Verktakafyrirtækið Loftorka Reykjavík ehf. byggir á traustri reynslu og þekkingu á flestum gerðum jarðvinnuverkefna og malbikunar. Fyrirtækið hefur einnig komið að ýmiss konar öðrum tilfallandi eða tímabundnum verkefnum.
Eitt elsta verktakafyrirtæki landsins
Loftorka Reykjavík ehf. er eitt elsta verktakafyrirtæki í landinu, stofnað árið 1962. Stofnendurnir voru tvenn hjón sem tengdust fjölskylduböndum, Sigurður Sigurðsson, Sæunn Andrésdóttir, Konráð Andrésson og Margrét Björnsdóttir. Loftorka var í upphafi vélaleiga sem átti loftpressur og hafði einn mann í vinnu. Fljótlega tóku við stærri verkefni eins og lagning hitaveitu í ný hverfi á höfuðborgarsvæðinu. Síðan hafa fá hverfi verið byggð upp á höfuðborgarsvæðinu án þess að Loftorka Reykjavík hafi tekið þátt í því með einhverjum hætti. Mikil reynsla af margvíslegum framkvæmdum og ákveðinn stöðugleiki sem reynslan skapar er án efa ein helsta ástæða fyrir langlífi Loftorku Reykjavík ehf. Fyrirtækið hefur átt því láni að fagna að starfsmenn fyrirtækisins hafa upp til hópa starfað þar lengi og byggt upp einstaka verkþekkingu.
Sagan
Upphaflega fyrirtækinu, Loftorku, var skipt upp í Loftorku Reykjavík og Loftorku Borgarnesi árið 1985 eftir að starfsemin hafði um langt skeið dafnað vel á báðum stöðum. Þá þegar höfðu fyrirtækin byggt upp ákveðna verkaskiptingu. Samstarf þessara fyrirtækja var áfram mikið og farsælt. Reykjavíkurhluti fyrirtækisins var í eigu Sigurðar og Sæunnar. Eftir fráfall Sigurðar snemma árs 2003 tók Sæunn við stjórnarformennsku og sinnti því hlutverki til ársins 2016. Í ársbyrjun 2017 varð sú breyting á að bræðurnir Ari Sigurðsson og Andrés Sigurðsson og eiginkonur þeirra, Anna Ólafsdóttir Björnsson og Hjördís Jóna Gísladóttir, keyptu Loftorku Reykjavík ehf. af móður þeirra bræðra, Sæunni Andrésdóttur. Ari og Andrés hafa unnið nær allan sinn starfsaldur hjá Loftorku og gengt þar ýmsum hlutverkum og voru gerkunnugir starfseminni. Ákveðið var að reka Loftorku í óbreyttri mynd og hefur það verið gert. Andrés er nú framkvæmdarstjóri Loftorku og Ari forstjóri fyrirtækisins og stjórnarformaður.
Stórverkefni og framþróun
Loftorka Reykjavík ehf. sérhæfir sig í jarðvinnuverkefnum, gatnagerð og malbikun. Malbikun hefur verið stór og vaxandi þáttur í rekstrinum frá því í upphafi áttunda áratugsins. Vegagerðarverkefni hafa verið unnin víða um land og gríðalegar vegalengdir lagðar bundnu slitlagi. Fyrirtækið hefur svo í samstarfi við önnur fyrirtæki byggt upp hafnir og virkjanir og má þar nefna Hrauneyjafossvirkjun, Blönduvirkjun, Sundahöfn og Helguvíkurhöfn. Stór verkefni í vegagerð hafa verið áberandi í verkefnavali Loftorku á síðustu árum. Þar má nefna nýjan Arnarnesveg frá Reykjanesbraut til Fífuhvammsvegar, breikkun og endurbætur Grindavíkurvegar og mislæg gatnamót á mótum Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar, sem byggð voru á undraskömmum tíma á árinu 2017 í samstarfi við Suðurverk. Þá hefur Loftorka séð um jarðvinnu, svo sem gatnagerð, lagnir og grafið fyrir húsgrunnum í nýjum hverfum á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum, stundum í samvinnu við aðra verktaka. Má þar nefna fyrsta áfanga Urriðaholts í Garðabæ, nýbyggingahverfi við Efstaleiti í Reykjavík, Nónhæð í Kópavogi og í miðbæ Álftaness.
Nýjungar
Loftorka hefur um margra ára skeið staðið fyrir þeirri nýbreytni að flytja inn malbikunarvélar frá NCC í Svíþjóð til notkunar við svokallað ,,repave“. Þessi aðferð byggist á því að malbikið er hitað með gasi, kantar skafnir niður í hjólför og nýtt malbik lagt yfir. Vélarnar hafa komið til landsins á sumrin og verið í notkun mislengi eftir því sem verkefni hafa boðið upp á. Aðferðin er jafngild venjulegri fræsingu og yfirlögn á malbiki.
Mannauður og mikil reynsla á útboðsmarkaði
Starfsmenn Loftorku eru að jafnaði 50-60 auk sumarstarfsfólks eftir þörfum. Starfsmönnum hefur boðist ýmiss konar símenntun í formi námskeiða. Þar er lögð áhersla á hagnýta fræðslu en ekki síður að gæta öryggis starfsmanna í hvívetna.
Fyrirtækið hefur byggt upp öflugan tækjakost og hefur endurnýjað hann markvisst á síðustu árum. Loftorka Reykjavík ehf. er í eigin húsnæði við Miðhraun 10 í Garðabæ og þar er skrifstofa, tæknideild, verkstæði og vélamiðstöð.
Verkefnin
Loftorka Reykjavík ehf. er að mörgu leyti af heppilegri stærð fyrir þá starfsemi sem fyrirtækið hefur byggt upp og miðað við þau verkefni sem aðallega hefur verið sóst eftir undanfarin ár. Verkefnin hafa jafnan skipt miklu máli um þróun fyrirtækisins. Hagur þess byggir á því að vandað sé vel til undirbúnings og gerðar tilboða á þeim útboðsmarkaði sem Loftorka vinnur á. Nær öll stærstu verkefni fyrirtækisins eru útboðsverk. Loftorka leitast jafnan við að nýta sem best tækjakost fyrirtækisins, mannauð og fyrri reynslu af sambærilegum verkefnum en vera jafnframt opið fyrir þátttöku í nýjum verkefnum sem geta krafist nýrrar nálgunar og aukinnar þekkingar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd