Fagverk verktakar var stofnað árið 2004 af Vilhjálmi Þór Matthíassyni. Tilgangur fyrirtækisins fyrstu árin var þjónusta við byggingaraðila hvað varðar jarðvinnu og voru starfsmenn þess fimm talsins. Árið 2009 bættist malbikun við starfsemina, sem hefur verið aðalstarfsemi fyrirtækisins allar götur síðan. Fyrirtækið hefur frá upphafi verið staðsett í Flugumýri 26 í Mosfellsbæ og er þar í dag í eigin húsnæði. Starfsmannafjöldinn hefur vaxið jafnt og þétt með stækkun fyrirtækisins og eru 30 starfsmenn í dag sem fjölgar í 40 yfir háannatíma malbikunar. Helstu stjórnendur fyrirtækisins eru Vilhjálmur Þór, eigandi, Jón Grétar Heiðarsson, Matthías Matthíasson og Vilmundur Geir Guðmundsson, verkstjórar og Lilja Samúelsdóttir, fjármálastjóri.
Starfsemin
Fagverk framleiðir jafnframt eigið malbik undir merkjum Malbikstöðvarinnar, sem er dótturfélag Fagverks. Framleiðslan fer fram í nýrri stöð að Koparsléttu 6 – 8 í Reykjavík, stutt frá höfuðstöðvum fyrirtækisins, sem var tekin í notkun árið 2020. Malbikstöðin er leiðandi í umhverfisvænni framleiðslu malbiks á Íslandi, sem m.a. kemur fram í minni kolefnislosun með því að nýta metan við vinnsluna og endurvinnslu malbiks.
Gæði og öryggi á öllum sviðum er fyrirtækinu mjög mikilvæg og leggur fyrirtækið mikinn metnað í öruggt starfsumhverfi, starfsfólki og viðskiptavinum til heilla. Fyrirtækið rekur eigið verkstæði, undir forystu Arnars Hrafnssonar, sem tryggir að allur aðbúnaður og tæki séu eins og best verður á kosið. Samhliða stækkun á fyrirtækinu hefur tækja- og bílakostur vaxið sem telur nú vel yfir 100 vélar.
Markmið
Fagverk verktakar og Malbikstöðin leggja mikið uppúr því að gefa til baka til samfélagsins og t.a.m. er nafn knattspyrnuvallar Aftureldingar árið 2020 Fagverksvöllurinn. Fyrirtækið er félagi í ýmsum samtökum, s.s. Samtökum iðnaðarins og Félagi vinnuvélaeigenda. Þrátt fyrir að COVID-19 hafi valdið frestun verkefna og uppskiptingu á mannskap fyrirtækisins er árið 2020 mesta framfaraár í sögu fyrirtækisins sem styður markmið fyrirtækisins um aukna markaðshlutdeild.
Árin 2016-2019 hefur Fagverk verktakar skipað sér á lista CreditInfo yfir framúrskarandi fyrirtæki. Árið 2021 breyttist nafn Fagverks í Malbikstöðina. www.malbikstodin.is.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd