Límtré Vírnet ehf.

2022

Vírnet stofnað 1956
Árið 1956 tóku sig saman nokkrir stórhuga athafnamenn frá Borgarnesi og stofnuðu fyrirtækið Vírnet hf. Var þar Loftur Einarsson fremstur í flokki og leiddi verkefnið. Með þessu vildu þeir skjóta styrkum stoðum undir atvinnulífið heima í héraði og má segja að markmiðið hafi verið mikilvægara en leiðin. Upphaflega stóð til að framleiða vírnet, gaddavír og lykkjur, en fljótlega eftir stofnun félagsins kom í ljós að sá rekstur var bæði dýr og plássfrekur. Í stað þess að leggja árar í bát var ákveðið að hefja framleiðslu á nöglum.
Lengi vel var saumframleiðsla undirstaða Vírnets en átti þó eftir að taka töluverðum breytingum í seinni tíð. Notkun á nöglum hefur farið dvínandi undanfarna áratugi með öðrum festingamöguleikum. Það var svo árið 2016 sem framleiðslu á nöglum var endanlega hætt hjá fyrirtækinu. Ein af undirstöðum fyrirtækisins í dag eru þó klæðningar. Árið 1978 hóf Vírnet að framleiða báruklæðningar úr galvaniseruðu stáli. Fimm árum seinna eða árið 1983 var svo farið að bjóða upp á litað bárujárn. Í dag hefur orðið mikil framþróun í efni og efnisgæðum og stendur báruformið alltaf fyrir sínu.
Þó ekki séu lengur framleiddir naglar í Borgarnesi er þar starfrækt blikksmiðja, járnsmiðja, völsun klæðninga og framleiðsla á kambstálslykkjum og járnabökkum. Einnig er hluti af söludeild fyrirtækisins í Borgarnesi. Blikksmiðja fyrirtækisins sinnir ýmsum sérverkefnum en stærsti hluti framleiðslunnar eru áfellur og álklæðningar. Járnsmiðjan smíðar til að mynda allar stálfestingar í límtréshúsin sem framleidd eru á Flúðum ásamt mörgum sérverkefnum sem koma þar inn á borð. Einnig er sér deild starfrækt út frá járnsmiðjunni sem sér um viðhald og uppsetningu á bílskúrs- og iðnaðarhurðum. Völsunardeildin sér svo um að framleiða báruklæðningar og tvær gerðir trapisuklæðninga úr bæði áli og stáli. Einnig eru þar framleidd spírórör fyrir loftræstikerfi, steypuhólkar og stoðir og leiðarar fyrir milliveggi. Söludeildin sér svo um sölu og ráðgjöf á vörum fyrirtækisins ásamt því að vera með sölu á bílskúrs- og iðnaðarhurðum. Á starfstöð fyrirtækisins í Borgarnesi starfa 45 manns.

Límtré stofnað 1982
Síðsumars árið 1982 var fyrsta skóflustunga tekin af límtrésverksmiðju á Flúðum. Þegar hugmyndir komu upp um framleiðslu á límtré á Íslandi þótti mörgum djarflega teflt fram. En framsýnir frumkvöðlar, með Guðmund Magnússon í broddi fylkingar, létu ekkert stöðva sig enda atvinnuástand í sveitinni frekar bágt á þessum tíma. Flúðir þótti hentugur staður til límtrésframleiðslu enda nægur jarðhiti sem nota átti til að þurrka timbrið. Vélbúnaður til framleiðslu á límtré var keyptur notaður frá Danmörku og var einmitt eitt síðasta verk þeirra véla að framleiða burðarvirkið í nýja verksmiðju sem hýsa átti framleiðsluna á Íslandi. Framleiðsla á límtré hófst svo árið 1983 í nýrri verksmiðju og var fyrsta verkið skeifa sem gefin var til hestamanna í uppsveitum og reist við Murneyri. Árið 1989 kemur Límtré að stofnun fyrirtækis sem átti að framleiða stálsamlokueiningar og reist var verksmiðja í Reykholti til þess. Fyrirtækið fékk nafnið Yleining hf. Það var svo árið 1995 sem þessi tvö fyrirtæki sameinuðust enda ljóst að þar lágu mikil samlegðaráhrif. Framleiðslan á límtré hefur í grunnin verið sú sama frá upphafi. Megin framleiðslan á límtré eru burðarvirki en einnig eru framleiddir beinir bitar fyrir hin ýmsu verkefni. Allt timbur sem notað er við framleiðslu á límtré er greni sem kemur úr sjálfbærum nytjaskógum í Skandinavíu. Undanfarin ár hefur verið unnið að þróunarverkefni sem snýr að framleiðslu á límtré úr íslensku timbri og gerðar hafa verið prófanir úr mismunandi trjátegundum sem sýna að vel sé hægt að framleiða límtré úr þeim. Nú er t.d. unnið að framleiðslu göngu- og reiðbrúar yfir Þjórsá í samvinnu við Landsvirkjun. Brúin er um 102 metra löng þar sem burður brúarinnar verður steypa og stál. Þverbitarnir undir brúardekkið verður svo hið alíslenska límtré sem unnið verður úr sitkagreni úr Haukadalsskógi. Einnig verður dekkið unnið úr sama efni. Er þetta fyrsta verkefnið af þessari stærðargráðu úr íslensku límtré en árið 1995 var Skórægt ríkisins afhent lítil göngubrú sem framleidd var úr lerki frá Hallormstaðarskóg. Árið 2016 var vígð ný og fullkomin verksmiðja við hlið límtrésverksmiðjunnar á Flúðum sem taka átti við af framleiðslunni í Reykholti. Í dag eru þar framleiddar stálsamlokueiningar úr íslenskri steinull og stáli. Framleiðslu á polyúreþaneiningum í Reykholti var því hætt og skipt yfir í umhverfisvænni framleiðslu á yleiningum. Þessar steinullareiningar eru notaðar bæði í þök og á veggi léttbyggðra húsa sem og milliveggi. Á starfstöð fyrirtækisins á Flúðum starfa 18 manns.

Límtré Vírnet ehf.
Það var um mitt árið 2000 sem Límtré kaupir allt hlutafé í Vírnet og í framhaldinu einnig Garðastál. Var rekstur þeirra tveggja síðarnefndu svo sameinaður í byrjun árs 2001 undir nafninu Vírnet Garðastál. Fjórum árum seinna eða árið 2005 sameinast svo Límtré og Vírnet Garðastáli undir nafni Límtré Vírnets. Í dag eru aðalskrifstofur fyrirtækisins til húsa á Lynghálsi 2 í Reykjavík. Þar er staðsett byggingarsvið, söluskrifstofa, innkaupadeild ásamt lagerhúsnæði. Byggingarsvið fyrirtækisins skiptist í tvær deildir, annars vegar sölu og ráðgjöf á húsnæði og hinsvegar hönnun. Að stærstum hluta er þetta límtréshúsnæði úr framleiðslu fyrirtækisins á límtré og steinullareiningum á Flúðum. Einnig er boðið upp á svokallaðar CLT einingar og stálgrindarhús ef svo á við. Á aðalskrifstofu fyrirtækisins er starfrækt sölusvið sem bíður upp á ráðgjöf varðandi álklæðningar. Einnig snýr salan að miklu leyti um íhluti og fylgihluti fyrir uppsteypu burðarvirkja. Lagerinn sér svo um móttöku og útkeyrslu á vörum til viðskiptavina. Á starfstöð fyrirtækisins á Lynghálsi starfa 22 manns.

Lokaorð
Límtré Vírnet hefur þjónustað byggingariðnaðinn allt frá stofnun Vírnets eða í 65 ár. Töluverðar breytingar hafa orðið í byggingariðnaði síðustu áratugi og hefur fyrirtækið kappkostað að koma með nýungar og fylgja framþróuninni. Hjá fyrirtækinu starfar fólk með mikla reynslu af flestum sviðum byggingariðnaðarins þar sem stór hluti starfsmanna er með iðnmenntun eða tæknimenntun. Markmiðið frá upphafi hefur alltaf verið það sama og það er að vera íslenskt framleiðslufyrirtæki með góða þjónustu og gæða vöru. Meðan að því markmiði er framfylgt ætti framtíð fyrirtækisins að vera björt.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd