LS Retail ehf.

2022

LS Retail ehf. varð til sem sjálfstætt fyrirtæki árið 2007 þegar þróunardeild Landsteina Strengs klauf sig frá móðurfyrirtækinu. Forsagan nær allt aftur til 1986 þegar hugbúnaðar-fyrirtækið Strengur hóf vinnu við aðlögun og þróun danska Navigator hugbúnaðarins fyrir íslenskan markað. Navigator er forveri Microsoft Dynamics Business Central sem er grunnstoð starfsemi LS Retail. Landsteinar komu til sögu skömmu síðar og hösluðu sér fljótlega völl á alþjóðavísu. Landsteinar og Strengur sameinuðust árið 2003 og voru þá í raun samkeppnisaðilar, en eftir sameininguna varð smám saman til hugbúnaður, byggður á bestu kostum lausna frá báðum fyrirtækjum. Þegar LS Retail varð til árið 2007 var þegar til staðar mjög frambærileg hugbúnaðarlausn og gott net samstarfsaðila víðs vegar um heiminn.
Í stuttu máli má segja að saga fyrirtækisins frá árinu 2007 hafi snúist um að bæta við úrvalið af lausnum, uppfæra þær stöðugt og síðast en ekki síst fjölga samstarfsaðilum á heimsvísu. Það hefur skilað einstökum árangri, og LS Retail er margverðlaunaður samstarfsaðili Microsoft á sínu sviði. Það vakti athygli á Íslandi árið 2009 er Microsoft keypti verslunarlausnina LS Retail fyrir AX, en LS Retail hélt sínu striki og bætti enn í ef eitthvað var.
Nokkrir aðilar hafa komið við eigendasögu LS Retail. Þeirra helstir eru ALMC Holding (áður Straumur-Burðarás) og Anchorage Capital. Núverandi eigendur, bandaríska fyrirtækið APTOS, sem er hluti af eignasafni fjárfestingabankans Goldman Sachs, keypti LS Retail snemma árs 2021.
Aðalsteinn Valdimarsson var um hríð starfandi forstjóri og stjórnarformaður LS Retail á upphafsárum fyrirtækisins. Magnús Norðdahl tók við sem forstjóri árið 2010 og gegndi því starfi um 11 ára skeið, en skipurit fyrirtækisins breyttist nokkuð við yfirtöku APTOS.
Pete Sinisgalli frá APTOS er forstjóri, en daglegum rekstri stýra Kristján Jóhannsson, framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs (CCO), Daði Kárason, framkvæmdastjóri þróunarsviðs (CTO), og Hlynur Elísson framkvæmdastjóri fjármála (CFO). Svæðisstjórar (VP) eru þeir: Carsten Wulff (Evrópa), Waddah Laham (MEA og Indland), Qiping Sun (APAC) og Eric Miller (Ameríka).
Núverandi stjórnarformaður fyrirtækisins er David Bertolino, fjármálastjóri Aptos, og meðstjórnandi er Amy Krawczyk, lykilstjórnandi í fjármálateymi APTOS.
Til gamans má geta þess að LS Retail hefur allt frá árinu 2008 fengið fjölda viðurkenninga frá Microsoft, fyrir góða frammistöðu við sölu lausna sem byggja á tækni frá Microsoft. Einnig ber að nefna að fyrirtækið hefur undanfarin fjögur ár í röð hampað titilinum Fyrirtæki ársins á Íslandi í sínum flokki. Sú útnefning byggir á árlegri könnun á vegum VR.

Vinnulag og framleiðsluferli
LS Retail hefur frá upphafi einbeitt sér að þróun og sölu hugbúnaðar fyrir verslanir og veitingarekstur. Megináherslan hefur verið á lausnina LS Central og forvera hennar sem er byggð á viðskiptakerfinu MS Dynamics Business Central (áður Navision og NAV). LS Central hentar vel fyrir margs konar rekstur auk smásölu og veitingareksturs. Til dæmis eru í boði séraðlaganir fyrir apótek, hótel, bensínstöðvar og ferjurekstur. Styrkur kerfisins felst öðru fremur í því að það er heildstætt – engin þörf að samþætta sérkerfi fyrir birgðahald, afgreiðslukassa eða annað.
Þróunarstarf innan LS Retail fer fram í teymum sem sérhæfa sig í ofangreindum hugbúnaði, en innan teymanna eru undirteymi sem þróa tiltekna þætti lausnanna. Einkum á þetta við um LS Central. Þar eru sérstök teymi t.d. innan veitingareksturs, birgðastjórnunar, greiðslulausna og gervigreindar (AI), sem nýtist m.a. við að spá fyrir um söluhorfur og birgðaþörf. LS Retail fylgist vel með öllum nýjungum og vinnur stöðugt að því að mæta kröfum markaðarins.
Þróun kerfanna fer fram á skipulegan hátt – skv. vel skilgreindum aðferðum við verkefnastjórnun þar sem tilgreind eru markmið, vinnuferli og niðurstaða. Í tilfelli LS Central fylgir þróunarstarfið ætíð í kjölfar Microsoft, þar sem grundvöllurinn er MS Business Central. Þannig koma nú út nýjar útgáfur LS Central um það bil á mánaðarfresti í takti við útgáfurnar frá Microsoft. Samlegðaráhrif eru einnig til staðar á vissum sviðum, t.d. varðandi þróun og aðlögun greiðslulausna, sem nýtast öllum kerfunum sem LS Retail býður uppá. Til þróunardeildar heyrir einnig teymi sem sinnir tæknilegri þjónustu til handa samstarfsaðilum.
Fyrirtækið starfrækir að auki öfluga ráðgjafadeild sem kemur að ýmsum verkefnum í samvinnu við samstarfsaðila þar sem krafist er sérþekkingar, svo sem við flóknar innleiðingar, sérsmíði lausna á tilteknum sviðum auk þjálfunar- og fræðslustarfs.

Skipulag og sérstaða
Þétt net samstarfsaðila um allan heim hefur frá upphafi verið lykillinn að útbreiðslu hugbúnaðar frá LS Retail. Nokkur samstarfsfyrirtækjanna hafa verið hluti af LS Retail fjölskyldunni frá því fyrir síðustu aldamót. Eftir því sem samstarfsaðilum fjölgar á heimsvísu hefur spurn eftir því að tengjast þessu neti aukist, en það er sýnd veiði en ekki gefin, enda miklar kröfur gerðar til þeirra sem sækja um að ganga til liðs við LS Retail.
Hluti af þjónustu LS Retail við þessa aðila er að efna til ýmissa viðburða þar sem m.a. eru kynntar helstu nýjungar sem eru á döfinni og tækifæri gefst til að ræða samstarfið. Stærstur viðburðanna er árleg ráðstefna, conneXion, þar sem koma saman samstarfsaðilar, viðskiptavinir og starfsfólk LS Retail. Yfir 500 manns mættu á ráðstefnuna sem var haldin í maí 2022 í Hörpu.
Um þessar mundir eru um 400 hugbúnaðarfyrirtæki í 90 löndum víðs vegar um heiminn í samstarfi um sölu og þjónustu kerfa frá LS Retail. Þúsundir hafa sitt lifibrauð af því að selja og þjónusta þennan hugbúnað, svo það er hvort tveggja áskorun og heiður að sjá til þess að þetta fólk hafi réttu vörurnar og njóti þeirrar þjónustu sem þarf til. Lagaumhverfi og kröfur varðandi verslunarrekstur eru margvíslegar frá landi til lands, þannig að það er í mörg horn að líta varðandi staðfæringu kerfanna.
Meginsérstaða LS Central hugbúnaðarins, flaggskips LS Retail, hefur lengi verið sú að kerfið uppfyllir grunnþarfir í verslunarrekstri eitt og sér. Þetta eykur öryggi, einfaldar viðhald og þjónustu og minnkar hættu er á bilunum. Sama tækni og viðmót blasir við notendum gegnum allt ferlið, sem auðveldar þjálfun starfsmanna.
Sveigjanleiki hefur einnig verið nefndur til sögu. Hugbúnaðurinn hentar jafnt fyrir eina verslun allt upp í heilu keðjurnar. Þannig er hægt að höfða til fólks með háleit markmið um að byrja smátt en færa svo út kvíarnar. Engin þörf er fyrir að skipta um kerfi á miðri leið.
Undanfarin ár hefur mikið kapp verið lagt á að fylgja kröfum nútímans um hugbúnað í ,,skýinu“. Nú þegar er LS Central í boði sem skýjalausn í yfir 40 löndum, og á álíka mörgum tungumálum. Þessu fyrirkomulagi fylgir breytt útgáfuferli þar sem gefa þarf út sérpakka fyrir öll löndin og einnig færist sala leyfa að miklu leyti í áskrift. Innviðir eru enn ekki til staðar fyrir skýjalausnir um allan heim svo að áfram verður í boði að fá staðbundnar útgáfu, útgáfur fyrir skýið eða blöndu af hvoru tveggja.
Um mitt ár 2022 voru hugbúnaðarlausnir frá LS Retail í notkun í 83,000 verslunum og veitingastöðum í um 150 löndum um allan heim. Meðal viðskiptavina á Íslandi eru Bónus, Krónan, Leifsstöð, Lyf og heilsa, OLÍS, Miklatorg (IKEA) og ÁTVR. Á alþjóðavettvangi má nefna vörumerki á borð við adidas, SPAR, DFDS, Scandlines, AS Roma, REMA 1000, JYSK, Plantorama, Juventus, Apoteksgruppen, Victoria‘s Secret, Davidoff, Juventus og svo mætti lengi telja. Sumir viðskiptavinir kjósa nafnleynd og það ber að sjálfsögðu að virða.

Framtíðarsýn
Þegar COVID-19 brast á af fullum þunga vöknuðu margar spurningar um hugsanleg áhrif til framtíðar á verslun og þjónustu, og hvernig hægt væri að bregðast við. LS Retail stóð að mörgu leyti vel að vígi þegar fyrstu áhrifin raungerðust hjá verslunum og veitingastöðum: Netverslun margfaldaðist, heimsendingar sömuleiðis, auk þess sem snertilaus viðskipti breiddust út um allan heim. Allt þetta var þegar í boði hjá fyrirtækinu, og áfram verður unnið að því að tvinna saman stafrænar og hefðbundnar lausnir. Ómannaðar verslanir með hugbúnaði frá LS Retail hafa þegar verið opnaðar. Snjalllausnir á borð við ScanPayGo appið, þar sem viðskiptavinir skanna sjálfir með símanum þær vörur sem þeir hyggjast kaupa, snertiskjáir sem einkum eru ætlaðir fyrir skyndibitastaði, skemmtigarða, söfn og slíkan rekstur eru einnig hluti af framtíðarsýn LS Retail. Allt miðar þetta að því að upplifun neytenda verði heildstæð, og markmiðið er að vera í forystuhlutverki með tækninýjungar hverju sinni.

Aðsetur
Höfuðstöðvar LS Retail voru í upphafi í Ármúla 7, þar sem Landsteinar Strengur voru til húsa og naut fyrirtækið í upphafi góðs af samstarfi við fyrri eigendur, t.d. varðandi almennan rekstur skrifstofu, mötuneyti og tækniþjónustu. Árið 2010 flutti LS Retail flutti í nýtt húsnæði að Katrínartúni 2 (Höfðatorg) og þar voru höfuðstöðvarnar næstu árin uns þrengja tók að með fjölgun starfsmanna. Fyrirtækið flutti síðan árið 2017 í efstu 4 hæðir Norðurturns verslunarkjarnans Smáralindar að Hagasmára 3, Kópavogi.
Frá upphafi sögu LS Retail hefur hluti starfsmanna verið búsettur erlendis, auk þess sem margir hafa verið á faraldsfæti við þjálfun og uppsetningar víða um lönd. Fyrir um áratug var staðan orðin sú að hyggilegast var að skipta heiminum í fjögur svæði og byggja þar upp starfsemi undir yfirstjórn svæðisstjóra. Svæðisskrifstofurnar eru í Atlanta, Dubai og í Singapore. Nokkru síðar bættist við þjónustu- og þróunarteymi með aðsetur í Kuala Lumpur, en nýjasta útibú LS Retail er í Porto. Starfsfólk LS Retail er búsett víða um lönd og gerir út þaðan. Þegar ástand var sem verst vegna COVID-19 unnu flestir að heiman og þótti það gefast ágætlega enda flestir þá þegar alvanir fjölþjóðlegu samstarfi gegnum stafræna tækni. Starfsfólk getur áfram fengið að vinna heima samkvæmt samkomulagi við stjórnendur.

Mannauður og starfsmannafjöldi
Við stofnun LS Retail voru starfsmenn rétt innan við 40 talsins. Langflestir þeirra unnu við þróun hugbúnaðar, enda ýmis rekstrarþjónusta þá enn fengin frá LandsteinumStreng. Fjöldi starfsmanna fór yfir 100 snemma árs 2013 og hefur fjölgun verið nokkuð stöðug eftir því sem starfsstöðvum og samstarfsaðilum hefur fjölgað. Um mitt ár 2022 voru starfsmenn 310 talsins af um 30 þjóðernum. Yfir 90 prósent starfsmanna er með háskólagráðu og rúmlega þriðjungur starfsmanna eru konur. Nokkru eftir stofnun fyrirtækisins var stefnan mörkuð til framtíðar og einkunnarorðin sem starfsmenn völdu sjálfir eru: Nýsköpun, heilindi og valdefling.
Fyrirtækið hefur hlotið Jafnlaunavottun og hefur markað skýra og afdráttarlausa stefnu gegn áreitni, ofbeldi og einelti.
LS Retail hefur um árabil átt gott samstarf við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands, og hefur nemendum þaðan boðist að vinna að verkefnum sem tengjast starfsemi LS Retail beint eða óbeint. Margir af þessum nemendum hafa síðar komið til starfa hjá fyrirtækinu og staðið sig afburðavel. Fyrr á árinu hleypti LS Retail af stokkunum verkefninu Framtíðarleiðtogar, sem miðar að því að styrkja afburðanemendur úr minnihlutahópum sem stunda nám í tölvunarfræði sérstakan stuðning, m.a. með því að greiða skólagjöld og bjóða sérfræðiaðstoð við verkefnavinnu.

Velta og hagnaður
Fyrstu árin eftir stofnun LS Retail árið 2007 gekk reksturinn bærilega, en vissulega setti hrun á fjármálamörkuðum skömmu síðar strik í reikninginn, eins og hjá svo mörgum. Sala LS Retail fyrir AX til Microsoft árið 2009 var prýðileg búbót fyrir fyrirtækið og blés byr í seglin. Í kjölfarið var sett upp fimm ára áætlun um að auka tekjurnar úr fimm í 50 milljónir Evra. Sú áætlun gekk eftir og fjölgun verslana, afgreiðslukassa og notenda hefur verið stöðug. undanfarin. Velta og framlegð hefur stöðugt aukist á síðustu árum og framlegð hefur oftar en ekki farið fram úr áætlunum. Velta ársins 2022 er um 66 milljónir Evra og framlegðin er mjög góð eins og síðustu ár, sem telst mjög góður árangur á COVID-19 tímum.
LS Retail hefur alla tíð notið góðs af samstarfi við íslensk fyrirtæki sem eru óhrædd við að prófa nýjungar og standa framarlega í tæknimálum. Þótt markaðurinn sé lítill á Íslandi gefur hann góðar vísbendingar um stefnur og strauma. Þrátt fyrir góða stöðu á alþjóðamarkaði eru enn mörg vígi óunnin og ekkert sem bendir til annars en að full ástæða sé til bjartsýni um áframhaldandi vöxt LS Retail.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd