Mannberg / Vélsmiðja Heiðars

2022

Árið 1962 stofnaði Heiðar Bergmann Marteinsson, Vélsmiðju Heiðars ehf. Vélsmiðjan sérhæfði sig í upphafi að heildarlausnum og framleiðslu fiskvinnslutækja fyrir sjávar-útvegsfyrirtæki á Íslandi og erlendis. Vélsmiðjan var starfrækt fyrstu árin í Sætúni í Reykjavík. Frá Sætúni flutti vélsmiðjan í Kópavog í Auðbrekku 43 og síðar í Hamraborg 1, sem var upphafið að staðsetningu vélsmiðjunnar í Kópavogi, og lengstan sinn starfstíma staðsett í Vesturvör 26, og síðar á Dalvegi. Fyrirtækið óx hratt á þessum upphafsárum. Smíði fyrirtækisins var mestmegnis smíði á tækjum fyrir saltfiskverkendur og smíði á fiskþvottavélum. Fiskvinnslufyrirtæki voru að slíta barnsskónum og háð gömlum aðferðum. Mikil og hröð þróun átti sér stað og tókst vélsmiðjan með sínum mannauð á við hraða þróun í smíði á stærri vélum og færiböndum.

Framleiðsla
Allt frá upphafi var framleiðsla vélsmiðjunnar þróuð í náinni samvinnu við viðskiptavini ásamt því að aðlaga tækin breyttum vinnsluaðferðum jafnt í frystihúsum sem og um borð í fiskiskipum og frystitogurum. Framleiðsla vélsmiðjunnar þróaðist út í heildarlausnir og var Vélsmiðja Heiðars fyrsta fyrirtækið á Íslandi til að hanna og smíða kerfi fyrir vélsöltun á síld. Það kerfi auðveldaði alla síldarsöltun og gerði störfin við síldarsöltun hagkvæmari en áður hafði þekkst. Öll rekstrarár fyrirtækisins hefur það notið trausts og velgengni með tryggan hóp viðskiptavina og gerir enn.

Eigendur og rekstur
Það var svo árið 2007 sem stofnandi fyrirtækisins Heiðar Bergmann ákvað að setjast í helgan stein, þá komin vel yfir eftirlaunaaldur. Hann fól því sonum sínum áframhaldandi rekstur fyrirtækisins. Guðmundur Heiðarsson og Marteinn Heiðarsson ásamt syni Guðmundar, Ásgeiri Guðmundssyni tóku við rekstri vélsmiðjunnar og á sama tíma skiptu þeir um nafn í tilefni þessara tímamóta og nefndu fyrirtækið Mannberg ehf. til heiðurs stofnanda þess og fluttu í gott húsnæði í Akralind 1 Kópavogi. Fyrirtækið veitir þar enn sömu úrvalsþjónustu og öll þau 59 ár í rekstri þó áherslurnar hafi þróast mikið undanfarin ár. Fyrirtækið sinnir í dag fjölbreyttri þjónustu, í viðhaldi tækja og búnaðar ásamt nýsmíði fjölbreyttra tækja fyrir fyrirtæki. Fyrirtækið sérhæfir sig í öllum tegundum rafsuðu svo sem rafsuðu á háþrýstirörum og annarri fínni og sérhæfðri rafsuðu. Viðhald og viðgerðir í fyrirtækjum, gróðurhúsum, sundlaugum og almennum fasteignum þar sem smíðavinnu og viðgerðum er sinnt. Fjölhæfni, vönduð vinna og hagstætt verð eru einkennismerki fyrirtækisins sem byggir á 59 ára reynslu frumkvöðla þess.

Aðsetur
Mannberg ehf. er staðsett í Akralind 1 í Kópavogi. Vefsíða: www.mannberg.is

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd