Loðnuvinnslan hf. (LVF) var stofnuð 29. október 2001 og er dótturfélag Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga sem stofnað var 6. ágúst 1933 og starfar enn af miklum dug, en nú sem eignarhaldsfélag og aðaleigandi Loðnuvinnslunnar. Kaupfélagið hefur starfað á Fáskrúðs-
firði í tæp 90 ár og á upphafsárum þess stundaði félagið eingöngu verslunarrekstur en með árunum varð sjávarútvegurinn stöðugt stærri þáttur í starfsemi félagsins. Fiskverkun hófst þegar á upphafsárum en útgerð árið 1953. Félagið hefur alla tíð rekið umfangsmikla atvinnustarfsemi á Fáskrúðsfirði. Má þar nefna verslun, sláturhús og sölu landbúnaðarvara, fiskvinnslu, útgerð, fiskmjölsverksmiðju, vélaverkstæði, rafmagnsverkstæði og trésmíðaverkstæði. Þá var félagið með umboð fyrir Olíufélagið hf. og Samvinnutryggingar um langt árabil eða allt frá stofnun þess 1964. Einnig rak félagið Gistihúsið Valhöll, þar sem líka var veitingarekstur.
Kaupfélagið hefur allt frá stofnun þess og fram til dagsins í dag reynt eftir megni að styðja við góð samfélagsleg verkefni á félagssvæði sínu. Á árunum 1994 til 2001 var starfandi hlutafélag undir nafninu Loðnuvinnslan, sem rak fiskmjölsverksmiðju og átti Kaupfélagið 42% eignarhlut í umræddu félagi. Þegar tekin var sú ákvörðun að færa rekstur sjávarútvegshluta kaupfélagsins í hlutafélag var fiskmjölsverksmiðjan sameinuð hinu nýja félagi og ákveðið var að halda nafninu Loðnuvinnslan hf. Vefsíða: www.lvf.is
Stjórn Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga skipa:
Steinn Jónasson stjórnarformaður, Elvar Óskarsson, Högni Páll Harðarson, Arnfríður Hafþórs-dóttir og Óskar Þór Guðmundsson. Varamenn í stjórn eru: Elsa Sigrún Elísdóttir, Jóna Björg Jónsdóttir og Ólafur Níels Eiríksson. Kaupfélagsstjóri er Friðrik Mar Guðmundsson.
Stjórn Loðnuvinnslunnar skipa:
Elvar Óskarsson stjórnarformaður, Högni Páll Harðarson, Steinn Jónasson, Elsa Sigrún Elísdóttir og Arnfríður Hafþórsdóttir. Varamenn í stjórn: Jóna Björg Jónsdóttir og Jónína Guðrún Óskarsdóttir. Framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar er Friðrik Mar Guðmundsson.
Starfsemin í dag
Loðnuvinnslan rekur í dag tvö frystihús, annað fyrir bolfisk og hitt fyrir uppsjávarfisk, fiskmjölsverksmiðju, síldarverkun, gerir út togarann Ljósafell SU 70 og fjölveiðiskipið Hoffell SU 80. Auk þess rekur LVF vélaverkstæði, rafmagnsverkstæði og trésmíðaverkstæði. Einnig starfrækir félagið frysti- og kæligeymslu sem er á viðlegukanti og rúmar um 10.000 tonn af afurðum. Á undan förnum árum hefur fyrirtækið lagt mikla áherslu á að tæknivæða alla vinnslu og hefur nú yfir að ráða nútímalegum og tæknivæddum frystihúsum fyrir bæði uppsjávarfisk og bolfisk. Þá hefur mikil endurnýjun átt sér stað í fiskmjölsverksmiðjunni og allri starfsemi tengdri henni. Verulegar fjárfestingar í aflaheimildum hafa farið fram undanfarin ár sem gerir það að verkum að skip fyrirtækisins og landvinnslan hafa næg verkefni.
Mikið hráefni hefur einnig verið keypt af erlendum skipum, s.s. loðna og kolmunni sem allt fer til vinnslu í bræðslu og uppsjávarfrystihúsi LVF á Fáskrúðsfirði.
Loðnuvinnslan kemur líka að útgerð tveggja línubáta, annars vegar í gegnum dótturfélagið Hjálmar ehf sem á og rekur línubátinn Sandfell SU 75, og hins vegar í gegnum 49% hlutdeild í Háuöxl ehf. sem á og rekur línubátinn Hafrafell SU 65.
Tilgangur og markmið
Aðaltilgangur og markmið Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga er að stuðla að öflugu atvinnulífi á Fáskrúðsfirði og með því tryggja heimamönnum ásættanleg búsetuskilyrði. Með þessu fyrirkomulagi, þ.e að Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga og þar með Fáskrúðsfirðingar sjálfir, séu aðaleigendur Loðnuvinnslunnar (83%) hefur náðst að tryggja eignarhald heimamanna á atvinnustarfseminni og þar með aflaheimildum. Með eignarhaldi af þessu tagi nýtur Loðnuvinnslan nokkura sérstöðu því það eru í raun félagar í Kaupfélaginu, íbúar Fáskrúðs-fjarðar, sem hafa bæði töglin og hagldirnar og samkvæmt lýðræðislegum reglum er fólk kosið til stjórnarsetu. Vegna þessarar sérstöðu fer sá hagnaður sem kann að myndast af rekstrinum til uppbyggingar fyrirtækisins og út í samfélagið í formi styrkja sem Loðnuvinnslan veitir af miklum myndarskap. Á síðustu 8 árum hefur Loðnuvinnslan og Kaupfélagið styrkt félagasamtök í samfélaginu um samtals 230 milljónir.
Framtíðarsýn
Framtíðarsýn Loðnuvinnslunnar er nokkuð skýr og fjallar um frekari tæknivæðingu og hagræðingu varðandi húsnæði starfseminnar en hún fer öll fram á Fáskrúðsfirði.
Mannauður
Hjá LVF starfa um 170 manns að jafnaði. Fyrirtækið er afar ríkt af mannauði og innan raða þess starfar fólk með hina ýmsu sérfræðiþekkingu. Þá bíður LVF upp á námskeið fyrir starfsfólk og virkt starfsmannafélag er starfandi.
Rekstur
Rekstur Loðnuvinnslunnar hefur gengið vel undanfarin misseri og hefur fyrirtækið skilað umtalsverðum hagnaði síðustu ár. Uppbygging innviða hefur gengið hratt og vel. LVF hefur styrkt stöðu sína og stendur föstum fótum í íslenskum sjávarútvegi sem glögglega má sjá á góðri afkomu síðustu ára.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd