Lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra

2022

Um áramótin 2014 og 2015 gengu í gildi einar umfangsmestu breytingar í sögu lögreglunnar á Íslandi, þegar fullur aðskilnaður varð á milli sýslumanna og lögreglunnar í landinu. Lögregluliðin á Blönduósi og Sauðárkróki voru sameinuð í Lögregluna á Norðurlandi vestra með aðalaðsetur lögreglustjóra á Sauðárkróki en lögreglustöð er jafnframt á Blönduósi. Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra er með aðsetur á Blönduósi. Lögreglustjóri hjá þessu nýja sameinaða embætti var skipaður Páll Björnsson sem áður hafði gengt embætti sýslumanns á Höfn í Hornafirði. Þann 1. apríl 2017 lét Páll af störfum og við tók Gunnar Örn Jónsson sem áður starfaði sem staðgengill lögreglustjórans á Suðurlandi. Gunnar gegnir enn störfum lögreglustjórans á Norðurlandi vestra, þegar þetta er ritað. Fastir starfsmenn embættisins eru 22 sem að skiptast í yfirstjórn, rannsóknar-, umferðar-, og almenna deild. Að auki starfa hjá embættinu 6 héraðslögreglumenn.

Verkefni lögrelunnar á Norðurlandi vestra
Í störfum lögreglunnar á Norðurlandi vestra sem og verkefnum hafa umferðarmál ávallt skipað stóran sess, og er meðal annars rekin sérstök umferðardeild hjá embættinu sem að sinnir þeim málum nánast eingöngu en er til styrkingar öðru starfi ef þörf krefur. Umferðardeildin sem og vaktin hverju sinni, sjá um eftirlit í umdæminu með áherslu á umferðarmál eðli málsins samkvæmt og er eftirlitinu sinnt alla daga vikunnar. Þessi áhersla embættisins á umferðarmál hefur skilað sér í mikilli fækkun umferðarslysa og er lögreglan á Norðurlandi vestra sérstaklega stolt af því.

Með ákvörðun dómsmálaráðherra í júní 2018 var embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra falið að sjá um þjálfun á öllum fíkniefnahundum lögreglunnar í landinu, sem og kaupum á hundum, úttektum og prófum lögreglumanna sem að sjá um hundana. Síðar bættust í hópinn hundar tollgæslunnar og fangelsismálastofnunar. Hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra er einn starfsmaður sem hefur sérstaklega með þessi mál að gera. Hundarnir sem og þjálfarar þeirra eru sér valdir, þeir þurfa að undirgangast stífa þjálfun sem endar með prófum hvar gefin eru út svokölluð starfsleyfi sem hundateymin þurfa svo að endurnýja á hverju ári með prófum eða úttekt að nýju. Æfingar og próf hafa farið fram víða á landinu. Prófdómarar hafa gjarnan komið erlendis frá og þá frá Bretlandi aðallega. Sama á við um kaup á hundum að flestir þeirra hafa komið frá Bretlandi. Hefur lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra verið í góðu samstarfi við Metropolitan Police of London um þessi mál.
Árið 2020 hófst eins og hvert annað ár, en það átti eftir að breytast. Fréttir fóru að berast af skæðum sjúkdómi sem að breiddist um heimsbyggðina og þann 28. febrúar greindist fyrsta tilfellið af þessum sjúkdómi sem síðar fékk nafnið Covid 19, á Íslandi og allt breyttist í störfum lögreglunnar. Fljótlega var staða almannavarna sett á neyðarstig og lögreglustjórinn á Norðurlandi vestra ákvað að virkjuð yrði aðgerðastjórn almannavarna í héraði. Fundir voru haldnir með almannavarnananefndum héraðsins og í framhaldi af því var aðstaða fengin fyrir aðgerðastjórnina í húsnæði Fjölbrautarskólans á Norðurlandi vestra. Aðgerðastjórnin var jafnframt skipuð og í henni tóku sæti, tveir fulltrúar lögreglustjórans á Norðurlandi vestra, fulltrúi björgunarsveitanna í umdæminu, fulltrúi Rauða krossins og slökkviliðsstjórinn í Skagafirði. Skiptu þessir aðilar með sér verkum eftir svokölluðu SÁBF kerfi almannavarna. Verkefnin voru strax mörg því að farið var í undirbúning fyrir komu þessa vágests sem talið var að ekki væri hægt að komast hjá að fá inn í umdæmið. Aðgerðastjórnin fór í það að uppfæra allar viðbragðsáætlanir, hafa samband við allar stofnanir og helstu fyrirtæki í umdæminu og setja þeim þau verkefni að gera sínar eigin áætlanir, skipta vinnustöðum upp í sóttvarnahólf og svo framvegis, svo að atvinnulífið myndi ekki lamast ef upp kæmu veikindi. Sama gerði aðgerðastjórnin sjálf svo hún gæti unnið áfram ef veikindi kæmu upp.
Þess má geta að Norðurland vestra er stórt landbúnaðarhérað og því mikilvægt að búskapur geti gengið áfallalaust. Skipaðar voru vettvangsstjórnir í Skagafirði, á Blönduósi fyrir austur-Húnavatnssýslu og á Hvammstanga fyrir Húnaþing vestra. Fyrsta tilfelli covid-19 í umdæminu greindist svo 17. mars.

Á aðgerðastjórnina reyndi töluvert er upp komu smit í þó nokkrum mæli í Húnaþingi vestra. Voru samskipti mikil á milli aðgerðastjórnarinnar og vettvangsstjórnar Húnaþings vestra á þeim tíma. Farið var í að setja á tímabundna úrvinnslusóttkví á sveitarfélagið á meðan unnið var að því að skipuleggja aðgerðir og koma böndum á ástandið. Einungis var íbúum heimilt að sækja sér nauðsynjar og þá einn frá hverju heimili sem og á var sett 5 manna samkomubann. Með þessum aðgerðum sem voru býsna stórtækar telur aðgerðastjórnin að tekist hafi að koma í veg fyrir frekara samfélagssmit. Fundir voru reglulega haldnir með félagsþjónustustarfsmönnum, áfallahjálparhópum o.s.frv. Með vorinu fækkaði smitum á landinu og í maí var aðgerðastjórnin sett í frí en klár að koma aftur til starfa ef að á þyrfti að halda.

Í september byrjuðu að koma upp smit á landinu aftur í svokallaðri bylgju tvö. Var þá aðgerðastjórnin virkjuð að nýju með tveim starfsmönnum lögreglustjórans á Norðurlandi vestra en aðrir meðlimir aðgerðastjórnarinnar voru í viðbragðsstöðu ef að á þyrfti að halda. Var aðgerðastjórnin starfandi út árið 2020. Smit voru nokkur í umdæminu en ekki jafn mörg og í fyrri bylgjunni. Verkefnin voru sambærileg og í fyrri bylgjunni, eða skipulagning aðgerða, upplýsingamiðlun til almennings o.sfl. Meðal annars sá aðgerðastjórnin um að koma á framfæri upplýsingum til almennings í umdæminu um stöðu mála, með svokallaðri stöðutöflu. Var það gert nokkrum sinnum í viku eða eftir þörfum.
Framundan eru bólusetningar og vonandi batnandi tíð fyrir landsmenn og þessir undarlegu tímar taki brátt enda. Það er farið að sjást til strandar í þessu óvenjulega verkefni.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd