Lögreglustjórinn á Vesturlandi

2022

Um áramótin 2014 og 2015 sameinuðust þrjú lögregluembætti, lögreglan á Akranesi, lögreglan í Borgarfirði og Dölum og lögreglan á Snæfellsnesi, í embætti Lögreglustjórans á Vesturlandi. Við sameininguna varð til víðfemt embætti með mörgum þéttbýliskjörnum og fjölda sumarhúsabyggða sem í dvelja þúsundir um hverja helgi. Lögreglustöðvar eru á Akranesi, í Borgarnesi, Búðardal, Stykkishólmi og Ólafsvík og Grundarfirði. Við embættið er starfandi almenn deild sem sinnir öllum helstu útkalls- og eftirlitsverkefnum, umferðardeild sem annast sértækt eftirlit með umferð stærri ökutækja auk annarra verkefna, myndavéladeild sem annast úrvinnslu hraðabrota úr hraðamyndavélum um land allt og rannsóknardeild sem annast rannsóknir alvarlegri brota í umdæminu. Rannsóknardeildin starfar í nánu samstarfi við aðstoðarsaksóknara embættisins sem sér um saksókn fyrir hönd embættisins.
Við sameiningu embættanna þriggja í upphafi árs 2015 var lögreglustjóri Úlfar Lúðvíksson sem tók við taumunum af þremur sýslumönnum, Höllu Bergþóru Björnsdóttur á Akranesi, Ólafi K. Ólafssyni sýslumanni á Snæfellsnesi og Stefáni Skarphéðinssyni sýslumanni í Borgarnesi.
Á árinu 2020 fór Úlfar Lúðvíksson til starfa hjá lögreglunni á Suðurnesjum og Jón Haukur Hauksson tók tímabundið við sem settur lögreglustjóri. Við embættið starfa um 40 lögreglumenn í almennri deild, umferðardeild og rannsóknardeild, þrír starfsmenn í myndavéladeild, tveir aðstoðarsaksóknarar auk tveggja starfsmanna á skrifstofu embættisins. Höfuðstöðvar embættisins eru í Borgarnesi þar sem lögreglustjóri hefur aðsetur. Almenn deild skiptist í fjögur varðsvæði með aðsetur á Akranesi, Borgarnesi, Búðardal og á Snæfellsnesi, umferðardeild og rannsóknardeild eru gerðar út frá Akranesi og myndavéladeild er með aðsetur í Stykkishólmi.

Verkefni Lögreglustjórans á Vesturlandi
Frá upphafi hefur megináhersla Lögreglustjórans á Vesturlandi verið á fagmennsku, sveigjanleika og viðbragðsflýti, samvinnu á milli deilda og góða og faglega þjónustu varðandi öll þau fjölbreyttu verkefni sem inn á borð lögreglunnar berast á degi hverjum. Embættið hefur ávallt starfað í nánu samstarfi við sveitarfélögin á svæðinu og þá sérstaklega félagsþjónustu sveitarfélaganna. Mikil áhersla hefur verið á að samþætta viðbrögð við heimilisofbeldi og í barnaverndarmáum, en slíkt samstarf er í stöðugri þróun í viðleitni embættisins að þjónusta þolendur og gerendur í slíkum málum á sem skilvirkastan og bestan máta.
Vegna þess hversu víðfemt embættið er og byggðir dreifðar þarf lögreglan að dreifa kröftum sínum í þeirri viðleitni að þjónusta alla íbúa á viðunandi hátt. Meginþungi löggæslunnar er á svæðinu frá Akranesi upp í Borgarfjörð þar sem byggð er þéttust og verkefnin eru flest. Í Dölum og á Snæfellsnesi er byggðin dreifðari en straumur ferðafólks um þessi svæði er hins vegar alltaf að aukast og þá sérstaklega á Snæfellsnesi þar sem ásókn er mikil í náttúruperlur á borð við Snæfellsjökul og Djúpalón.
Aðsetur og deildir
Á Akranesi, þar sem íbúafjöldinn er mestur og flestir lögreglumenn starfa, er sólarhringsvakt hjá almennri deild. Umferðardeild sem sinnir sérstöku umferðareftirliti á Vesturlandi og víðar um landið hefur einnig þar aðsetur auk rannsóknardeildar sem þjónustar allt embættið við rannsóknir sakamála og alvarlegra atvika. Í Borgarnesi eru höfuðstöðvar embættisins þar sem lögreglustjóri hefur aðsetur, skrifstofa embættisins er þar til húsa og almenn deild er einnig gerð þar út. Á Snæfellsnesi eru þrjár lögreglustöðvar, í Stykkishólmi þar sem myndavéladeild hefur aðsetur en hún vinnur úr myndum úr hraðamyndavélum á landsvísu. Almenn deild á Snæfellsnesi hefur svo einnig til umráða lögreglustöðvar í Grundarfirði og í Ólafsvík. Í Búðardal er starfrækt lögreglustöð og þar hefur einn lögreglumaður aðsetur. Í svo dreifðu embætti hefur reynst nauðsynlegt að hafa starfandi héraðslögreglumenn sem eru til taks þegar nauðsyn krefur og eru þeir þá til stuðnings starfandi lögreglumönnum.
Íbúar á svæðinu eru á 17. þúsund og er langmestur fjöldi á suðursvæði embættisins. Í sveitar-
félögunum á suðursvæði embættisins, frá Borgarbyggð að Akranesi búa rúmlega 12.000 manns og tæplega 5000 manns á Snæfellsnesi og í Dalabyggð. Að auki sækja nokkur þúsund manns sumarhúsabyggðir á svæðinu allt árið um kring og straumur erlendra ferðamanna til að skoða náttúruperlur svæðisins, sem eru óteljandi, hefur aukist ár frá ári og slíkri ásókn fylgir töluvert af verkefnum af öllum stærðum og gerðum.

Stefnan
Fjölbreytni byggðar á svæðinu eykur litróf mannlífsins og hefur stefna lögreglunnar á Vesturlandi ávallt miðað að því að láta þjónustuna mæta þörfum samfélagsins. Fjölbreytni í samfélagi kallar á sífellda endurskoðun starfseminnar og hvernig þjónusta má íbúanna með sem bestum og faglegustum hætti.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd