Lyf & heilsa

2022

Lyf og heilsa hf. var stofnað þann 1. mars 1999 af Karli Wernerssyni og fleirum með samruna 11 lyfjaverslana. Lyfjaverslanirnar sem um ræðir voru Vesturbæjarapótek, Apótek Austurbæjar, Ingólfsapótek, Lyfjabúðin Kringlunni, Holtsapótek, Breiðholtsapótek, Hraunbergsapótek, Stjörnuapótek, Sunnuapótek Akureyri, Selfossapótek og Hveragerðis-apótek auk lyfjaútibús í Þorlákshöfn. Árið 2000 bættust þrjú ný apótek við keðjuna og voru þau þar með orðin 14 talsins. Miklar breytingar hafa átt sér stað á þessum 20 árum og eru lyfjaverslanirnar ásamt lyfjaútibúum nú orðnar 31 talsins.
Lyf og heilsa hf. rekur apótek undir merkjum Lyfja & heilsu og Apótekarans, ásamt framleiðsludeild Gamla apótekins, SA lyfjaskömmtun og Augastað gleraugnaverslunum.
Apótek Lyfja og heilsu eru nú fjögur, staðsett í Kringlunni, Granda, Firði og á Glerár-torgi Akureyri. Apótek Apótekarans eru 26 talsins og eru víðsvegar um landið, á höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbæ, Akranesi, Suðurlandi og Norðurlandi.

Lyf & heilsa
Lyf & heilsa leggur áherslu á heilsu og heilbrigði og er markmið keðjunnar að auka lífsgæði viðskiptavina sinni með því að bjóða lyf, aðrar heilsutengdar vörur og barnavörur ásamt breiðu úrvali af snyrtivörum. Lyf & heilsa leggur sérstaka áherslu á forvarnir í átt að betri heilsu og mælingar eru meðal þjónustu sem boðið er upp á. Um er að ræða þrennskonar mælingar; blóðþrýstings-, blóðfitu- og blóðsykursmælingar.

Apótekarinn
Apótekarinn leggur mikið upp úr persónulegri, öruggri og faglegri þjónustu þar sem áhersla er lögð á heilbrigðan lífsstíl, bæði andlegan og líkamlegan. Apótekarinn leggur sérstaka áherslu á forvarnir í átt að betri heilsu og býður upp á allt að þrenns konar mælingar; blóðþrýstings-, blóðfitu- og blóðsykursmælingar, sem geta gefið vísbendingar um líkamsástand þitt til framtíðar. Mælingarnar eru mismunandi eftir apótekum. Í vöruvali er lögð áhersla á lyf, lausasölulyf og aðrar heilsutengdar vörur á góðu verði.

Gamla apótekið
Gamla apótekið er framleiðslufyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu á kremum, áburðum, olíum og mixtúrum. Vörurnar eru byggðar á uppskriftum frá þeim tíma sem krem og áburðir voru framleidd í apótekum og má rekja fyrstu uppskriftirnar til ársins 1953 þegar apótek Austurbæjar var stofnað á Háteigsvegi. Framleiðslan fór fram á Háteigsveginum þar til í byrjun árs 2010 þegar hún var flutt í stærra húsnæði í Síðumúla, þar sem öll framleiðsla fyrirtækisins fer fram í dag. Vörur Gamla apóteksins má finna í öllum helstu apótekum landsins.

Gamla apótekið, vörur

Augastaður
Augastaður gleraugnaverslun er staðsett á tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu, í Mjódd og Firði Hafnarfirði. Áherslan hjá Augastað er á framúrskarandi þjónustu þar sem öll fjölskyldan getur fundið það sem hentar hverjum fjölskyldumeðlim. Í boði er breitt úrval af gleraugnaumgjörðum fyrir allan aldur, glerjum og linsum á góðu verði. Boðið er upp á faglegar sjónmælingar og linsumátanir, sem framkvæmdar eru af sjóntækjafræðingum.

SA lyfjaskömmtun
SA lyfjaskömmtun býður upp á tölvustýrða vélskömmtun lyfja í lyfjarúllur. SA lyfjaskömmtun býr yfir nýjum og fullkomnum vélum til skömmtunar á lyfjum. Með vélskömmtun lyfja má bæta meðferðarheldni, og hún hentar öllum þeim sem taka lyf að staðaldri, hvort sem um er að ræða mörg lyf á ólíkum tímum dagsins eða eina töflu á dag. Hver poki er sérmerktur viðkomandi þar sem allar upplýsingar koma fram, s.s. nafn lyfja, nafn þess sem taka á inn lyfin, fjöldi taflna, dagsetning, inntökutími og fleira.

Eigendur og stjórnendur
Lyf og heilsa hf. er að 99,56% hluta í eigu Faxa ehf. en endanlegur eigandi frá árinu 2014 er Jón Hilmar Karlsson. Jón Hilmar situr í stjórn Lyfja og heilsu, ásamt Önnu Guðnýju Aradóttur og Sigurði Ólafssyni stjórnarformanni.
Í framkvæmdastjórn Lyfja og heilsu eru fimm einstaklingar, þrjár konur og tveir karlar. Framkvæmdastjóri er Kjartan Örn Þórðarson, en hann er lyfjafræðingur að mennt og hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2002 og hefur gegnt flestöllum störfum innan fyrirtækisins. Sölu- og markaðsstjóri er Aðalbjörg Eggertsdóttir, sem hefur starfað á mismunandi sviðum fyrirtækisins allt frá stofnun þess. Rekstrar- og mannauðsstjóri er Guðbjörg Stefánsdóttir, en hún hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2018. Upplýsingatæknistjóri er Unnar Sigurðsson, hann hefur starfað frá árinu 2017 og aðalbókari er Sólveig Dagmar Erlendsdóttir, sem hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2015.

Markmið og sérsvið
Viðskiptalíkan og sérsvið félagsins byggir á heilsu og heilbrigði. Markmið félagsins er að auka lífsgæði viðskiptavina sinna með því að veita framúrskarandi þjónustu. Vöruframboðið tekur mið af ströngustu kröfum viðskiptavina og lögð er áhersla á að veita persónulega, örugga og faglega þjónustu. Með þessi markmið að leiðarljósi hefur starfsfólki Lyfja og heilsu tekist að byggja upp traust samband við viðskiptavini sína.
Samkvæmt íslensku ánægjuvoginni 2019 voru viðskiptavinir Apótekarans marktækt ánægðustu viðskiptavinir apóteka á Íslandi, auk þess sem Apótekarinn var meðal þriggja efstu fyrirtækja í flokki smávöruverslunar varðandi ánægju viðskiptavina. Þá voru viðskiptavinir Apótekarans einnig ánægðustu viðskiptavinir lyfjaverslana árið 2020, annað árið í röð.
Samfélag og umhverfi
Lyf og heilsa hf. starfar í sátt við samfélag og umhverfi. Með því að haga starfseminni á samfélagslega ábyrgan hátt stuðlum við að arðsemi, vexti til framtíðar og til hagsbóta fyrir samfélagið. Í gegnum árin hefur Lyf og heilsa hf. verið einn stærsti styrktaraðili Hjálparstarfs kirkjunnar og einn stærsti styrktaraðili Krafts – stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra.
Lyf og heilsa hf. hefur lagt áherslu á að styrkja einstaklinga, sjúklingasamtök, önnur minni félagasamtök og hópa sem minna mega sín í samfélaginu, en auk þess hefur Lyf og heilsa hf. styrkt starf íþróttafélaga víðsvegar um landið. Við ákvörðun styrkja til íþróttafélaga er horft til staðsetningar, stærðar og fjölbreytileika félagsins.

Þróun
Gríðarleg framþróun hefur átt sér stað innan apóteka fyrirtækisins á undanförnum árum. Fyrirtækinu er mjög umhugað um starfsmenn sína, enda eru þeir undirstaðan að velgengni í rekstri fyrirtækisins. Á undanförnum árum hafa flest apótek félagsins verið endurinnréttuð með það að leiðarljósi að bæta starfsmannaaðstöðu, hagkvæmni og upplifun viðskiptavina. Þetta er vinna sem aldrei tekur enda og er markmið fyrirtækisins að viðhalda og þróa apótekin í takt við tímann.
Lyfjaverð á Íslandi hefur á undanförnum árum helmingast og lækkað meira en á Norðurlöndunum, þáttur apótekanna er þar gríðarlega mikilvægur. Þá hefur á síðastliðnum árum verið innleitt nýtt greiðsluþátttökukerfi sem er ætlað að jafna hlut sjúklings, nýtt lyfjaauðkenniskerfi sem er ætlað að koma í veg fyrir að fölsuð lyf komist í sölu, pappírslaus viðskipti – þar með er lyfseðillinn í þeirri mynd sem við þekkjum hann ekki lengur til – og margt fleira.
Apótek landsins eru oftar en ekki fyrsti og jafnvel eini snertiflötur fólks við heilbrigðiskerfi landsins. Sú þjónusta sem veitt er í apótekum landsins verður að teljast algjörlega til fyrirmyndar, en á undanförnum árum hefur aðgengi fólks að þjónustu og ráðgjöf aukist til mikilla muna. Mikilvægt er að horfa til þess að styrkja apótekin enn frekar í því hlutverki sem þau hafa að gegna í heilbrigðiskerfinu og um leið víkka út starfsemi þeirra. Mannauður og þekking eru svo sannarlega til staðar og apótekin oftar en ekki betur til þess fallin að veita einfalda þjónustu í stað þess að gera það á mun dýrari stigum heilbrigðiskerfisins.

Aðsetur
Höfuðstöðvar félagsins eru í Reykjavík. Hlutverk þeirra er að veita öllum starfsdeildum félagsins allan þann stuðning sem til þarf, til að halda uppi þeim þjónustumarkmiðum sem unnið er eftir.
Mannauður
Hjá fyrirtækinu starfa að meðaltali um 250 manns í um 140 stöðugildum. Þar af um 60 lyfjafræðingar. Margir starfsmenn fyrirtækisins hafa starfað hjá því frá upphafi og starfsaldur hjá stórum hluta starfsmanna er mjög hár, það er eitthvað sem við erum virkilega stolt af.
Starfsfólk fyrirtækisins er á öllum aldri, með mismunandi menntun og sinnir mismunandi störfum. Allir starfsmenn vinna þó að sama markmiði; að veita framúrskarandi þjónustu.
Lyf og heilsa hf. lauk jafnlaunavottun árið 2020 í samræmi við lög um jafna stöðu karla og kvenna.

Velta
Frá því Lyf og heilsa hf. var stofnað árið 1999 hefur velta félagsins farið úr einum milljarði í rúmlega 10 milljarða.

Framúrskarandi fyrirtæki
Lyf og heilsa hefur verið á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki frá árinu 2017 og var árið 2020 í 65. sæti yfir stærstu fyrirtæki landsins.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd