Málmsteypa Þorgríms Jónssonar ehf

2022

Málmsteypa Þorgríms Jónssonar ehf. var stofnuð árið 1944 að Laugarmýrarbletti 32 í Laugarnesi sem á þeim tíma var í útjaðri byggðar í Reykjavík. Stofnendur voru feðgarnir Jón Jónsson, silfursmiður og Þorgrímur Jónsson, þá nemi í málmsteypu. Á upphafsárum Málmsteypunnar var steypt úr áli og kopar og voru búsáhöld aðal framleiðsluvaran. Handmótað var í hrásand og málmur bræddur í heimasmíðuðum olíukyntum deigluofni og málmbráð handausið í sandmót. Jón lést 1957 en Þorgrímur hafið tekið við rekstrinum nokkrum árum áður.

Framleiðsla og starfsemi
Ein af vinsælum framleiðsluvörum fyrirtækisins var pönnukökupanna og endurhannaði Þorgrímur pönnuna árið 1953, breytti lögun hennar og setti á hana rennt beykiskaft. Nýja pannan varð strax eftirsótt til gjafa. Slípivél var smíðuð á þessum tíma til að pólera pönnurnar. Árið 1961 var gert stálmót af pönnunni og við það jókst framleiðslugetan og voru pönnurnar framleiddar í þúsundavís um langt árabil. Í tímans rás áttu sér stað breytingar á framleiðslu fyrirtækisins. Um 1962 hófst framleiðsla á niðurföllum úr grájárni fyrir sveitarfélög og verktaka. Stuttu síðar hófst framleiðsla á brunnkörmum og lokum. Gatnagerðarvörur Málmsteypunnar fengu með tímanum innsteypt vörunúmer ásamt upphafsstöfunum MÞJ sem síðan hafa auðkennt framleiðsluvörur fyrirtækisins. Árið 1962 var stigið stórt framfaraskref þegar smíðaður var hlaupaköttur með rafmagnskrana sem létti störf til muna eins og við útsteypingu járns úr deiglum í sandmót. Framleiðsla á hlutum úr grájárni jókst jafnt og þétt. Árið 1964 var smíðuð hreinsitromla fyrir steyptar vörur sem auðveldaði vinnu við frágang á vörum. Byrjað var að steypa rekstarvörur fyrir Ísal á upphafsárum álversins. Árið 1968 lét Þorgrímur smíða snúningsbræðsluofn, eftir eigin teikningum, sem gat brætt 600 kg af járni í einu á sex klukkustundum. Loftpressa var keypt og farið að nota loftverkfæri til að þjappa mótasandi að frummótum.
Straumhvörf urðu í rekstri Málmsteypunnar árið 1973 þegar fyrirtækið flutti í nýtt og mun stærra og hentugra 240 m2 húsnæði að Hyrjarhöfða 9 í Reykjavík. Á þessum tíma starfaði Guðný Margrét Árnadóttir, eiginkona Þorgríms, við hlið hans og átti sinn þátt í að fleyta fyrirtækinu í gegnum fyrstu árin á Hyrjarhöfðanum. Börn þeirra hjóna Bára Þorgerður, Sigurður Trausti, Jón Þór og Herdís lögðu einnig hönd á plóg við framleiðsluna og uppbyggingu fyrirtækisins. Íslenska járnblendifélagið, síðar Elkem, hóf viðskipti við gangsetningu 1976. Sigurður Trausti, vélfræðingur, tók til starfa hjá MÞJ árið 1983 í fullu starfi. Ári síðar keypti fyrirtækið mótavél, sandblandara og rennibekk sem sett var upp samhliða því sem húsnæðið var stækkað um 120 m2. Jón Þór, vélaverkfræðingur, hóf störf hjá fyrirtækinu árið 1986 í fullu starfi. Þetta ár var keyptur rafmagnsspanofn sem bræddi 600 kg á klukkustund og einnig öflug stálkúlublástursvél til hreinsunar á framleiðsluvörum. Árið 1987 störfuðu um átta manns hjá fyrirtækinu og starfsmannafjöldi hafði þá fjórfaldast á einum áratug. Sama ár var fyrirtækinu breytt í einkahlutafélag þar sem systkinin komu í hluthafahópinn með foreldrum sínum.
Árið 1988 hóf fyrirtækið framleiðslu á seigjárni sem hafði meiri styrk en grájárn og bauð upp á ný sóknarfæri á framleiðslusviði. Húsnæðið var enn stækkað á árunum þar á eftir samhliða því sem umsvifin jukust. Árið 1996 var stigið risastórt skref í gæðamálum þegar fjárfest var í efnagreiningartæki sem greindi 15 frumefni í málmbráð á örfáum mínútum. Byrjað var að framleiða staghús fyrir háspennumöstur fyrir Landsvirkjun samkvæmt nýrri hönnun MÞJ. Sama ár var keyptur nýr sandblandari, búnaður fyrir sjálfherðandi sand ásamt öflugu smergeli. Byrjað var að framleiða sogrör fyrir álaftöppun úr kerjum Norðuráls sem þá var að hefja rekstur. Árið 1996 samdi Ísal við MÞJ um framleiðslu á barrakrögum vegna stækkunar álversins. Árið 2000 flutti fyrirtækið í nýtt 1400 m2 húsnæði við Miðhraun 6 í Garðabæ. Það var sérhannað fyrir starfsemina og sexfalt stærra í rúmmetrum en húsnæðið að Hyrjarhöfða. Á sama tíma var skipt yfir í sjálfherðandi sand, sem gaf meiri sveiganleika í framleiðslunni. Nýr bræðsluofn var keyptur 2003 sem bræddi 1100 kg á klukkustund. Á árunum 2003 og 2004 voru framleiddir barrakragar til útflutnings til Noregs, Sviss og Hollands.
Ný heildstæð mótunarlína var keypt árið 2005 er gjörbreyttu framleiðsluferli sandforma. Sama ár framleiddi fyrirtækið staghús í Fljótsdalslínur fyrir Landsvirkjun. Það ár lét Þorgrímur af daglegum störfum hjá fyrirtækinu 81 árs að aldri. Stofnað var innflutnings- og endursölusvið árið 2006 til að styðja við framleiðslu fyrirtækisins. Það svið hefur vaxið jafnt og þétt og með innflutningi á ýmsum lausnum á veitusviði eins og plaströrum, -brunnum, -rörum og tengihlutum og járnsteyptum vörum. Framleiðsluumsvifin jukust umtalsvert árið 2012 í kjölfar stækkunar Ísals. 2016 var fjárfest í nýju efnagreiningartæki fyrir framleiðsluna. Árið 2018 hófst framleiðsla fyrir PCC á Húsavík.

Rannsóknir og þekking
MÞJ hefur unnið að ýmsum rannsóknarverkefnum á sviði efnistækni í málmsteypu með innlendum og erlendum rannsóknarstofnunum og fyrirtækjum allt frá árinu 1988. Þátttaka í þessum verkefnum hefur skilað fyrirtækinu mikilvægri þekkingu og reynslu sem stuðlað hefur að nýjum tækifærum og þróun í framleiðslunni.
MÞJ hefur sérstöðu samanborið við erlend fyrirtæki á sama sviði sem mjög lítið fyrirtæki en með mikla breidd í framleiðslu sem spannar víðara svið en mörg stórfyrirtæki í Evrópu.
MÞJ er elsta starfandi endurvinnslufyrirtæki landsins. Fyrirtækið hefur alla tíð endurunnið brotamálma í sína framleiðslu og telur endurvinnslan tugi þúsunda tonna.

Framtíðarsýn
Í lok árs 2019 var fjölskyldufyrirtækið Málmsteypa Þorgríms Jónssonar ehf. selt til Alfa Framtak ehf. en Sigurður Trausti og Jón Þór störfuðu um hríð nýjum eigendum en í lok árs 2021 höfðu þeir báðir lokið störfum. Sigurður Orri Steinþórsson hefur tekið við hlutverki framkvæmdastjóra í fyrirtækinu og stefna gamlir og nýir starfsmenn ótrauðir á áframhaldandi vöxt Málmsteypu Þorgríms Jónssonar.

Miðhraun 6
210 Garðabæ
5448900
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd