Lyfjaver ehf.

2022

Lyfjaver var stofnað 11. september 1998 af Bessa Gíslasyni lyfjafræðingi og bræðrunum Aðalsteini Steinþórssyni viðskiptafræðingi og Magnúsi Steinþórssyni tölvunarfræðingi. Upphaflegt markmið með stofnun félagsins var að bjóða upp á tölvustýrða lyfjaskömmtun fyrir stofnanir og apótek og nýttist samanlögð reynsla og þekking stofnendanna fyrirtækinu vel á upphafsárunum. Rekstur Lyfjavers hefur frá upphafi einkennst af framsýni og nýtingu á nýjustu tækni við lyfjaafgreiðslu. Fyrirtækið hefur verið leiðandi í lágu lyfjaverði frá stofnun. Starfsemin hefur frá upphafi verið rekin á einum stað að Suðurlandsbraut 22 í Reykjavík.

Vélskömmtun lyfja
Lyfjaver rekur í dag umfangsmikla vélskömmtun lyfja og skammtar reglulega lyf fyrir um 6 þúsund einstaklinga. Meirihluti viðskiptavina í skömmtun eru sjúkratryggðir einstaklingar utan stofnana svo þróunin hefur orðin önnur en upphafleg áform um að skammta eingöngu fyrir stofnanir og apótek, gerðu ráð fyrir. Lyfjaver er leiðandi fyrirtæki á sviði lyfjaskömmtunar bæði fyrir stofnanir og einstaklinga. Við vélskömmtunina er beitt nýjustu tækni sem fáanleg er á hverjum tíma. Lyfjaver flutti inn fyrstu skömmtunarvélina þegar fyrirtækið var stofnað og var fyrst á Íslandi til að innleiða rýnivélar (MDM) sem taka myndir af öllum skömmtuðum töflum og bera þær saman við gagnagrunn. Sífellt er leitað nýrra leiða til að bæta rekjanleika og öryggi.

Apótek
Lyfjaver rekur eitt stærsta apótek landsins. Sérstaða apóteksins hefur frá upphafi falist í lágu lyfjaverði. Apótekið er mjög tæknivætt og hefur í þjónustu sinni sérhæfðan lyfjaróbót, þann fyrsta og eina sinnar tegundar á Íslandi en hann nýtist mjög vel við lagerhald lyfja, eykur öryggi og hagkvæmni við lyfjaafgreiðslu og sparar tíma.

Heilsuver
Við hlið apóteksins rekur Lyfjaver heilsuvöruverslunina Heilsuver. Þar fást vítamín, matvörur, bætiefni og fleiri heilsutengdar vörur á hagstæðu verði og hefur vegur þess vaxið mikið hin síðari ár.

Heildsala og dreifing
Lyfjaver hefur heildsöluleyfi og leyfi til lyfjainnflutnings. Upphaflega var sótt um heildsöluleyfi til að flytja inn hentugar lyfjapakkningar til lyfjaskömmtunar en meirihluti markaðssettra lyfja á Íslandi er í þynnum sem losa þarf úr fyrir skömmtun. Í gegnum tíðina hefur heildsala Lyfjavers farið ýmsar ótroðnar slóðir. Árið 2004 hóf Lyfjaver innflutning nikótínlyfja til að geta boðið lægra verð en áður hafði þekkst á Íslandi. Þá var heildsala Lyfjavers fyrst fyrirtækja á Íslandi til að samhliðaskrá lyf. Í dag dreifir Lyfjaver ýmsum sérhæfðum sjúkrahúslyfjum fyrir erlenda lyfjaframleiðendur og stundar auk þess innflutning á ýmsum vörum sem styðja við aðra þætti rekstrarins.

Rafrænar lausnir í lyfjaumsýslu
Lyfjaver hefur um nokkurra ára skeið unnið að þróun á rafrænum lausnum lyfjafyrirmæla. Þessar lausnir eru forsenda framfara á sviði lyfjaumsýslu, ekki síst hvað varðar lyfjafyrirmæli heilbrigðisstofnana og hjúkrunarheimila. Með rafrænum lyfjafyrirmælum opnast óteljandi möguleikar til tækniframfara, s.s. við lyfjagjöf inni á heilbrigðisstofnunum. Miklar vonir eru bundnar við þessa þróun og mun árangur af þessu starfi líta dagsins ljós á næstu misserum og árum.

Netapótek Lyfjavers
Á árinu 2020 opnaði Lyfjaver netapótek Lyfjavers. Mikil þróunarvinna felst í uppsetningu á fullkomnu netapóteki þar sem viðskiptavinir hafa aðgang að sínum lyfseðlum í lyfseðlagátt, geta séð endanlegt lyfjaverð og gert verðsamanburð. Þessi útvíkkun á starfsemi Lyfjavers er mikið framfaraskref sem færir Lyfjaver heim í stofu til allra landsmanna. Þessi þróun leiðir til þess að staðsetning apóteksins skiptir minna máli en áður og geta landsmenn nú pantað lyf á hagstæðu verði með einföldum hætti hvar sem þeir eru staddir á landinu og fengið þau send heim. Lyfjaver hefur áratuga reynslu af heimsendingu lyfja en frá upphafi hefur verið boðið upp á heimsendingu í tengslum við vélskömmtun lyfja og var Lyfjaver frumkvöðull á sviði póstsendinga á lyfjum.
Næstu ár verður áfram unnið að þróun á rafrænum lausnum til að auka hagkvæmni og öryggi í lyfjaumsýslu. Aukin áhersla verður lögð á þróun netverslunar og heimsendinga og að bæta þjónustuna enn frekar og færa hana nær viðskiptavininum.

Stjórn og eigendur
Hluthafar í Lyfjaveri eru Silfurberg ehf. og Eurogen Pharma. Í stjórn félagsins sitja Friðrik Steinn Kristjánsson, stjórnarformaður og meðstjórnendur eru Ingibjörg Jónsdóttir, Áshildur Friðriksdóttir og Sandeep Joshi.

Mannauður
Lyfjaver hefur á að skipa reynslumiklu starfsfólki sem þjónar viðskiptavinum af metnaði og fagmennsku. Um 55 fastir starfsmenn starfa hjá félaginu auk lausafólks. Stjórnendahópinn í dag skipa Hákon Steinsson framkvæmdastjóri, Aðalsteinn Ingvason fjármálastjóri, Ingibjörg Kolbeinsdóttir markaðsstjóri, Ragnheiður Gunnarsdóttir lyfsöluleyfishafi, Anna Hlíf Svavarsdóttir faglegur forstöðumaður lyfjaskömmtunar, Lárus Freyr Þórhallssson leyfishafi heildsölu, Eva María Þórhallsdóttir gæðastjóri og Íris Dögg Sigurðardóttir verslunarstjóri.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd