Umdæmið og íbúafjöldi
Embætti Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra varð til með sameiningu lögreglu-embættanna í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum árið 2015. Þá var settur sérstakur lögreglustjóri yfir embættið en áður höfðu sýslumenn farið með lögreglustjórn, hvor í sínu umdæmi. Fyrsti lögreglustjóri hins nýja embættis var Halla Bergþóra Björnsdóttir. Þann 13. júlí 2020 tók Páley Borgþórsdóttir við starfi lögreglustjóra við embættið. Umdæmið er eitt það stærsta á Íslandi og þekur tæplega 23.300 ferkílómetra landsins, allt frá miðjum Tröllaskaga austur að Bakkafirði og upp að Hofsjökli og Vatnajökli. Íbúafjöldi á svæðinu er yfir 30.000, þar af um 19.000 á Akureyri.
Lögreglustöðvar og mannafli
Í umdæminu eru lögreglustöðvar á Siglufirði, Dalvík, Akureyri, Húsavík og Þórshöfn. Á Akureyri er sólarhringsvakt og eru 6 lögreglumenn á útkallsvakt hverju sinni. Lögð er áhersla á að fjölga lögreglumönnum sem sinna útköllum á Akureyri upp í 7 á vakt enda hefur mannfjölda-þróun og aukin verkefni kallað eftir því. Á Húsavík eru 9 lögreglumenn, 1 á Þórshöfn og 5 á Tröllaskaga (Dalvík og Siglufirði). Við embættið starfar 9 manna rannsóknardeild,
3 lögfræðingar á ákærusviði, 2 rannsakendur sem sinna útlendingamálum og landamæralög-
gæslu, 2 lögreglumenn og 1 sérfræðingur í eftirliti með þungaflutningum, skrifstofustjóri, málaskrárritari, boðunarmaður og valdbeitingaþjálfari. Einn starfsmaður í rannsóknardeild er jafnframt umsjónarmaður fíkniefnaleitarhunds. Yfirlögregluþjónn embættisins er Kristján Kristjánsson en aðstoðaryfirlögregluþjónar eru yfir útkallsdeild og rannsóknardeild.
Árið 2015 störfuðu 7 konur við löggæslu hjá embættinu en árið 2019 er sú tala komin upp í 16. Um tíma var erfitt að fá menntaða lögreglumenn í stöður sem losnuðu en með tilkomu lögreglunáms við Háskólann á Akureyri og mikilli aðsókn í það nám, hefur sú staða breyst mjög til batnaðar. Lögreglustöðin á Akureyri var tekin í notkun árið 1968. Með sameiningu embætta 2015 fjölgaði starfsmönnum í húsinu til muna og er svo komið nú að húsrýmið rýmir vart þá starfsemi sem þar fer fram. Það er því knýjandi að ráða bót þar á og er sú vinna nú farin af stað. Aðrar lögreglustöðvar embættisins hafa allar fengið andlitslyftingu undanfarin ár og henta starfseminni ágætlega.
Starfsemin
Skráð verkefni hjá embættinu á árinu 2018 voru 10.466 og stefnir í að þau verði talsvert fleiri á árinu 2019. Um er að ræða fjölbreytta flóru verkefna, sem vissulega draga dám af þjóðfélagsbreytingum, sprengingu í ferðamannaiðnaði og sífellt ,,smækkandi heimi“, sem veldur því að skipulögð glæpastarfsemi er nú orðin ein helsta ógnin sem steðjar að íslensku samfélagi. Lögreglan á Norðurlandi eystra heldur úti sérstöku eftirliti á þjóðvegum umdæmisins en er einnig með skipulagt eftirlit á hálendinu yfir sumarmánuðina. Mikill fjöldi ferðamanna leggur leið sína gegnum umdæmið og voru t.d. yfir 200 komur skemmtiferðaskipa til Akureyrar 2019. Þá er Akureyrarflugvöllur skilgreindur Schengen-millilandaflugvöllur og varaflugvöllur fyrir Keflavík. Þar hefur á undanförnum árum verið talsverð uppbygging í áætlunarflugi en með því hefur orðið sú breyting að landamæralöggæsla er orðin mun fyrirferðarmeiri en áður í störfum lögreglunnar. Skipulögð brotastarfsemi hefur birst í því að vart hefur orðið við hópa erlendra aðila sem fara um landið og stunda fjársvik og þjófnaði í híbýlum manna. Einnig hefur verið aukning í rannsóknum á vændi og vinnumansali auk þess sem netglæpir ýmiss konar verða sífellt algengari. Allt kallar þetta á sérstakt viðbragð lögreglunnar og meiri tækjabúnað og sérþekkingu. Þjálfun lögreglumanna hefur einnig aukist mjög undanfarin ár. Er þar um að ræða bæði æfingar í handtökuaðferðum og meðferð vopna og annarra valdbeitingartækja. Einnig eru æfð reglulega viðbrögð við meiriháttar atvikum, s.s. skotárásum og glæpum í flugvélum. Í umdæminu eru virk jarðskjálftasvæði og eldstöðvar og því eru æfingar og áætlanagerð vegna viðbragða lögreglu í almannavarnarástandi snar þáttur í starfseminni.
Tilraunaverkefni
Frá því að embættið var stofnað þann 1. janúar 2015 hefur mikil áhersla verið lögð á vandaða málsmeðferð og liður í því hefur verið að leita leiða til að bæta upplifun brotaþola af réttarvörslukerfinu. Fljótlega eftir að embættið var stofnað var farið að vinna að sérstökum umbótaverkefnum í samstarfi við hina ýmsu aðila. Eitt þeirra var að innleiða nýtt verklag við kynningar á niðurfellingu kynferðisbrotamála. Þessi tilhögun hefur mælst vel fyrir og árangurinn af verkefninu vakið athygli þannig að önnur embætti hafa síðar tekið upp verklagið. Síðara umbótaverkefnið fól í sér að brotaþolum í alvarlegum kynferðisbrotamálum var boðið viðtal við sálfræðing, sér að kostnaðarlausu, strax að lokinni skýrslutöku hjá lögreglu, einskonar sálræn fyrsta hjálp. Þá hefur embættið leitt vinnu við að koma á fót miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi, í samstarfi við fleiri. Miðstöðin sem fékk nafnið Bjarmahlíð var formlega opnuð á vormánuðum 2019. Einnig kom embættið að vinnu við að koma á fót útibúi frá Barnahúsi á Norðurlandi, því fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og var útibúið opnað formlega þann 1. apríl 2019.
Framtíðin
Til framtíðar telur lögreglustjóri að nauðsynlegt sé að styrkja enn frekar löggæslu á svæðinu, m.a. með fjölgun í útkallsliði lögreglu. Markmiðið er einnnig að halda áfram að jafna kynjahlutföll innan lögreglunnar og að halda áfram að efla starfsemina almennt. Þá stefnir embættið enn fremur á að halda áfram að vera í fararbroddi með þróun á verklagi til hagsbóta fyrir þá sem til lögreglu leita. Í starfsemi hverrar stofnunar er mannauðurinn hvað mikilvægastur, þekking og reynsla þeirra sem við embættið starfa er lykilþáttur í árangursríku starfi. Það er markmið embættisins að vera áfram eftirsóknarverður vinnustaður og að halda áfram að efla þá mikilvægu þjónustu sem embættið veitir, samfélaginu til heilla.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd