Ljósmæðrafélag Íslands var stofnað þann 2. maí 1919 við Laugaveg 20 í Reykjavík. Tilgangur stofnunar félagsins var að gæta hagsmuna íslenskra ljósmæðra og voru stofnendur félagsins 20 ljósmæður, þar af tíu nýútskrifaðar aðeins mánuði áður en félagið var sett á fót. Fyrsti formaður Ljósmæðrafélags Íslands var Þuríður Bárðardóttir sem gegndi hlutverkinu í 27 ár frá 1919-1946. Í dag er formaður félagsins Unnur Berglind Friðriksdóttir sem var kjörin 2021 og tók þá við af Áslaugu Írisi Valsdóttur sem gegnt hafði starfinu frá 2013.
Ljósmæðrafélag Íslands hefur alla tíð lagt mikla áherslu á hagsmunamál ljósmæðra og skjólstæðinga þeirra og barist fyrir réttindum stéttarinnar og gengt þar hlutverki bæði fag- og kjarafélags. Meginmarkmið félagsins hafa meðal annars snúið að umsjón kjarasamninga, eflingu ljósmæðra og að hafa eftirlit með og gæta að menntun þeirra.
Menntun ljósmæðra og starfsréttindi
Saga menntunar ljósmæðra er löng en skipulögð ljósmæðrakennsla á Íslandi má segja að hefjist með erindisbréfi fyrsta landlæknis þjóðarinnar, Bjarna Pálssonar, sem kjörinn var í embættið árið 1760. Í gegnum tíðina hafa merk tímamót og breytingar á menntun þessarar fagstéttar átt sér stað. Þann 15. janúar 1996 hófst nýtt nám í ljósmóðurfræði við Háskóla Íslands þar sem ljósmæður fengu loks sjálfar að stýra námi sínu og er það eitt helsta undirstöðuatriði þess að stéttin sé skilgreind sem fagstétt. Í dag er ljósmóðurnámið tveggja ára framhaldsnám að loknu grunnnámi í hjúkrunarfræði og lýkur með meistaragráðu til starfsréttinda (MS) en fram til 2019 lauk því með embættisprófi (candidate obstetricorum).
Baráttan fyrir starfsréttindum og menntun ljósmæðra sem fagstéttar er að miklu að þakka starfsemi Ljósmæðrafélags Íslands. Staða ljósmæðra í tengslum við aðrar fagstéttir innan heilbrigðissviðsins hefur oft verið til umræðu. Nefna má að á aðalfundi Ljósmæðrafélags Íslands þann 9. maí 1981 var sú staðreynd til umfjöllunar að ýmsar starfsstéttir í heilbrigðisþjónustu gegndu nú störfum ljósmæðra og spyrna þyrfti við þeirri þróun.
Starfsemin
Ljósmæðrafélag Íslands heldur áfram að standa vörð um málefni ljósmæðra og berjast fyrir bættum kjörum þeirra sem þessu mikilvæga hlutverki sinna. Þau mál sem helst hafa verið á oddi Ljósmæðrafélags Íslands síðastliðin ár snerta það mikla álag sem ljósmæður eru undir en aldrei hefur áður vantað jafn margar ljósmæður til starfa og nú. Vandamálið á sér marga vinkla að sögn Unnar Berglindar Friðriksdóttur, núverandi formanns Ljósmæðrafélags Íslands en í viðtali við MBL lýsir hún því að skort á starfsfólki megi rekja til þess að margar ljósmæður hrökklist úr starfi vegna álags og hve stór hluti starfandi ljósmæðra sé að fara á eftirlaun og of fáar ljósmæður útskrifist úr námi á ári hverju á móti. Segir hún mannekluna mikið áhyggjuefni, sérstaklega með tilliti til þess hve mikil fjölgun hefur verið á verkefnum ljósmæðra.
Hlutverk
Hlutverk Ljósmæðrafélags Íslands snýr þó ekki eingöngu að menntun ljósmæðra og kjarabaráttu heldur gegnir félagið lykilhlutverki í vitundarvakningu og fræðslu tengdri sviði ljósmæðra. Félagið er einnig í góðu samstarfi við erlendar ljósmæður í gegnum erlend samtök ljósmæðra eins og Nordisk Jordemoder Forening (NJF), European Midwives Association (EMA) og International Confederation of Midwifes (ICM).
Fræðsla
Ljósmæðrafélag Íslands hefur haldið úti sérstökum fræðsluvef, ljosmodir.is, þar sem nálgast má fjölbreytt og áreiðanlegt fræðsluefni fyrir foreldra. Að auki sér félagið um að halda ráðstefnur, fræðsludaga og námskeið m.a. með því að skipuleggja heimsóknir erlendra fyrirlesara. Þá má einnig nefna Ljósmæðrablaðið, tímarit Ljósmæðrafélags Íslands, en þar koma tvö tölublöð út á ári hverju. Blaðið kom fyrst út árið 1922 og á því á þessu ári hundrað ára afmæli á þessu ári. Núverandi ritstjóri þess er Ólöf Ásta Ólafsdóttir.
Afmæli
Árið 2019 voru hundrað ár liðin frá stofnun Ljósmæðrafélags Íslands og var því fagnað með pomp og prakt. Minningarsteinn var lagður í stéttina við húsið á Laugavegi 20 og áttu Ljósurnar, deild eldri ljósmæðra heiðurinn að þeirri hugmynd og sáu um alla framkvæmd. Fjölmargar ljósmæður voru viðstaddar athöfnina og skörtuðu íslenska þjóðbúningnum í tilefni dagsins. Að auki var ákveðið að halda skyldi daginn hátíðlegan með ritun nýrrar bókar sem færi ítarlega yfir sögu félagsins síðustu öldina og kom bókin Ljósmæðrafélag Íslands í 100 ár út árið 2021. Í Ritnefnd sátu Áslaug Íris Valsdóttir Petty, Álfheiður Árnadóttir, Harpa Ósk Valgeirsdóttir, Hildur Kristjánsdóttir, Inga Sigríður Árnadóttir, og Ólöf Ásta Ólafsdóttir sem einnig sá um ritstjórn söguhluta.
Framtíðarsýn
Ljósmæðrafélag Íslands heldur áfram að gegna mikilvægu hlutverki í verndun og stuðningi ljósmæðrastéttarinnar, sinna réttindabaráttu af krafti sem og að stuðla að sí- og endurmenntun fyrir ljósmæður, sem og að standa vörð um þá þjónustu sem stendur fjölskyldum til boða í barneignarferlinu.
Stjórnendur
Í dag eru skráðir meðlimir í Ljósmæðrafélaginu tæplega 300 og í stjórn sitja Unnur Berglind Friðriksdóttir, formaður; Inga M. H. Thorsteinsdóttir, varaformaður; Gréta María Birgisdóttir, ritari; Bryndís Ásta Bragadóttir, gjaldkeri; Jóhanna Óalfsdóttir, Guðlaug María Sigurðardóttir og Hafdís Guðnadóttir meðstjórnendur.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd