Lífsverk – Lífeyrissjóður Verkfræðinga

2022

Lífsverk lífeyrissjóður, úr sögu VFÍ:
„Á félagsfundi 9. nóvember 1953 drap Hinrik Guðmundsson á það nýmæli, að verkfræðingar ættu að stefna að því að mynda eigin lífeyrissjóð, sem gæti orðið þeim margvísleg stoð. Þegar Stéttarfélagi verkfræðinga var komið á fót, var skipuð lífeyrissjóðsnefnd og áttu í henni sæti Rögnvaldur Þorláksson, Hinrik Guðmundsson og Skúli Guðmundsson. Nefndin undirbjó stofnun lífeyrissjóðs og var ákveðið að tekjur hans skyldu vera 6% af fastalaunum verkfræðinga og jafnhá upphæð á móti frá atvinnurekendum. Lífeyrissjóður VFÍ var stofnaður á félagsfundi 28. september 1954 og var reglugerð sjóðsins samþykkt á framhaldsaðalfundi VFÍ 29. mars 1955 og staðfest af fjármálaráðuneytinu rétt um mánuði síðar. Þá voru sjóðfélagar 76 að tölu. Síðan sjóðurinn var stofnaður hafa verið veitt úr honum húsbyggingalán til félaga þannig hefur hann orðið hin mesta hjálparhella.
Í árslok 1961 var skuldabréfaeign lífeyrissjóðs VFÍ rúmar 12,3 milljónir króna, en á því ári var
23 félagsmönnum veitt lán að upphæð 2.878.000 krónur.“

Fyrsti sjóðurinn sem byggði á aldurstengdum réttindum
Lífsverk lífeyrissjóður var stofnaður 1954 af Verkfræðingafélagi Íslands og hét sjóðurinn þá Lífeyrissjóður verkfræðingafélags Íslands og síðar Lífeyrissjóður verkfræðinga. Sjóðurinn var fyrsti lífeyrissjóðurinn sem byggði á aldurstengdum réttindum og tók upp sjóðfélagalýðræði. Stjórn sjóðsins er öll skipuð sjóðfélögum sem kosnir eru í rafrænu stjórnarkjöri, þar sem allir sjóðfélagar hafa kosningarétt.

Val um ávöxtunarleið
Lífsverk er blandaður lífeyrissjóður sem starfrækir samtryggingardeild og séreingar- og tilgreinda séreignardeild. Sjóðurinn tekur bæði við skylduiðgjaldi í lífeyrissjóð og viðbótarlífeyrissparnaði. Í séreignardeild og tilgreindri séreignardeild býður sjóðurinn þrjár ávöxtunarleiðir með mismunandi áhættustigi, Lífsverk 1, Lífsverk 2 og Lífsverk 3.
Í samtryggingardeild stendur sjóðfélögum til boða að velja milli þess að allt iðgjaldið renni í samtryggingarsjóð (samtryggingarleiðin), eða að 10% iðgjald renni í samtryggingarsjóð, en það sem umfram er í séreignarsjóð (blandaða leiðin). Leiðirnar eru ólíkar með tilliti til erfanleika og útgreiðslna.

Samtryggingarleiðin og góð tryggingavernd
Samtryggingarleiðin felur í sér að allt skylduiðgjaldið rennur til samtryggingardeildar, sem veitir sjóðfélögum aukna tryggingarvernd og hærri ævilangan lífeyri. Réttindaávinnslan fyrir greidd iðgjöld er afar góð hjá sjóðnum. Réttindin felast í greiðslum ævilangs lífeyris , auk tryggingaverndar við starfsorkumissi, þ.e. örorku og barnalífeyri og greiðslu til eftirlifandi maka og barna við fráfall. Tryggingaverndin hefur verið ríkari en hjá mörgum öðrum lífeyrissjóðum. Þá eykst mikilvægi þess að njóta ævilangs lífeyris stöðugt með hækkandi lífslíkum.
Blandaða leiðin og góð réttindaávinnsla
Blandaða leiðin er leið þar sem hluti skylduiðgjalds rennur í séreignardeild. Lífsverk er einn fárra lífeyrissjóða sem býður þennan valkost, sem veitir sjóðfélögum aukinn sveigjanleiga þegar kemur að útgreiðslu lífeyris. Grunnur þessarar leiðar er sá að vegna góðrar réttindaávinnslu í sjóðnum nægir 10% iðgjald til samtryggingardeildar til þess að standa undir lágmarkstryggingavernd samkvæmt lögum, sem miðast við að á 40 ára inngreiðslutíma ávinni sjóðfélagi sér 56% af meðallaunum í ævilangan lífeyri. Sjóðfélagi hefur því val um að ráðstafa því sem umfram er 10% iðgjalds til samtryggingar eða séreignar. Sá hluti sem rennur til séreignar erfist við andlát og enginn erfðafjárskattur er greiddur ef erfingjar eru maki eða börn. Hægt er að velja milli þriggja ávöxtunarleiða og þannig geta yngri sjóðfélagar og þeir sem hafa meira áhættuþol, valið áhættumeiri leiðir og þeir sem eldri eru dregið úr áhættunni. Sjóðfélagar geta flutt séreign sína milli leiða sér að kostnaðarlausu.

Lífeyrissjóður verkfræðinga verður að Lífsverki
Árið 2014 var nafni sjóðsins breytt í Lífsverk lífeyrissjóður. Samþykktum sjóðsins var breytt á árinu 2015 og inngönguskilyrði rýmkuð, þannig að nú geta allir orðið sjóðfélagar sem lokið hafa grunnnámi frá viðurkenndum háskóla. Lífsverk er eini lífeyrissjóðurinn á Íslandi sem eingöngu er opinn háskólamenntuðum. Öllum er heimilt að greiða viðbótarlífeyrissparnað til séreignardeildar Lífsverks með gerð samnings þar um. Lánareglur sjóðsins hafa verið útvíkkaðar þannig að nú geta þeir sem eingöngu greiða viðbótarsparnað til sjóðsins sótt um lán með sömu kjörum og almennir sjóðfélagar.

Hagstæð sjóðfélagalán
Frá stofnun hefur sjóðurinn lagt sig fram um að bjóða hagstæð sjóðfélagalán, í upphafi voru það byggingarlán þar sem minna var um húsnæði í borginni en í seinni tíð hafa það verið sjóðfélagalán til fasteignakaupa, þá sérstaklega við fyrstu íbúðarkaup sjóðafélaga. Því var í apríl 2018 lánareglum Lífsverks breytt á þann hátt að styðja betur við fyrstu kaupendur með því að hækka lánshlutfall fyrir fyrstu kaupendur í 85% af söluverði samkvæmt kaupsamningi.

Samfélagsábyrgð
Lífsverk hefur gerst aðili að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (Principles for Responsible Investment – UN PRI). Með aðild sinni skuldbindur Lífsverk sig til að leggja áherslu á samfélagsleg og umhverfisleg sjónarmið við ákvarðanir um fjárfestingar, auk góðra stjórnarhátta þeirra fyrirtækja sem fjárfest er í.  Aðild Lífsverks er liður í aukinni áherslu sjóðsins á þessi málefni, sem skipa sífellt mikilvægari sess í augum fjárfesta. Þá er Lífsverk einn af stofnaðilum IcelandSIF, sem er íslenskur umræðuvettvangur fyrir ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Lífsverk hefur leitast við að taka í auknum mæli þátt í fjárfestingum sem hafa sterka stefnu í samfélagslegri ábyrgð. Markmið sjóðsins er einnig að stuðla að bættum stjórnarháttum og auka gegnsæi.

Mörkin
Sem dæmi um fjárfestingu sem hefur sterka stefnu í samfélagslegri ábyrgð þá gerðu Lífsverk og Íbúðir eldri borgara í Mörk ehf., samkomulag um langtíma fjármögnun á íbúðum eldri borgara við Suðurlandsbraut 68 – 70. Í samkomulaginu felst að sjóðfélagar Lífsverks njóta ákveðins forgangs við úthlutun á íbúðunum. Lífsverk var þannig fyrsti lífeyrissjóðurinn sem tryggði sjóðsfélögum sínum forgang að íbúðum fyrir eldri borgara. Að sama skapi hafði sjóðurinn áður rétt yngri félagsmönnum hjálparhönd með því að bjóða þeim 85% fjármögnun vegna fyrstu íbúðakaupa. Forgangur að íbúðum eldri borgara að Suðurlandsbraut var því eðlilegt næsta skref.

 

Sérstaða Lífsverks:

  • Sjóðafélagalýðræði
  • Meiri ávinningur réttinda
  • Samfélagsábyrgð
  • Hagstæð sjóðfélagalán
  • Ábyrg fjárfestingastefna
  • Val um sparnaðarleiðir

 

Gildi sjóðsins eru:

  • Heilindi
  • Jákvæðni
  • Ábyrgð

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd