Þann 1. janúar 2007 voru lögregluliðin fjögur á Vestfjörðum sameinuð í eitt, undir stjórn sýslumannsins á Ísafirði, sem þá var Kristín Völundardóttir. Úlfar Lúðvíksson, þáverandi sýslumaður á Patreksfirði tók síðan við sýslumannsembættinu 1. júlí 2010 og jafnframt lögreglustjórninni. Áfram voru lögreglustöðvarnar á Hólmavík, Patreksfirði og Ísafirði. En lögreglustöðin í Bolungarvík var aflögð síðla árs 2009. Jarðgöngin milli Hnífsdals og Bolungarvíkur voru tekin í notkun um ári síðar.
1. janúar 2015 varð sú grundvallarbreyting að verkefni sýslumanna og lögreglustjórn voru aðskilin um land allt og umdæmunum fækkað úr fimmtán í níu. Þann 1. janúar 2015 var Karl Ingi Vilbergsson, aðstoðarsaksóknari hjá ákærusviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, skipaður lögreglustjóri á Vestfjörðum, hann hefur aðsetur á Ísafirði.
Umdæmi lögreglustjórans á Vestfjörðum
Sveitarfélög í umdæmi lögreglustjórans á Vestfjörðum, sem eru alls 9 talsins, eru Bolungar-víkurbær, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð, Reykhólahreppur, Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur.
Íbúar í umdæmi lögreglustjórans á Vestfjörðum eru 7108 (1. jan. 2021) 70% íbúanna búa á norðanverðum Vestfjörðum.
Vestfirðir skiptust áður í fimm sýslur: Austur-Barðastrandarsýslu, Vestur-Barðastrandarsýslu, Vestur-Ísafjarðarsýslu, Norður-Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu en í dag er venja að tala fremur um Barðastrandarsýslur, Ísafjarðarsýslur og Strandir.
Barðastrandarsýslur ná frá syðsta hluta Vestfjarðarkjálkans, frá botni Gilsfjarðar að austanverðu út á Látrabjarg að vestan og norður að Langanesi í Arnarfirði. Margar eyjar Breiðafjarðar tilheyra sýslunni.
Ísafjarðarsýslur taka yfir landsvæðið frá Langanesi í Arnarfirði allt norður í Horn og þaðan í Geirólfsnúp við sunnanverðan Reykjafjörð, þar sem sýslumörk Ísafjarðar- og Strandasýslu eru.
Þannig nær umdæmi lögreglustjórans á Vestfjörðum yfir allan Vestfjarðakjálkann að undaskildum Bæjarhreppi í Strandasýslu, en hann sameinaðist Húnaþingi Vestra þann
1. janúar 2012. Umdæmið nær norður Strandir og fyrir Hornbjarg, suður fyrir Látrabjarg til Gilsfjarðar. Sýslumörk eru áfram við Vestur-Húnavatnssýslu í austri og Dalasýslu í suðri.
Sólarhringsvakt hefur verið á lögreglustöðinni á Ísafirði allt frá árinu 1982. Lögreglumenn á Patreksfirði og Hólmavík standa vaktir, alla daga vikunnar, allt árið um kring, en þess utan eru þeir á bakvakt.
Starfsfólk og aðsetur
Fjöldi lögreglumanna á Vestfjörðum er 24 og héraðslögreglumenn eru 9 talsins. Yfir-lögregluþjónn er með aðsetur á lögreglustöðinni á Ísafirði og aðstoðaryfirlögregluþjónninn með aðsetur á Patreksfirði. Í rannsóknardeild lögreglunnar á Vestfjörðum starfa, auk lögreglufulltrúa, tveir rannsóknarlögreglumenn.
Embættið á leitarhundinn Tind sem er sérþjálfaður til fíkniefnaleitar. Lögreglustjórinn er með skrifstofu sína á Ísafirði en þar starfa löglærður fulltrúi og ritari.
Vestfirðir, stærð og náttúra
Flatarmál Vestfjarða er 9.356 ferkílómetrar. Þar af eru eyjar og sker 21.5 ferkílómetrar. Til samanburðar er flatararmál Íslands, með eyjum og skerjum, 102.712 ferkílómetrar. Embættinu tilheyrir ein lengsta strandlengja landsins eða rúmlega 2000 km. Strandlengja Íslands er í heild 4970 km. Stofn- tengi- og landsvegir, auk héraðsvega að öllum byggðum bæjum sem hafa ábúendur (lögheimili) í umdæminu, eru samtals 1553 km.
Margar af náttúruperlum Íslands eru í umdæminu. Má þar nefna Flatey á Breiðafirði, Rauðasand, Vatnsfjörð, Látrabjarg, fossana sex í Dynjanda, eyjarnar Vigur og Grímsey og Hornstrandafriðlandið. Ár hvert sækja um 6000 manns friðlandið á Hornströndum. Komur skemmtiferðaskipa hafa aukist ár frá ári og fyrir kórónufaraldurinn nam fjöldi slíkra skipakoma, til Ísafjarðar, yfir 100 árlega. Samanlagður fjöldi farþega slíkra skipa nam um 120.000.
Samstarf
Lögreglan á Vestfjörðum á samstarf við margar stofnanir og aðila. Má þar nefna Umhverfis-stofnun vegna friðlanda í umdæminu. Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, Veðurstofu Íslands og Vegagerðina þegar kemur að ofanflóðahættu og varúðarráðstöfnunum, s.s. rýmingu húsa og lokun vegakafla vegna hættu á ofanflóðum.
COVID-19
COVID-19 reyndi mjög á samstarf margra aðila, innan og utan umdæmisins, undir merkjum almannavarna í héraði. Þannig voru tvær aðgerðastjórnir almannavarna skipaðar og þrjár vettvangsstjórnir.
Markmið
Það er markmið lögreglunnar á Vestfjörðum að auka öryggi íbúanna og annarra þeirra sem um umdæmið fara.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd