LSR Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

2022

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) var stofnaður árið 1919 og er elsti lífeyrissjóður landsins en hann fagnaði 100 ára afmæli sínu í nóvember 2019. Við stofnun hét hann Lífeyrissjóður embættismanna og var ætlað að tryggja embættismönnum og síðar ekkjum þeirra ævilöng eftirlaun. Tuttugu og fimm árum síðar, árið 1944, var öllum ríkisstarfsmönnum veittur aðgangur að sjóðnum og fékk sjóðurinn það nafn sem hann ber í dag. Lífeyrismál voru stórt baráttumál í kjaraviðræðum árið 1969 þar sem lögð var áhersla á sjóðsöfnun, skylduaðild og samtryggingu og þeir kjarasamningar sem undirritaðir voru í kjölfarið urðu upphafið að almennu lífeyrissjóðakerfi. Árið 1997 voru gerðar veigamiklar breytingar á starfsemi LSR þegar A-deild sjóðsins var stofnuð en hún byggir alfarið á sjóðsöfnun líkt og lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði.

Skipulag og starfsemi
Sjóðurinn er með aðsetur í Reykjavík og starfa 56 starfsmenn hjá honum í 55 stöðugildum. Starfsemin fer fram á þremur sviðum, eignastýringu, lífeyris- og lánasviði, auk þess sem stoðsviðin eru tvö, annars vegar fjármálasvið og hins vegar stafræn þróun og rekstur.
Stjórn LSR er skipuð átta manns. Formaður stjórnar árið 2021 er Árni Stefán Jónsson, skipaður af stjórn BSRB og varaformaður er Guðrún Ögmundsdóttir (látin), skipuð af fjármála- og efnahagsráðherra. Aðrir stjórnarmenn eru Áslaug María Friðriksdóttir, Guðmundur Árnason og Viðar Helgason, öll skipuð af fjármála- og efnahagsráðherra, Ragnar Þór Pétursson, skipaður af stjórn KÍ, Unnur Pétursdóttir, skipuð af stjórn BHM og Þórveig Þormóðsdóttir, skipuð af stjórn BSRB. Framkvæmdastjóri sjóðsins er Harpa Jónsdóttir.

Stærsti sjóður landsins
LSR er stærsti lífeyrissjóður landsins í eignum talið en í lok árs 2020 var eignasafn hans um 1.168 ma.kr. Hann starfar í þremur fjárhagslega aðskildum deildum; A- og B-deild, sem báðar eru samtryggingardeildir, og sérstakri séreignardeild. Hrein raunávöxtun sjóðsins var 10,9% árið 2020 og síðustu tíu ár var hún 6,5%. Í árslok 2020 námu eignir A-deildar um 862 ma.kr. og hrein raunávöxtun ársins var 10,6%. Eignir B-deildar á sama tíma voru 284 ma.kr. og var hrein raunávöxtun 12%. Þar sem deildin tekur ekki við nýjum sjóðfélögum hækkar meðalaldur deildarinnar með hverju árinu. Þannig streymir meira fjármagn út en inn og deildin dregst saman. B-deild er einungis að hluta fjármögnuð með iðgjöldum en er að stórum hluta gegnumstreymissjóður með bakábyrgð frá ríkissjóði sem leggur sjóðnum til fjármagn á hverju ári til að mæta framtíðarlífeyrisgreiðslum. Á hinn bóginn fer A-deildin vaxandi. Deildin var stofnuð fyrir 24 árum og er þar af leiðandi töluvert frá því að vera fullþroska, sem kemur m.a. fram í því að tiltölulega fáir sjóðfélagar fá lífeyrisgreiðslur úr henni samanborið við þá sem greiða inn og því stækkar hún ört. Séreignardeildin er ekki stór í eignum talið samanborið við samtryggingardeildirnar en eignir hennar námu um 22,1 ma.kr. í árslok 2020.

Stórt hlutfall þjóðarinnar hefur greitt til LSR
Á árinu 2020 greiddu að jafnaði 32.837 sjóðfélagar mánaðarlega iðgjald til LSR. Mikill meirihluti þeirra, að meðaltali 28.330, greiddi iðgjald til A-deildar en 1.493 sjóðfélagar greiddu til B-deildar. Þá greiddu 3.014 sjóðfélagar til séreignardeildar. Samtals greiddu því um 13,6% allra landsmanna á aldrinum 18-67 ára iðgjöld til sjóðsins. Lífeyrisgreiðslur hafa farið stigvaxandi og fjöldi lífeyrisþega aukist hratt á síðustu árum. Á árinu 2020 greiddi LSR alls rúma 68,7 ma.kr. í lífeyrisgreiðslur eða að jafnaði 5,7 ma.kr. á mánuði. Að meðaltali fengu 27.093 lífeyrisþegar greiðslur í hverjum mánuði frá sjóðnum eða um 60% allra landsmanna 67 ára og eldri.

Framtíðarsýn
Megintilgangur lífeyrissjóða er að tryggja sjóðfélögum áhyggjulaust ævikvöld með því að taka við iðgjöldum, ávaxta þau og greiða lífeyri til sjóðfélaga þegar þeir láta af störfum. Í stærra samhengi felast lífsgæði á efri árum þó ekki eingöngu í öruggum lífeyrisgreiðslum heldur skiptir jafnframt máli að hagsæld í dag sé ekki á kostnað þess heims sem unga fólkið mun búa við í framtíðinni. Þessa sýn hefur LSR að leiðarljósi meðal annars með því að setja sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar og tekur þannig þátt í að axla samfélagslega ábyrgð.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd