Colas Ísland

2022

Colas Ísland hf. er langstærsta malbikunarfyrirtæki landsins og á að baki flest stærstu og flóknustu malbiksverkefni sem innt hafa verið af hendi hér á landi á undanförnum árum. Fyrirtækið sinnir jafnframt framleiðslu og sölu á bindiefnum til vegagerðar og veitir þjónustu á öllum sviðum er tengjast notkun stungubiks til vegagerðar. Mikilvægur þáttur starfseminnar felst í metnaðarfullri þróunarvinnu í samvinnu við tæknimenn Colas í Evrópu, auk þess sem mikil áhersla er lögð á umhverfis- og öryggismál. Í þessu skyni er rekin sérhæfð rannsóknarstofa sem sinnir öllum gæðamálum fyrirtækisins og hlýtur hún vottun tvisvar á ári af BSI (British Standards). Colas veitir viðskiptavinum metnaðarfulla þjónustu og faglega ráðgjöf, þeim að kostnaðarlausu, varðandi verkefni og úrbætur.
Fyrirtækið hefur séð um malbikun í öllum jarðgöngum landsins undanfarin 25 ár eða síðan Vestfjarðagöngin voru gerð og nú síðast sá Colas um malbikun í Vaðlaheiðargöngum sem undirverktaki hjá ÍAV og Dýrafjarðargöngum fyrir Suðurverk. Flóknustu verkefni hverju sinni eru malbikun flugvalla. Colas hefur valist til stærstu verkefna á því sviði hér á landi; endurbyggingu Reykjavíkurflugvallar 2000-2001og Akureyrarflugvallar 2008-2009, ásamt langstærsta verkefni félagins til þessa sem var endurnýjun slitlags á báðum aðalflugbrautum Keflavíkurflugvallar árin 2016-2017. Eins og að líkum lætur hefur Vegagerðin verið stærsti og dyggasti viðskiptavinurinn í gegnum tíðina, en þar á eftir kemur þjónusta við sveitarfélög og verktakafyrirtæki sem vinna að nýbyggingum vega og gatna.
Skrifstofur félagsins eru á Reykjavíkurvegi 74 í Hafnarfirði en malbikunarstöð og rannsóknarstofa eru að Gullhellu 1 í Hafnarfirði. Bikbirgðastöð er staðsett að Óseyrarbraut 16 við Hafnarfjarðarhöfn. Verkstæði og fræsingadeild hafa aðstöðu að Álfhellu 8 í Hafnarfirði. Á Akureyri er rekin malbikunarstöð í Ægisnesi og bikbirgðastöð við höfnina í Krossanesi. Nýjasta viðbótin er malbikunarstöð sem staðsett er á Reyðarfirði. Færanleg malbikunarstöð getur og hefur farið um allt land og sinnt verkefnum á Vestfjörðum, Snæfellsnesi og Höfn í Hornafirði.
Meðalársverk Colas á undanförnum árum hafa verið á bilinu 80-100. Heildarvelta er að jafnaði um 5-6 milljarðar króna.

Sagan
Jarðvinnuverktakafyrirtækið Hlaðbær var upphaflega stofnað árið 1963. Fyrirtækið annaðist um árabil gatnagerð fyrir ýmis bæjarfélög og tók frá árinu 1975 þátt í lagningu slitlags fyrir Vegagerð ríkisins. Árið 1986 var rekstur Hlaðbæjar seldur til Byggingafélagsins hf. Í beinu framhaldi var 49% hlutafjár selt til danska fyrirtækisins Colas Vejemateriale A/S. Nýtt félag fékk nafnið Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas hf. Colas Danmark A/S er í dag eini eigandi Colas Ísland hf. og er hluti af Colas samsteypunni. Móðurfélagið er Colas SA í Frakkalandi sem er stærsti malbiksverktaki í heimi. Með alla þess uppsöfnuðu þekkingu og reynslu hóf Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas hf. opinberlega starfsemi í janúar 1987. Með tilliti til afkastagetu og hagkvæmni var strax í upphafi lögð mikil áhersla á að allur tækjakostur væri af bestu gerð. Ráðist var í uppsetningu á afar fulkominni blöndunarstöð í nýju iðnaðarhverfi í Hellnahrauni í Hafnarfirði og gat hún framleitt um 100 tonn á klukkustund. Árið 1989 keypti félagið svo biktanka og afgreiðslu fyrir bindiefni við Hafnarfjarðarhöfn sem áður hafði verið í eigu Miðfells hf. Tímamót urðu í rekstrinum árið 1996 þegar Hlaðbær Colas festi kaup á færanlegri malbikunarstöð sem innihélt fullkominn hreinsibúnað og gat afkastað um 70-140 tonnum á klukkustund. Þessi tækjabúnaður var fyrst settur upp á Ísafirði og var í raun forsenda þess að hægt væri að malbika Vestfjarðagöngin. Að því verkefni loknu var stöðin flutt að Hólabrú við Akranes og nýttist við lokafrágang Hvalfjarðarganga árið 1998 ásamt lagningu 22 km af vegtengingum norðan við þau. Síðan þá hefur fyrirtækið sinnt margvíslegum verkefnum á landsbyggðinni með eigin stöðvum eða leigustöðvum, allt eftir því hvað hentar hverju sinni.
Eftir að hafa verið með sitt fyrsta aðsetur að Hringhellu 6 í Hafnarfirði í rúm 20 ár, kom að því vorið 2008 að Hlaðbær Colas flutti sig um set í núverandi og áðurnefnt húsnæði að Gullhellu 1 á sama svæði í Kapelluhrauni. Þar er rekin stærsta og fullkomnasta malbikunarstöð landsins og getur hún annað um 240 tonnum á klukkustund. Árin 2019 var fyrirtækið Norðurbik á Akureyri keypt og sameinað Colas og árið 2020 fjárfesti félagið í öllum fræsitækjum frá Drafnarfelli. Í dag rekur Colas fimm framleiðslustöðvar og getur framleitt og lagt út á sama tíma um 700 tonn á klukkustund. Það jafngildir því að á hverri klukkustund væri lagt malbik á heilan kílómeter á sjö metra breiðum vegi. Í byrjun árs 2021 tók félagið upp nafn móðurfélaganna og heitir í dag Colas Ísland hf.

Útlögn, viðgerðir og jarðvinna
Colas starfrækir fjóra til fimm vel þjálfaða og samhenta vinnuflokka sem sjá um útlögn malbiks yfir sumartímann. Fyrirtækið hefur yfir að ráða sex malbikunarvélum, tuttugu völturum í ýmsum stærðum og sprautubílum fyrir bikþeytu ásamt malbikshitakössum. Að auki eru til reiðu vörubílar, fræsarar og sópar. Fyrirtækið sér um sprungufyllingar í malbiki með sérstökum efnum og tekur að sér yfirsprautun á yfirborð eldra slitlags til að lengja líftíma þess, aðferð sem oft er notuð á flugvöllum. Að auki tekur Colas að sér alla nauðsynlega undirbúnings- og frágangsvinnu eins og t.d. jarðvegsskipti, lagnavinnu, málun bílastæða, kantsteinagerð og hellulögn. Síðastöldu verkefnin eru þó ýmist unnin af starfsmönnum Colas eða í samvinnu við undirverktaka og samstarfsaðila.

Framleiðsla malbiks
Colas hefur frá upphafi framleitt margar tegundir malbiks og bindiefna ásamt ýmsum öðrum efnum til vegagerðar. Fyrirtækið hefur verið leiðandi í nýjungum á þessu sviði og rekur sérhæfða rannsóknastofu þar sem fara fram reglulegar prófanir, vöruþróunarverkefni
og daglegt gæðaeftirlit sem tryggir viðskiptavinum hámarks gæði framleiðslunnar. Frá árinu 2008 hefur Colas unnið eftir vottuðu gæðakerfi samkvæmt ÍST EN ISO 9001:2008. Síðan þá hafa bæst við umhverfis- og öryggistjórnunarvottanir en fyrirtækið leggur mikinn metnað í þessa málaflokka og hefur valist til fyrirmyndar í öryggismálum. Í dag endurvinnur Colas um 20-30 þúsund tonn af hráefnum og er leiðandi í umhverfismálum á sínu sviði.
Malbik er í eðli sínu einföld blanda af steinefnum og stungubiki. Afbrigðin byggjast á mismunandi tegundum og stærðum steinefna, ýmsum tegundum stungubiks og margvíslegum íblöndunarefnum. Í raun er það álagsþunginn, áferðarkröfur og aðstæður á hverjum stað sem ræður styrkleika og gerð þess malbiks sem lagt er út í hvert sinn og þannig fer alls ekki sama tegund í göngustíg, hraðbraut, flugvöll eða kappakstursbraut. Stundum er beðið um ljósa áferð, jafnvel rauða eða aðra liti. Íslensk steinefni eru yfirleitt ekki nógu sterk og þola illa slit af völdum nagladekkja, en þau eru hinsvegar kjörinn efniviður í göngutíga og minni götur. Vegna þessa hefur Colas flutt inn slitsterkt granít bæði frá Noregi og Skotlandi og þannig staðið að framleiðslu malbiks á mestu álagssvæðin og umferðarþungar götur.

Sala bindiefna
Colas leggur mikið upp úr því að fylgjast vel með vöruþróun bindiefna í heiminum. Bindiefnin skiptast í þrennt og eru stungubik, þjálbik og bikþeyta. Efnin eru afgreidd frá Bikbirgðastöðinni við Óseyrarbraut, en þar má einnig fá ýmsar gerðir íblöndunar- og sprungufyllingaefna.
Stungubik: Stungubik er hreint jarðbik (asfalt) sem aðallega er nýtt til blöndunar á heitu malbiki, en myndar einnig uppistöðuna í öðrum bindiefnum til vegagerðar. Varan er sérinnflutt og geymd á tönkum við 150°C áður en hún er afgreidd eða blönduð öðrum efnum.
Þjálbik: Þjálbik er blanda af stungubiki og úrgangs fiskioíu (Ethyl Esters) og er nýtt til klæðninga á þjóðvegum.
Bikþeyta: Bikþeyta er framleidd í bikbirgðastöð Colas. Margvísleg afbrigði eru fyrir hendi, en í grunninn myndast bikþeyta við samruna stungubiks og vatns með sérstakri aðferð og efnahvötum sem valda t.d. því að blandan verður meðfærileg við umhverfishitastig.
Notkunarmöguleikar eru margvíslegir og bikþeyta nýtist m.a til líminga á milli malbikslaga við útlögn, til framleiðslu á köldu malbiki sem og við djúpfræsingu og styrkingu vega.

 

Stjórn fyrirtækisins frá 2009:
Hans Oluf Krog, forstjóri Colas Danmark, formaður stjórnar
Anne Wennevold, fjármálastjóri Colas Danmark, varaformaður stjórnar
Sigþór Sigurðsson, meðstjórnandi

Framkvæmdastjóri:
Sigþór Sigurðsson

Fjármálastjóri:
Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd