Menntaskóli í tónlist – MÍT

2022

Menntaskóli í tónlist er listframhaldsskóli sem tók til starfa árið 2017. Í apríl 2016 samþykkti þáverandi ríkisstjórn tillögu mennta- og menningarmálaráðherra um að stofnaður yrði sérstakur framhaldsskóli í tónlist, sem byði upp á framhaldsskólanám með sérstaka áherslu á hljóðfæraleik og söng og ættu nemendur að geta lokið stúdentsprófi frá skólanum með aðaláherslu á tónlist. Gert var ráð fyrir samningi um kennslu allt að 200 nemenda og að þjóna ætti nemendum af landinu öllu. Í framhaldinu var auglýst eftir aðilum til að stofna og reka framhaldsskóla í tónlist. Niðurstaðan var sú að tilboði Tónlistarskólans í Reykjavík og Tónlistarskóla FÍH var tekið og stóðu þessir tveir rótgrónu tónlistarskólar að stofnun skólans. MÍT varð þannig fyrsti skólinn til þess að hljóta viðurkenningu sem einkaskóli á framhaldsskólastigi til kennslu í tónlist og á sér sterkan faglegan bakgrunn í skólunum tveimur sem stóðu að stofnun hans. Þetta var mikilvægt skref í að efla tónlistarmenntun á framhaldsskólastigi á Íslandi og með þessari aðgerð varð tónlistarmenntun hluti af almenna skólakerfinu.

Hlutverk
Með námi við Menntaskóla í tónlist er lagður grunnur að háskólanámi á sviði tónlistar. Lögð er áhersla á að veita nemendum trausta grunnmenntun í tónlist, bæði þeim sem hyggjast starfa sem tónlistarmenn eða við önnur störf tengd tónlist og einnig sem undirbúningur undir fjölbreytt háskólanám og störf. Við skólann geta nemendur lokið stúdentsprófi með tónlist sem aðalnámsgrein og stundað áhugavert og krefjandi tónlistarnám á framhaldsskólastigi.
Nemendur geta valið á milli þess að sérhæfa sig í klassískri eða rytmískri tónlist í hljóðfæraleik, söng, tónsmíðum eða raftónlist. Nemendur geta mótað námið að eigin áhugasviði og sótt námskeið á ólíkum sviðum tónlistar. Lögð er sérstök áhersla á samleik og samvinnu nemenda og fá nemendur þjálfun í hljómsveitarleik og fjölbreyttu samspili. Jafnframt er lykilatriði að allir nemendur fái haldgóða kennslu í fræðigreinum tónlistar. Markmið skólans er að skapa umhverfi þar sem nemendur geta notið þess atlætis og þjálfunar sem nauðsynleg er til þess að þeir geti þroskast sem listamenn og þátttakendur í síbreytilegu samfélagi. Námið er því góður undirbúningur undir háskólanám og fjölbreytt störf á sviði tónlistar og skapandi greina. Miðað er að því að undirbúa nemendur að taka þátt í samfélagi þar sem sífelt meiri áhersla er lögð á skapandi hugsun og sjálfstæð og öguð vinnubrögð. Skólinn leggur allt kapp á að skapa umhverfi þar sem nemendur fá það atlæti sem nauðsynlegt er til þess að þroskast sem listamenn og manneskjur.

Mannauður
Við skólann starfa margir af fremstu tónlistarmönnum þjóðarinnar. Sérstaða skólans liggur meðal annars í því að flestir kennarar við skólann eru starfandi listamenn, flytjendur og tónskáld sem taka virkan þátt í tónlistarlífi landsins. Þeir kennarar sem starfa við skólann hafa nær undantekningarlaust sótt sér háskólamenntun í tónlist við erlenda háskóla. Mikil verðmæti felast því í fjölbreyttri reynslu þeirra kennara sem starfa við skólann og við hann er saman kominn ómetanlegur þekkingarauður í tónlist og tónlistarkennslu. Skólaárið 2020-2021 störfuðu 81 kennarar við Menntaskóla í tónlist í um 30 stöðugildum. Þann 1. janúar 2021 tók Freyja Gunnlaugsdóttir við stöðu skólameistara af Kjartani Óskarssyni sem hafði stýrt skólanum frá stofnun hans árið 2016. Stefanía Ólafsdóttir tók jafnframt við stöðu aðstoðarskólameistara (klassísk deild) á sama tíma en Sigurður Flosason gegnir á móti henni stöðu aðstoðarskólameistara (rytmísk deild). Sólrún Sumarliðadóttir gegnir stöðu áfangastjóra. Ólafur Axelsson tók við stöðu stjórnarformanns skólans í janúar.

Skólaárið 2020-2021
Skólaárið 2020-2021 stunduðu 208 nemendur nám við Menntaskóla í tónlist. 50 nemendur stunduðu nám á stúdentsbrautum skólans en 158 nemendur á almennum brautum skólann. Að auki stunduðu 20 nemendur fjarnám í bóklegum greinum eða gestanám við skólann.
Skólastarfið veturinn 2020-2021 var að mörgu leyti óvenjulegt og litaðist óhjákvæmilega af skugga heimsfaraldurs. Hluti kennslunnar var í fjarkennslu fyrri hluta vetrar og tónleikahald og hljómsveitarstarf var takmarkað vegna samkomutakmarkana. Nemendur og kennarar þurftu endurtekið að bregðast við nýjum aðstæðum og laga sig að breyttum reglum og fyrirmælum um sóttvarnir. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður var ljóst að tónlistarnemendur stunduðu námið af kappi og um veturinn sáu kennarar miklar framfarir og frábæran árangur hjá fjölda nemenda við skólann. Ljóst var að nemendur höfðu leitað á náðir tónlistargyðjunnar til að takast á við þær óvenjulegu aðstæður sem sköpuðust við heimsfaraldurinn og höfðu haft meiri tíma til að iðka listina en í venjulegu árferði.

Tónleikar
Menntaskóli í tónlist stendur alla jafna að 70-80 tónleikum yfir skólaárið, en tónleikahald er þungamiðja í skólastarfinu sem gefur nemendum mikilvæga reynslu í að koma fram. Samkomutakmarkanir höfðu tölverð áhrif á tónleikahald um veturinn og brugðið var á það ráð að streyma tónleikum. Streymið gerði það að verkum að fleiri gátu hlýtt á tónleikana og mikið áhorf var á tónleika skólans, en allt upp í 1700 manns hafa horft á einstaka tónleika við skólann. Svo nokkrir tónleikar séu nefndir sérstaklega þá voru haldnir glæsilegir kammertónleikar um haustið og jafnframt afmælistónleikar á 250 ára ártíð Beethovens sem heppnuðust einstaklega vel. Þann 18. apríl voru haldnir tónleikar sinfóníuhljómsveitar MÍT á Miklagarði í MH þar sem Baldvin Fannar Guðjónsson lék píanókonsert nr. 3 eftir Beethoven. Josef Ognibene stjórnaði hljómsveitinni. Klassíska deildin stóð jafnframt fyrir streymisveislu þar sem úrvalsatriði úr skólastarfinu voru valin á sérstaka hátíðartónleika sem sendir voru beint út á Youtube rás skólans. Haldnar voru tvær söngsýningar í rytmísku deildinni: Tónleikar til heiðurs Tinu Turner og 100 ára afmælistónleikar Jóns Múla Árnasonar sem tókust mjög vel. Efnt var til góðs samstarfs nemenda MÍT í verkefnastjórnun og nemenda í kvikmyndagerð í Borgarholtsskóla sem komu að upptöku og streymi á tónleikunum. Vignir Þór Stefánsson var hljómsveitarstjóri og Guðlaug Ólafsdóttir var söngstjóri. Á vordögum fór fram samspilsmaraþon sem var lokapunktur á starfi samspilanna um veturinn. Upptökur af öllum þessum tónleikum má nálgast á Youtube rás skólans.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd