vinna um 75 manns í fjölbreyttum störfum og er mannauður fyrirtækisins einn af helstu styrkleikum þess. Það er gott að vinna hjá Líflandi og er starfsaldur hér frekar hár og því er mikil þekking og reynsla fólgin í því fólki sem hér starfar. Lífland rekur í dag tvær verksmiðjur ásamt fimm verslunum sem staðsettar eru í Reykjavík, Akureyri, Blönduósi, Hvolsvelli og í Borgarnesi. Auk þess á fyrirtækið húsnæði við Brúarvog þar sem skrifstofan og lagerinn er til húsa.
Fullkomin fóðurverksmiðja á Grundartanga
Á Grundartanga er fóðurverksmiðja fyrirtækisins, þar sem framleitt er kjarnfóður fyrir landbúnað, en segja má að kjarnastarfsemi Líflands sé framleiðsla á kjarnfóðri fyrir flestar tegundir búfjár. Verksmiðjan var reist árið 2009 og er búin nýjustu tækni til framleiðslu fóðurs.
Mikil áhersla er lögð á gæði fóðursins og uppfyllir það stranga gæðastaðla hvað varðar næringargildi og hreinleika. Mikið er lagt upp úr vöruþróun og er fóðrið í stöðugri endurskoðun þar sem reynt er að bregðast hratt og örugglega við þörfum markaðarins.
Við bjóðum bændum upp á að taka heysýni og rannsaka fyrir þá hvaða efni vantar í fóðrið þeirra og veitum þeim ráðgjöf við val á fóðri út frá þeim niðurstöðum. Við höfum einnig reynt að vera í fararbroddi þegar uppfylla þarf nýjar kröfur sem koma með breyttum áherslum í landbúnaði eins og þær er varða nautaeldi, en bændur eru í meira mæli farnir að rækta nautkálfa. Við höfum þróað heildstæða vörulínu sem sérsniðnar eru að mismunandi aldurskeiðum kálfa, allt frá byrjun til loka eldistímans. Einnig hefur Lífland reynt að tileinka sér þróun í vistvænum landbúnaði og setti nýlega á markaðinn nýtt bætiefni sem við nefnum Vitsbót en hún er þeim eiginleikum gædd að minnka losun metans út í andrúmsloftið.
Íslensk framleiðsla í Kornax
Í Korngörðum er Kornax, eina hveitimylla landsins, þar sem Lífland framleiðir íslenskt hveiti. Lífland tók við rekstri Kornax árið 2006 en verksmiðjan var reist árið 1987 og hefur hún því starfað í yfir 30 ár. Kornax hefur verið leiðandi vörumerki á Íslandi í mjöli fyrir bæði bakstursiðnaðinn og neytendamarkaðinn, þökk sé traustum viðskiptavinum.
Lífland hefur ætið notað gott hráefni við framleiðslu í verksmiðjum sínum og leggur sig fram við að finna besta mögulega hráefni á hverjum tíma enda ráðast gæði vörunnar af gæðum kornsins.
Verslanir Líflands
Lífland rekur fimm verslanir um landið ásamt vefverslun á netinu. Er þar að finna mikið úrval af landbúnaðarvörum en ekki síður vörum tengdum hestum og hestamennsku.
Lífland er stærsti söluaðili á Íslandi þegar kemur að hestavörum og leggur metnað í að hafa vöruúrvalið bæði vandað og glæsilegt, bæði hvað varðar fatnað og aðrar vörur sem tengjast reiðmennskunni.
Styður við hestaíþróttina á Íslandi
Lífland hefur verið dyggur stuðningsaðili hestaíþróttarinnar á Íslandi og hefur undanfarin ár verið aðal styrktaraðili íslenska landsliðsins ásamt því að styðja við bakið á upprennandi knöpum í Meistaradeild Líflands og æskunnar auk fleiri viðburða í hestaíþróttum.
Aukin þjónusta og breiðara vöruúrval
Á undanförnum árum hefur verið lögð aukin áhersla á að efla þjónustu við viðskiptavini með því að breikka vöruúrvalið til muna. Má þar nefna aukið framboð á rekstrarvöru, sölu á áburði og sáðvöru. Einnig hefur Lífland hafið sölu á mjaltaþjónum, innréttingum og heilfóðurkerfum frá framleiðendunum GEA og Big Dutchman, sem eru leiðandi í þróun og nýsköpun á búnaði fyrir landbúnað og matvælaframleiðslu í heiminum. Sú þjónusta hefur gengið vel og er nú fjöldi mjaltaþjóna og annars búnaðar frá Líflandi komnir í notkun á búum um allt land.
Lífland fyrir lífið í landinu
Fyrirtækið hefur verið samofið sögu íslensku þjóðarinnar og hefur tekið breytingum í takt við þjóðfélagsbreytingar í gegnum árin. Við erum á tánum og fylgjumst með nýjungum ásamt því að vera sveigjanleg í þjónustu gagnvart viðskiptavinum okkar og höfum þeirra hagsmuni og þarfir ávalt í huga. Við teljum að þessir þættir hafi ekki haft hvað síst áhrif á gott gengi félagsins hingað til og munum við því halda áfram að vinna að þeirra hag og lítum björtum augum til framtíðar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd