Mannvit

2022

Árangur í verki
Mannvit verkfræðistofa veitir ráðgjöf í orku, iðnaði og mannvirkjagerð. Mannvit sérhæfir sig í verkfræði, jarðvísindum, umhverfismálum, upplýsingatækni og byggingar-efnarannsóknum auk verkefnastjórnunar. Ráðgjöf Mannvits byggir á meira en hálfrar aldar reynslu og þekkingu. Hjá fyrirtækinu starfar öflugur hópur verkfræðinga og tæknimenntaðs starfsfólks með fjölbreytta reynslu.

Meira en 55 ára reynsla
Mannvit á rætur sínar að rekja til ársins 1963 þegar Verkfræðistofa Guðmundar og Kristjáns (VGK) og Verkfræðistofan Hönnun voru stofnaðar. Á árunum 2007 og 2008 runnu þær, ásamt Rafhönnun, saman í þekkingarfyrirtækið Mannvit sem er að fullu í eigu starfsfólks. Tekjur samstæðu Mannvits undanfarin ár eru á bilinu 5-6 milljarðar króna á ári. Forstjóri fyrirtækisins er Örn Guðmundsson, sem starfaði fyrst sem fjármálastjóri frá árinu 2015 en tók við sem forstjóri árið 2018.

14 skrifstofur í 5 löndum
Aðalskrifstofa Mannvits er að Urðarhvarfi 6 í Kópavogi og vel útbúin rannsóknar- og prófunarstofa er að Víkurhvarfi 8 í Kópavogi. Þar eru gerðar athuganir á jarðefnum, stáli, bergi og steinsteypu. Að auki eru sjö starfsstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins. Erlendar skrifstofur eru í Þýskalandi, Grænlandi, Indónesíu og Ungverjalandi. Dótturfélög Mannvits á sviði verkfræðiþjónustu eru HRV verkfræðistofa og Vatnaskil á Íslandi, GTN GmbH í Þýskalandi. Hjá fyrirtækinu starfar því alþjóðlegt teymi um 250 sérfræðinga sem kappkosta að tryggja arðsemi verkefna viðskiptavina með áherslu á öryggi, umhverfi og sjálfbærni.

Vottuð gæðakerfi
Mannvit starfrækir samþætt stjórnkerfi sem tekur mið af stöðlunum ISO 9001 um gæðastjórnun, ISO 14001 fyrir umhverfisstjórnun og ISO 45001 um stýringu öryggis og vinnuverndar. Áhersla á góða stjórnarhætti hefur skilað fyrirtækinu fjölmörgum viðurkenningum fyrir góða stjórnarhætti undanfarin ár. Mannvit byggir samkeppnisforskot sitt á öflugum mannauði og samfélagsábyrgð sem er samofin öllum rekstri fyrirtækisins og hlaut jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins árið 2018. Mannvit leggur metnað í að vera góður vinnustaður þar sem starfsfólki líður vel og hugað er að andlegri og líkamlegri heilsu fólks. Á hverju ári fer fram fræðsla um málefni tengd andlegri og líkamlegri vellíðan. Mannvit hvetur starfsfólk sitt til heilsueflingar, m.a. með styrk fyrir líkamsrækt og samgöngur en alls nýta um 60% starfsfólks sér líkamsræktarstyrk á ári hverju.

Skapa og stuðla að sjálfbæru samfélagi
Hlutverk fyrirtækisins er skilgreint að skapa og stuðla að sjálfbæru samfélagi. Fyrirtækið vill sýna gott fordæmi með því að vera leiðandi á sviði sjálfbærrar þróunar og vinnur eftir viðmiðum Global Compact og markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun við stefnumörkun og markmiðasetningu. Mannvit styðst jafnframt við alþjóðleg viðmið um umhverfis- og félagslega þætti ásamt stjórnarháttum (UFS) í rekstri sínum. Árlega eru birtar upplýsingar samkvæmt UFS vísum sem gefnar eru út og birtar á vef fyrirtækisins.

Fjölbreytt verkefni
Frá stofnun hafa verkefnin breyst með áherslum og sveiflum í íslensku efnahagslífi. Mannvit hefur ávallt haft þann styrk að vera sveigjanlegt og þannig tekist að bregðast við hröðum breytingum sem orðið hafa í viðskiptaumhverfi fyrirtækisins. Eins og fyrr segir nálgast Mannvit verkefni með sjálfbærni að sjónarmiði og leitast því við að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum á umhverfi og samfélag, nýta auðlindir á ábyrgan hátt, takmarka losun gróðurhúsalofttegunda og skapa öruggar, visthæfar og hagkvæmar lausnir fyrir viðskiptavini sem skila þeim ábata til framtíðar.

Iðnaðarverkefni og sjávarútvegur
Mannvit veitir fjölbreytta þjónustu og tæknilausnir fyrir krefjandi verkefni á sviði vélaverkfræði hvort sem er í iðnaði eða sjávarútvegi. Starfsfólk Mannvits hefur leyst fjölbreytt verkefni í vélahönnun, meðal annars fyrir olíuiðnaðinn, efnaverksmiðjur, fiskimjölsverksmiðjur, veitur, sorp- og metangasvinnslu.
Mannvit hefur komið að öllum helstu verkþáttum við undirbúning, byggingu og ráðgjöf við rekstur tengdum orkufrekum iðnaði á Íslandi. Fyrirtækið býr að sérhæfðri tækniþekkingu til að þjónusta áliðnaðinn. Stór verkefni á sviði álvinnslu hafa verið unnin í samstarfi við HRV verkfræðistofu, sem er að meirihluta í eigu Mannvits. Þar má nefna uppbyggingu Fjarðaáls á Reyðarfirði, álver Norðuráls á Grundartanga og Ísal í Straumsvík.
Einnig hafa starfsstöðvar Mannvits á landsbyggðinni þjónustað sjávarútvegsfyrirtæki og sveitarstjórnir við ýmis verkefni við skipulagsgerð, veitur, umhverfismál og hafnaraðstöðu. Dæmi um nýleg verkefni fyrir sjávarútvegsfyrirtæki eru frystigeymslur Eskju á Eskifirði, uppbygging frystihúsa Síldarvinnslunnar og rafvæðing fiskmjölsverksmiðja á Austurlandi.

Gas- og jarðgerðarstöð
Mannvit hefur komið að fjölmörgum verkefnum tengdum umhverfisvænum orkugjöfum, metani, lífetanóli, lífdísil og vetni. Sérfræðingar Mannvits hafa einnig unnið að þróun nýrra tæknilausna í umhverfisvænni orkuvinnslu ásamt gasvinnslu og jarðgerð úr lífrænum úrgangi, sorpi og fleiru. Viðamestu verkefnin á því sviði hafa verið fyrir SORPU sem byggt hefur upp glæsilega aðstöðu til sorpvinnslu og metanvinnslu á Álfsnesi með nýrri gas- og jarðgerðarstöð. Væntingar standa til að yfir 95% úrgangs frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu verði endurnýttur.
Endurnýjanleg orka
Orkuverkefni á sviði vatnsaflsvirkjana, jarðhitanýtingar og flutnings raforku hafa ávallt leikið stórt hlutverk í rekstri fyrirtækisins. Verkefnin á Íslandi eru í hönnun og byggingu umhverfisvænna lífgas- og lífeldsneytisstöðva, endurbætur orkuflutningskerfa, jarðgerðarstöðva og grænna netþjónabúa, minnkun og bindingu koldíoxíðs (CO2), kolefnisendurvinnslu, samþættingu varma- og raforkuvinnslu og fleira. Stefna fyrirtækisins er að styðja við nýtingu endurnýjanlegrar orku og hefur Mannvit yfir 50 ára reynslu í nýtingu jarðhita, byggingu vatnsaflsvirkjana, lagningu hitaveitna og tengdra verkefna. Undanfarin ár hafa stór jarðhitaverkefni eins og Hellisheiðarvirkjun ON, sem sér stórum hluta höfuðborgarsvæðisins fyrir hitaveitu, ásamt umtalsverðri raforkuframleiðslu, verið umfangsmikill hluti starfseminnar. Árið 2019 lauk framkvæmdum við fyrsta áfanga Þeistareykjavirkjunar Landsvirkjunar með aflgetu uppá 90 MW. Einnig hafa vatnsaflsvirkjanir, s.s. Brúarvirkjun, Hvammsvirkjun, Búrfellsstöð og Búðarhálsstöð verið á borði Mannvits undanfarin ár, ýmist við mat á umhverfisáhrifum, hönnun, innkaup, verkefnastjórnun eða framkvæmdaeftirlit. Nýjustu verkefnin á sviði orku eru í undirbúningi vindlunda víðsvegar um landið, við mat á umhverfisáhrifum, ásamt umbótum og endurnýjun á raforkuneti Landsnets vítt og breitt um landið. Mannvit hefur í áratugi leikið mikilvægt hlutverk við nýtingu orkulinda á Íslandi og mun gera áfram. Sú þekking sem hefur skapast innan fyrirtækisins er nú orðin verðmæt útflutningsvara. Mannvit hefur komið að ýmsum verkefnum í Evrópu, Mið- og Suður Ameríku, Asíu og Austur Afríku. Undanfarin misseri hefur Mannvit og dótturfélag þess Vatnaskil hafa komið að fjölmörgum verkefnum í Austur-Afríku, m.a. í Kenía og í Eþíópíu.

Mat á umhverfisáhrifum
Í hartnær 30 ár frá setningu laga um mat á umhverfisáhrifum árið 1993 hefur Mannvit verið í fararbroddi þeirra ráðgjafafyrirtækja sem unnið hafa að mati á umhverfisáhrifum framkvæmda og umhverfismati áætlana og komið að um þriðjungi allra verkefna á þessu sviði á Íslandi – bæði stórum og smáum.  Helstu verkefnin sem tengjast mati á umhverfisáhrifum eru á sviði stóriðju, vatnsafls- og jarðhitavirkjana, háspennulína, efnistöku og samgöngumannvirkja.  Ávallt er reynt að finna lausnir sem draga úr eða bæta fyrir hugsanleg umhverfisáhrif framkvæmda, bæði á framkvæmda- og rekstrartíma.

Samgöngumannvirki og skipulag
Mannvit hefur komið að hönnun veitu- og samgöngumannvirkja, s.s jarðganga, flugvalla, hafna, vega og brúa. Sérfræðingar Mannvits veita einnig ráðgjöf á sviði samgönguskipulags. Fyrirtækið býr yfir víðtækri þekkingu á hönnun veitumannvirkja, hvort sem um er að ræða hitaveitur, vatnsveitur, gagnaveitur eða fráveitur. Hér eru dæmi um samgöngu- og skipulagsverkefni: Breikkun Hringvegarins frá Hveragerði að Biskupstungnabraut.
Vegagerðin stendur fyrir breikkun á hringveginum frá Hveragerði að Biskupstungnabraut við Selfoss. Markmið framkvæmdarinnar er aukið umferðaröryggi með aðskilnaði akstursstefna og fækkun tenginga við hringveg ásamt því að auka umferðarrýmd vegakerfisins milli Hveragerðis og Selfoss. Mannvit veitti alla verkfræðihönnun og sá um gerð kynningarmyndbands á framkvæmdum.

Borgarlína
Nýtt Borgarlínuverkefni stendur fyrir dyrum. Mannvit hlaut hæstu einkunn í alþjóðlegu útboði um verkefnastjórnun og ráðgjöf við uppbyggingu þessa viðamikla verkefnis. Í verkefnahópi Mannvits er danski ráðgjafinn COWI og Arup frá Englandi. Hópnum er ætlað að veita forystu og stuðning á lykilsviðum verkefnisins, allt frá undirbúningi forhönnunar til afhendingar þess að loknum framkvæmdum.

Rammaskipulag í Hafnarfirði
Nýtt rammaskipulag fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrarsvæði var niðurstaða úr sameiningu tveggja tillagna í hugmyndasamkeppni fyrir Hafnarfjarðarbæ og Hafnarfjarðarhöfn. Nýtt skipulag tengir mismunandi svæði og starfsemi saman, s.s. Siglingaklúbbinn, dráttarbraut, Íshúsið, Hafnartorgið og biðstöð Borgarlínu. Mannvit var ráðgjafi erlendra arkitektastofa sem unnu sameiginlega að rammaskipulaginu. Mannvit veitti einnig ráðgjöf tengda samgöngum á svæðinu.

Mannvirki frá upphafi til lúkningar
Mannvit veitir ráðgjöf á sviði mannvirkja frá upphaflegri hugmynd til framkvæmdar, hvort sem er á frumhönnunar-, verkhönnunar- eða byggingarstigi. Má þar nefna húsbyggingar, samgöngumannvirki, umferðar- og skipulagsmál, umhverfismál, vatnamælingar, landmælingar, jarðfræði og hljóðvist. Undanfarin ár hefur orðið aukning í mannvirkja- og innviðaverkefnum á kostnað iðnaðarverkefna sem áður voru stór hluti af veltu.

Fyrsti Svansvottaði skólinn
Kársnesskóli er merkilegt dæmi um hönnun húsnæðis fyrir Svansvottun og verður fyrsti slíki skólinn á Íslandi. Nýja skólabyggingin mun hýsa grunn- og leikskóla. Nýr Kársnesskóli verður 5.750 m² á þremur hæðum þar sem burðarvirki skólans verður úr krosslímdum timbureiningum (KLT). Mannvit sá um alla verkfræðihönnun á verkinu, ásamt því að veita ráðgjöf vegna Svansvottunar til Kópavogs.

Hótel Reykjavík EDITION
Hótel Reykjavík EDITION auk íbúða- og verslunarbyggingar Austurbakka. Hótelið stendur við Austurhöfn og er 5 stjörnu hótel á vegum EDITION, sem er lúxuskeðja Marriott International. Hótelið er á sex hæðum auk kjallara og um 16.500 m2 að stærð með 250 herbergi, veitingastað og bari, fundarherbergi, veislusali og heilsulind. Við Austurbakka hafnarsvæðisins við hlið hótelsins er einnig 16.500 m2  íbúða- og verslunarbygging. Við uppbyggingu mannvirkjanna sá Mannvit um verkefnastjórnun og heildarumsjón verkefnisins ásamt T.ark teiknistofan arkitektar.

Umhverfisvottanir skipulags og bygginga
Vitundarvakning um umhverfismál á Íslandi hefur haft í för með sér aukna eftirspurn á umhverfisvottunum og þar á meðal BREEAM vistvottun fyrir skipulag og húsnæði. Vottunin byggir á alþjóðlegu vottunarkerfi sem hefur það að markmiði að tryggja samfélagslegan og efnahagslegan ávinning og á sama tíma draga úr umhverfisáhrifum. Urriðaholt var fyrsta deiliskipulagið hérlendis sem hlaut BREEAM Communities vottun og stóð Mannvit að þeirri vottun. Hjá fyrirtækinu starfar einnig hópur reynslumikilla sérfræðinga sem býr yfir mikilli þekkingu við hönnun og vottun sjálfbærra mannvirkja. Mannvit hefur komið að fjölda verkefna, annarsvegar sem hönnuður og hins vegar sem matsaðili að sjálfbærum verkefnum sem hlotið hafa BREEAM vottun.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd