Lýsi hf. er íslenskt fyrirtæki sem var stofnað árið 1938. Starfsemin hefur frá upphafi byggst á framleiðslu þorskalýsis og hefur ætíð verið í fremstu röð framleiðslufyrirtækja í heiminum. Tilkoma nýrra verksmiðja árin 2005 og 2012 hefur svo tryggt fyrirtækinu forystu á sínu sviði um ókomin ár. Verksmiðjurnar gera fyrirtækinu kleift að bjóða upp á fjölbreytt úrval lýsisafurða í hæsta gæðaflokki.
Aðalverksmiðja og höfuðstöðvar Lýsi hf. eru í Reykjavík, en þess utan er fyrirtækið með lifrarbræðslu og hausaþurrkun í Þorlákshöfn. Þá á Lýsi hf. niðursuðuverksmiðjuna Akraborg. Áhrif sjávarfangs á líkamann eru vel þekkt og hafa verið studd vísindalegum rökum. Áhrifin eru að mestu rakin til Omega-3 fjölómettuðu fitusýranna EPA og DHA. Líkaminn getur ekki framleitt Omega-3 fitusýrur sjálfur og þarf því að fá þær úr fæðunni. Neysla lýsis og fiskmetis er ein besta leiðin til að sjá líkamanum fyrir Omega-3. Snemma á síðustu öld voru heilsusamleg áhrif D-vítamíns uppgötvuð. Þar sem þorskalýsi er ein mesta náttúrulega uppspretta D-vítamíns varð það fljótt vinsælt hráefni til framleiðslu vítamínsins. Í lok 7. áratugarins var svo sýnt fram á áhrif Omega-3 fitusýra úr sjávarfangi, einkum EPA og DHA, á hjarta- og æðakerfi. Síðan þá hafa þúsundir rannsókna staðfest mikilvægi Omega-3 fitusýra. Hin síðari ár hafa rannsóknir einnig beinst að DHA og tengslum fitusýrunnar við þroska fósturs, sér í lagi við þroska heila og taugakerfis.
Stofnun Lýsis
Lýsisævintýrið hófst árið 1936, með skeyti frá E. C. Wise hjá lyfjafyrirtækinu Upjohn í Michigan í Bandaríkjunum. Skeytið var stílað á Tryggva Ólafsson og í því var spurt hvort hann gæti útvegað þorskalýsi. Upjohn hafði fram að þessu keypt lýsi frá Noregi, en þurfti að finna annan birgja eftir að hlutfall A- og D-vítamína í norska lýsinu hafði skyndilega hrapað. Tryggvi átti ekki verksmiðju en hann átti hentuga lóð. Hann hélt því ásamt eiginkonu sinni til Noregs árið 1937 til að kaupa tæki. Verksmiðjan tók svo formlega til starfa 10. janúar 1938.
Sagan
1938-1957 – Eftirspurnin eftir A- og D-vítamíni, og þar með þorskalýsi, var mikil og Lýsi varð fljótlega stærsti framleiðandi þorskalýsis á Íslandi. Megnið af framleiðslunni var flutt út til Bandaríkjanna, en á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar sömdu ríkisstjórnir Íslands og Bretlands um að Bretar fengju að kaupa helming framleiðslunnar á meðan á stríðinu stæði. Um 1950 dró verulega úr eftirspurn eftir þorskalýsi og verðið féll.
1958-1977 – Erlendi markaðurinn fyrir þorskalýsi var áfram erfiður, en þrátt fyrir það skilaði LÝSI hagnaði. Á þessum árum hófst framleiðsla á kaldhreinsuðu þorskalýsi í neytendapakkningum. Um 1960 var rannsóknarstofu komið á laggirnar og reglubundnar rannsóknir á þorskalýsi hófust. Æ síðan hefur heimamarkaðurinn gegnt mikilvægu hlutverki í þróun nýrra vara, og reynslan síðan verið flutt yfir á aðra markaði.
1978-1997 – Árið 1979 komust vísindamenn að því að neysla lýsis dregur úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum. Þetta hafði mikil áhrif á almenning og vinsældir þorskalýsis jukust á ný. LÝSI lagði á þessum árum síaukna áherslu á rannsóknar- og þróunarstarf með þeim árangri að fyrirtækið er nú leiðandi þekkingarfyrirtæki hvað varðar ómega-3 og notkun þess.
1998- Undanfarna áratugi hefur salan aukist hratt og rannsóknir og þróun verið öflugri en nokkru sinni áður. 2005 og 2012 voru nýjar verksmiðjur teknar í notkun, búnar fullkomnustu tækjum sem völ er á. Sölu- og markaðsstarf LÝSIS hefur borið góðan árangur sem meðal annars sýnir sig í því að árið 2007 fékk LÝSI Útflutningsverðlaun forseta Íslands
Umhverfismál hafa verið og eru fyrirtækinu hugleikin sem meðal annars lýsir sér í því að Lýsi hf. tekur við öllu því sem fellur til frá þorskinum utan flaksins sjálfs og gerir úr því verðmæti. Lýsi hf. er með sjálfbærnivottanir frá Marine Stewardship Council (MSC) og Friends Of the Sea (FOS).
Unnið er eftir ströngum gæðastöðlum til að tryggja gæði framleiðsluvaranna. Helstu gæðastaðlar eru FSSC22000 ásamt GMP/API sem er staðall fyrir lyfjaframleiðslu.
Stjórn Lýsis
Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, stjórnarformaður, hefur átt sæti í stjórn félagsins frá árinu 1999 og hefur gegnt stöðu stjórnarformanns allan þann tíma.
Magnús Magnússon, stjórnarmaður, lauk cand oceon prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1990 og masterprófi í alþjóðaviðskiptum frá Norges Handelshøyskole árið 1994.
Katrín Pétursdóttir, forstjóri og stjórnarmaður, hefur verið forstjóri Lýsis frá 1999 þegar hún keypti fyrirtækið. Katrín lauk prófi í iðnrekstrarfræði frá Tækniskóla Íslands árið 1988. Frá 17 ára aldri starfrækti Katrín fyrirtækið Hnotskurn, sem verslaði með smávarning af ýmsu tagi, en seldi það árið 1988. Árið 1991 stofnaði hún ásamt foreldrum sínum Erlu Tryggvadóttur og Pétri Péturssyni fyrirtæki undir sama nafni í Þorlákshöfn til vinnslu þorskhausa til útflutnings. Fyrirtækið var sameinað Lýsi árið 2004. Katrín hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja og félagasamtaka, s.s. Viðskiptaráðs Íslands, Háskólans í Reykjavík, Bakkavarar, Glitnis og Ísal.
Pétur Júlíus Gunnlaugsson, varamaður í stjórn, lauk ML-námi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2020 og var skiptinemi við University of Glasgow árin 2018-2019.
Starfsmenn
Starfsmenn Lýsis eru tæplega 150 talsins í hinum ýmsu deildum fyrirtækisins. Í heimsfaraldrinum hefur þurft að gæta þess að fara að öllum reglum Almannavarna um sóttvarnir. Hefur það óneitanlega haft áhrif á starfaskipulag fyrirtækisins frá einum tíma til annars síðasta árið.
Samfélagsleg ábyrgð
Lýsi hf. sýnir samfélagslega ábyrgð með því að styðja við menningarstarf og íþróttir.
© 2025 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd