Malbikunarstöðin Höfði

2022

Árið 1996 sameinuðust tvö gamalgróin borgarfyrirtæki, Malbikunarstöðin og Grjótnám Reykjavíkur og úr varð nýtt hlutafélag, Malbikunarstöðin Höfði hf. sem frá upphafi hefur verið í eigu Borgarsjóðs Reykjavíkur og Aflvaka hf. Starfsemi fyrirtækisins er margþætt og skiptist í fimm deildir með afmörkuð verksvið sem ýmist snúast um hráefnis- eða malbiksframleiðslu, útlögn malbiks, vetrarþjónustu, rannsóknir og þróun ásamt sölu- og markaðsmálum.

Hráefnadeild
Hráefnadeild annast vinnslu á steinefnum til malbiksframleiðslu. Í þessu skyni var hráefna aflað með grjótnámi í Seljadal í landi Mosfellsbæjar en Höfði var með samning um afnot af landinu til 2015. Frá árinu 2016 hafa hráefni fengist úr hnullungagrjóti frá Björgun hf. og fleiri námum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Einnig hefur verið flutt inn talsvert af steinefnum í tilbúnum kornastærðum og koma þau að mestu frá Noregi. Óunnin steinefni eru mulin í grjótmulningsstöð þar sem brjótar og hörpur mala og sigta steinefnin í mismunandi kornastærðir og áferðir. Uppruni efnis og þær stærðir sem verið að framleiða ráða því hvaða leið hráefnið fer í sjálfri framleiðslulínunni. Samstæðan samanstendur í heild sinni af matara, kjálkabrjót, 2 keilubrjótum, hverfibrjót og 7 sigtum í 4 sigtakössum ásamt fjölda færibanda. Afköstin sveiflast eftir því hvaða steinefni er verið að mylja, uppruna og gerð en að jafnaði annar grjótmulningsstöðin þörf félagsins fyrir innlend hráefni á hverjum tíma.

Framleiðsludeild
Eins og nafnið ber með sér er sjálf malbiksframleiðslan í höndum Framleiðsludeildar. Þar er steinefnum í hlutföllunum 93-95% og jarðbiki í hlutföllunum 5-7% blandað saman og hitað við 155-160 °C. Á hverju ári framleiðir Malbikunarstöðin Höfði um 30 gerðir af malbiki, en eiginleikar þess geta verið breytilegir eftir samsetningu hráefna, t.d. varðandi slitstyrk og áferð. Fyrirtækið rekur tvær malbikunarstöðvar. Sú eldri er dönsk ViaNova stöð frá árinu 1972 og getur afkastað um 170 tonnum á góðum degi. Árið 2006 var síðan gangsett þýsk Benninghoven stöð sem er færanleg og afkastar um 160 tonnum á tímann. Báðar stöðvarnar eru útbúnar með nýmóðins mengunarvarnabúnaði og báðar eru þær tæknilega mjög fullkomnar með tölvustýrðum framleiðslurásum. Þess ber að geta að í hefðbundnu árferði fer um 40 % framleiðslunnar í útlagnir á vegum Malbikunarstöðvarinnar Höfða, en annað er selt út úr stöðinni til annarra fyrirtækja.

Framkvæmdadeild
Útlagning malbiks er einn stærsti og veigamesti þátturinn í starfsemi Malbikunarstöðvarinnar Höfða. Öll slík verkefni falla undir verksvið framkvæmdadeildar sem er vel tækjum búin til stórra og smárra verka. Tækjafloti deildarinnar telur fimm malbikunarvélar, 10 vörubíla,
7 valtara, einn límbíl og hjólaskóflur auk fjölda smærri tækja, véla og áhalda. Verkefni eru sótt til ríkis, sveitarfélaga á suðvesturhorni landsins og annarra verkkaupa allt austur til Víkur í Mýrdal í suðri og Hvammstanga í norðri. Framkvæmdadeildin sér einnig um hálkuvörn og snjómokstur umferðagatna í Reykjavík að vetrarlagi. Í þessu skyni er allur bílaflotinn sérstaklega útbúin með snjóplógum og snjótönnum ásamt öflugum fjarskipta- og staðsetningartækjum, sem skráir akstur og allar aðgerðir bíls og bílstjóra.

Rannsóknadeild
Malbikunarstöðin Höfði heldur úti sérstakri rannsóknastofu eða Rannsóknadeild sem stundar athuganir og sinnir gæðaeftirliti með öllum þeim steinefnum sem berast inn í framleiðslulínu stöðvarinnar og framleiðslu fyrirtækisins. Deildin er vel búin tækjum til nauðsynlegra malbiks- og steinefnarannsókna. Meðal helstu verkefna eru þolkannanir á nýjum malbiksgerðum áður en þær fara í framleiðslu og sölu. Algengar rannsóknir og athuganir geta, t.d. falist í skoðun asfaltsprósentu, holrýmd malbiks og vatnsþolsprófi. Starfsfólk Rannsóknadeildar veitir fúslega allar mögulegar upplýsingar um hvaðeina sem snýr að sjálfum rannsóknunum t.d. varðandi framkvæmd þeirra og aðstoð við að túlka niðurstöður. Allar nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðunni www.malbik.is

Efnasamsetning malbiks
Hlutfall steinefna í malbiki er að jafnaði um 94% og það sem eftir stendur eru bindiefni ásamt loftfylltri holrýmd. Steinefnin eru úr muldu bergi, möl, sandi og fínefni í ákveðnum hlutföllum. Bindefnið er svonefnt jarðbik (asfalt) sem bæði finnst í náttúrunni, en er einnig eimað úr hráolíu. Sjálft malbikið verður síðan til með samblöndun og upphitun við 155-160 °C.

Starfsmenn og aðsetur
Hjá Malbikunarstöðinni Höfða eru innt af hendi, að jafnaði, um 38 ársverk og búa starfsmenn allir að mikilsverðri og uppsafnaðri þekkingu og reynslu á sínu sérsviði. Athafnasvæði fyrirtækisins í Reykjavík er um 7,5 ha og er staðsett við Sævarhöfða 6-10, við Elliðavog. Á næstu misserum er ákveðið að Malbikunarstöðin Höfði muni koma sér fyrir á nýjum stað, þar sem núverandi lóð er inn í miðju skipulagi væntanlegrar íbúðarbyggðar. Starfsmenn félagsins mynda saman starfsmannafélag sem stendur fyrir fjölmörgum viðburðum og skemmtunum, sem skapar skemmtilegan starfsanda og ánægju meðal starfsmanna.

Stjórn Malbikunarstöðvarinnar Höfða: Pawel Bartoszek, formaður, Margrét S. Björnsdóttir og
Valgerður Sigurðardóttir. Framkvæmdastjóri frá 2009 er Halldór Torfason, en frá 1. apríl 2020 Ásberg K. Ingólfsson.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd