Listasafn Íslands

2022

Listasafn Íslands er höfuðsafn íslenska ríkisins á sviði myndlistar. Hlutverk þess er fjölþætt en grunnur starfseminnar byggir á þeirri ríkulegu safneign sem endurspeglar íslenska listasögu á 20. og 21. öld og á sér ekki hliðstæðu í öðrum söfnum.
Listasafn Íslands er elsta myndlistarsafn þjóðarinnar, stofnað árið 1884 í Kaupmannahöfn af Birni Bjarnarsyni (1853–1918) þá lögfræðikandídat og síðar alþingismanni og sýslumanni. Framtak Björns lýsir stórhug hans og trú á framtíð þjóðarinnar og mikilvægi myndlistar og menningarstarfsemi í sýn hans.
Árið 1988 flutti Listasafn Íslands í eigin húsakynni, við Fríkirkjuveg 7 sem setur sterkan svip á einstaka götumynd við austurhluta Tjarnarinnar í Reykjavík. Vatnaskil urðu í starfsemi safna á Íslandi við þennan flutning, því listasafn þjóðarinnar hlaut þar með loks þann meðbyr sem þurfti til nútímalegrar starfsemi. Fólst það meðal annars í þeirri nýbreytni að ráðinn var safnkennari sem tók á móti skólahópum. Kaffihús var opnað fyrir gesti sem var nýlunda og naut fádæma vinsælda í þeirri glæsilegu umgjörð sem safninu var búin.
Sama ár og Listasafn Íslands var opnað í miðborg Reykjavíkur tók það formlega við húseign listmálarans Ásgríms Jónssonar við Bergstaðastræti, sem hann ánafnaði ríkinu við andlát sitt 1958 og hafði verið safn um árabil. Árið 2012 afhenti fjölskylda Sigurjóns Ólafssonar myndhöggvara Listasafni Íslands til gjafar, drjúgan hluta listaverkasafns sem var tileinkað listamanninum ásamt húseign og öðrum eigum þeirrar sjálfseignarstofnunar sem hélt utan um safnið á Laugarnestanga. Snemma árs 2021 tók mennta- og menningarmálaráðherra Lilja D. Alfreðsdóttir ákvörðun um að færa Safnahúsið við Hverfisgötu frá Þjóðminjasafni til Listasafnsins. Mun Listasafn Íslands setja þar upp grunnsýningu á myndlistararfinum með sérstakri áherslu á vísinda- og fræðslustarf fyrir börn. Þessi fjögur safnhús eru til marks um ólíkar áherslur í sýninga- og safnastarfi og eru opin allt árið.

Starfsfólk
Við safnið starfa rúmlega 20 manns í um 17 stöðugildum, með ólíka menntun og reynslu, og byggja upp fjölþætta starfsemi á sviði listfræðirannsókna, forvörslu, markaðssetningar, fræðslu, skráningarvinnu, öryggis- og gestamóttöku og almenns rekstrar húseigna og starfseininga.

Sýningar, safneign og útgáfur
Listasafn Íslands er meginsafn íslenskrar myndlistar í landinu. Sýnilegasti hluti starfseminnar felst í sýningahaldi en um langt árabil hafa fjölbreyttar listsýningar veitt þekkingu og aflað íslenskri myndlist vitnisburðar um þá miklu grósku og þann metnað sem hér ríkir á þessu sviði. Sýningastarfsemin byggir á rannsóknum sérfræðinga safnsins og oft er leitað samstarfs við innlenda og erlenda fræðimenn. Samhliða sýningahaldi er Listasafn Íslands öflugasti útgefandi landsins á bókum og sýningarskrám um íslenska myndlist. Svo dæmi sé tekið, þá hafði Listasafn Íslands yfirumsjón með útgáfu á Íslenskri listasögu sem kom út í 5 bindum árið 2011 og árið 2019 gaf safnið út vandaða bók um 130 verk úr safneign safnsins. Listasafn Íslands starfrækir einstakt heimildasafn um íslenska myndlist og geta fræðimenn og nemendur notið þjónustunnar sem þar er veitt og önnur söfn og erlendar stofnanir leitað þar upplýsinga og fengið heimildir um íslenska listasögu.
Ríkar skyldur eru lagðar á Listasafn Íslands gagnvart myndlistarlífinu í landinu. Samkvæmt myndlistarlögum nr. 64/2012 skal safnið veita öðrum listasöfnum ráðgjöf, stuðla að samvinnu listasafna og vinna að samræmdri safnastefnu á sviði myndlistar. Árlega eru keypt ný verk og reglulega berast listaverk að gjöf og ýmsar heimildir frá listamönnum og velunnurum og varðveitir Listasafn Íslands nú rúmlega 13 þúsund verk í safneign sinni.
Útlán listaverka safnsins hafa færst í vöxt á síðustu árum og ber það vott um hversu öflug starfsemin er orðin í íslenskum listasöfnum víða um land. Ennfremur hafa íslenskir myndlistarmenn og íslensk myndlist notið viðurkenningar í auknum mæli á alþjóðlegum vettvangi og sífellt verður algengara að óskað er eftir verkum Listasafns Íslands á sýningar í erlendum söfnum. Safnið hefur um árabil átt mikilvægt samstarf við íslensk og erlend sendiráð og íslensk stjórnvöld um kynningu á íslenskri myndlist og haldið sýningar á alþjóðlegri myndlist í töluverðum mæli.

Áherslur safna: Rödd, sýnileiki og þjónusta
Nýjar áherslur hafa orðið áberandi í safnastarfi á síðustu árum. Með eflingu stafrænnar miðlunar og þróun Internetsins auk ýmissa samskiptamiðla hefur fjölbreytt starfsemi safna orðið mun sýnilegri. Aukning ferðamanna um allan heim hefur vitaskuld einnig haft sitt að segja. Víða mætir starfsemin skilningi og yfirvöld ættu að horfa til safna sem nauðsynlegra innviða til aukinnar menntunar og þekkingarsköpunar. Rödd einstaks safns getur hreyft við umræðum með mikilvægum hætti, ekki síst innan samfélaga sem verða æ einsleitari.
Listasafn Íslands hefur lagt ríka áherslu á þjónustuhlutverk sitt með það að markmiði að heimsókn í safn verði eðlilegur þáttur í lífi fólks. Fjölbreyttar viðburða- og fræðsludagskrár eru mikilvægar í þessu samhengi. Hlutverk Krakkaklúbbsins Krumma sem var stofnaður 2018 er að horfa til þarfa yngstu gestanna sem koma utan venjubundinna skólaheimsókna. Gæðastundir eru ætlaðar eldri borgurum, sem njóta miðlunar sérfræðinga safnsins í heimsóknum sínum. Leiðsagnir um sýningar skipa ávallt vinsælan sess í fræðslustarfsemi og málþing og ráðstefnur um málefni tengd myndlist og starfsemi safna eru meðal þeirra mikilvægu viðburða sem safnið stendur reglulega fyrir.
Í lok árs 2018 var Listasafns Íslands í fararbroddi að semja við samtök höfundarréttarhafa myndhöfunda um myndbirtingar á listaverkum úr rafrænum safnskrám á netinu. Almenningur og skólasamfélagið getur nú skoðað safneign Listasafns Íslands að vild og nýtt þær upplýsingar sem safnmunaskráin www.sarpur.is veitir.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd