Hinn 1. janúar 2015 tók til starfa nýtt embætti Lögreglustjórans á Suðurlandi. Embættið nær yfir víðáttumikið landsvæði og er að flatarmáli um 30.970 km2. Það nær til Árnessýslu, Rangárvallasýslu, Vestur-Skaftafellssýslu og Austur-Skaftafellssýslu. 14 sveitarfélög eru innan umdæmisins. Lögreglan á Suðurlandi er með lögreglustöðvar á Selfossi, á Hvolsvelli, þar sem lögreglustjóri situr, í Vík í Mýrdal, á Kirkjubæjarklaustri og á Höfn. Lögreglustjóri frá stofnun embættisins hefur verið Kjartan Þorkelsson. Staðgengill lögreglustjóra er Margrét Harpa Garðarsdóttir en hún fer með stjórn lögfræði- og ákærusviðs. Við stofnun embættisins var framlag á fjárlögum 2015 kr. 642.663.000,- en á árinu 2020 var það kr. 1.144.800.000. Fjöldi starfsmanna við stofnun embættisins var 43 þar af 36 lögreglumenn. Starfsmenn eru nú í árslok 2020, 62 þar af 53 lögreglumenn. Almannavarnir eru veigamikill þáttur í starfsemi embættisins vegna mikillar náttúruvár innan umdæmisins, bæði vegna eldgosa, jökulhlaupa og jarðskjálfta sem og vegna hópslysa í umferðinni. Almannavarnarnefndir í sameinuðu umdæmi eru þrjár. Ein fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð, önnur fyrir Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu og sú þriðja í Árnessýslu. Lögreglustjóri situr í nefndum þessum eins og ákvæði almannavarnarlaga áskilja. Í lok árs 2015 tókst samkomulag milli sveitarstjórna í umdæminu og lögreglustjóra um ráðningu starfsmanns til þess að sinna almannavarnarmálum í umdæminu. Kostnaður við embættið er greiddur til helminga af sveitarfélögunum annarsvegar og af lögreglustjóraembættinu hins vegar. Til starfsins valdist Víðir Reynisson er þá hafði nýlega hætt störfum hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. Eftir að hann lét af störfum hjá embættinu hefur Björn Ingi Jónsson gegnt starfinu. Markmið með skipun hans var að hrinda í framkvæmd og hafa umsjón með viðbragðsáætlanagerð í umdæminu, halda utan um menntun og þjálfa viðbragðsaðila innan umdæmisins og styrkja samstarf þeirra. Allt þetta með það í huga að auka við áfallaþol umdæmisins og gera viðbragðsaðila og samfélagið allt betur í stakk búið til þess að takast á við áföll og afleiðingar þeirra.
Almenn deild
Lögreglumenn á Selfossi ganga sólarhringsvaktir, en á öðrum stöðum er unnið á stöðnum vöktum yfir mesta álagstíma dagsins og svo á bakvöktum á milli. Árið 2018 fékkst viðbótarfjármagn þannig að hægt var að bæta verulega í löggæsluna á svæðinu. Fjölgað var á vöktum á Selfossi úr sextán í tuttugu og fjóra. Vorið 2019 var lögreglumönnum á Hvolsvelli fjölgað úr fjórum í sex og þar með lengdur viðverutími lögreglumanna. Einnig var tímabundið bætt við tveimur lögreglumönnum á Vík og Kirkjubæjarklaustri þannig að á því svæði eru ávallt þrír lögreglumenn við störf hverju sinni, en voru áður tveir. Aukið hefur verið í eftirlit í Öræfum á sumrin. Á árinu 2016 fékk lögreglan til sín verkefni sem Samgöngustofa og Vegagerðin höfðu haft með höndum um langan tíma og í góðri samvinnu við lögregluna, en það er eftirlit með umferð stórra bíla og atvinnutækja. Þetta verkefni dreifðist á þrjú lögregluembætti, Suðurland, Vesturland og Norðurland eystra. Embættið á Suðurlandi fékk til sín tvær stöður lögreglumanna. Tveir aðalvarðstjórar eru starfandi við deildina og hafa þeir með daglega umsjón með starfi vaktanna. Á vordögum 2019 var skipaður við embættið lögreglufulltrúi sem sér um alla þjálfun lögreglumanna, umsjón með búnað lögreglunnar og með rafrænum sönnunargögnum. Auk þessa starfsfólks er yfirlögregluþjónn sem er deildarstjóri yfir almennu deildinni. Yfirlögregluþjónn almennu deildarinnar er Sveinn Kristján Rúnarsson.
Rannsóknardeild
Frá stofnun embættis Lögreglustjórans á Suðurlandi þann 1. janúar 2015 hefur orðið umtalsverð þróun í starfsemi rannsóknardeildar og þeirrar vinnu sem þar er unnin. Rannsóknarlögreglumönnum hefur fjölgað og eru nú 7 rannsóknarlögreglumenn starfandi á Selfossi auk lögreglufulltrúa. Tekin hefur verið upp staða rannsóknarlögreglumanns á Höfn og heyrir hann einnig, eins og hinir, undir lögreglufulltrúa í rannsóknardeild sem stýrir verkefnum deildarinnar. Lögreglan á Suðurlandi hefur tekið fullan þátt í því að innleiða tækninýjungar við rannsóknir mála og átti m.a. stóran þátt í því að nokkur embætti sameinuðst með stuðningi rannsóknarnefndar samgönguslysa um kaup á þrívíddarskanna sem staðsettur er hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og gerir kleift að skanna upp og skila málsettum teikningum af vettvangi í kvarða þar sem skekkjumörk eru talin í millimetrum á hverja 100 metra. Skönnun vettvangs umferðarslyss má að jafnaði ljúka á innan við klukkustund. Jafnframt hefur embættið komið sér upp þremur drónum til myndatöku á vettvangi og e.a. leitarvinnu og eru í notkun þeirra fólgin gríðarleg tækifæri til einföldunar. Hjá lögreglunni á Suðurlandi er starfrækt bíltæknirannsóknarsetur sem sett var á stofn á Selfossi með samningi dómsmálaráðuneytisins, samgönguráðuneytisins og rannsóknarnefndar samgönguslysa við embættið á árinu 2009. Sá samningur var nýverið framlengdur með samkomulagi við samgönguráðuneytið. Í bíltæknirannsóknarsetrinu eru rannsökuð ökutæki úr alvarlegum umferðarslysum fyrir landið í heild. Nýverið var keyptur vandaður tölvubúnaður til aflesturs af tölvum ökutækja en þau eru, ekki síður en annað í þessum heimi, uppfull af tölvum sem skrá ítarlegar upplýsingar um ökuhraða, hemlun, stöðu stýris o.fl. sem nýtist við slysarannsóknir. Lögregla og löglærðir fulltrúar á ákærusviði vinna þétt saman að rannsóknum máls frá upphafi þess. Þannig styttist í raun málsmeðferðartíminn hjá báðum einingum því ekki þarf að endursenda mál með frekari rannsóknarbeiðnum frá ákærusviði til rannsóknardeildar nema í örfáum málum og á ákærusviði er þekking á málunum þegar þau koma þar inn og því styttri tími sem fer þar í afgreiðslu þeirra. Umfangsmestu rannsóknir deildarinnar eru á sviði kynferðisbrota, heimilisofbeldis og ýmisskonar bruna og slysa. Yfirlögregluþjónn rannsóknardeildar er Oddur Árnason.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd