Marz sjávarafurðir ehf.

2022

Marz Sjávarafurðir ehf. var stofnað 1. maí 2003 af hjónunum Erlu Björgu Guðrúnardóttur og Sigurði Ágústssyni. Erla Björg hefur frá upphafi verið framkvæmdastjóri félagsins og stjórnað daglegum rekstri þess auk þess að sjá um sölumál. Tilgangur félagsins er að leita nýrra leiða til að færa framleiðendur og neytendur nær hvor öðrum með það að leiðarljósi að hámarka arðsemi beggja aðila. Frá stofnun félagsins hefur ávalt verið lögð áhersla á nána samvinnu við viðskiptavini víða um heim og helgar starfsfólk Marz Sjávarafurða ehf., sig því hlutverki að sinna þörfum markaðarins í síbreytilegu umhverfi með áherslu á vöruþróun og nýjungar með þarfir kaupenda og framleiðenda að leiðarljósi.

Sagan
Fyrstu árin var fyrirtækið með skrifstofuaðstöðu í litlu leiguhúsnæði að Hamraendum í Stykkishólmi þar sem starfsemin dafnaði vel fram til ársloka 2009 þegar full þröngt var orðið um starfsmenn og starfsemina í heild. Áramótin 2009-2010 festi fyrirtækið því kaup á gamla pósthúsinu við Aðalgötu 5 í Stykkishólmi, fór í gagngerar endurbætur og breytingar og flutti höfuðstöðvar sínar í kjölfarið í það húsnæði í hjarta bæjarins þar sem starfsemin þrífst vel.
Fyrirtækið hefur vaxið hægt en örugglega frá stofnun þess.

Starfsfólk
Í fyrstu var Erla Björg eini starfsmaðurinn en fyrirtækinu óx fljótlega fiskur um hrygg og því hefur starfsmönnum fjölgað jafnt og þétt í gegnum árin í takt við aukin umsvif í rekstrinum. Í dag eru samtals átta starfsmenn hjá Marz Sjávarafurðum ehf., sjö á aðalskrifstofu í Stykkishólmi og einn á söluskrifstofu sem staðsett er í Álaborg í Danmörku. Þessir átta starfsmenn skiptast að jafnaði nokkuð jafnt á deildir fyrirtækisins sem eru söludeild, útskipunardeild og fjármáladeild auk þess að hafa starfandi gæðastjóra. Frá upphafi hefur engu að síður verið lögð rík áhersla á að allir starfmenn þekki starfsemi fyrirtækisins frá toppi til táar og geta því flestir gengið í störf hvers annars ef því er að skipta. Svo skemmtilega vill til að allir starfsmenn eru konur, sem er ekki algengt í þessum geira atvinnulífsins þó að konum í sjávarútvegi hafi blessunarlega fjölgað síðastliðin ár. Hópurinn hefur í gegnum tíðina gert fleira en bara að vinna saman og hefur m.a. farið saman í maraþon, þríþrautarkeppni, ferðast um heiminn og gert fleira skemmtilegt sem gefur lífinu gildi og þjappar hópnum enn frekar saman.

Starfsemin
Marz Sjávarafurðir ehf. hefur um árabil tekið þátt í stærstu sjávarútvegssýningu heims (e. Seafood Expo Global) með góðum árangri. Sjávarútvegssýningin, sem hefur verið haldin í Brussel frá árinu 1993, mun færast til Barcelona árið 2021 en sýningin er góður vettvangur til að hitta viðskiptavini, stofna til nýrra viðskiptasambanda og viðhalda eldri viðskiptasamböndum.
Skemmst er frá því að segja að árið 2010 hlutu Marz Sjávarafurðir ehf. og Agustson a/s í Danmörku viðurkenningu á sjávarútvegssýningunni fyrir samstarfsverkefni sitt um þróun nýrrar vöru þegar fyrirtækin hlutu fyrstu verðlaun í flokknum bestu nýju hollustuvörurnar á markaði fyrir heitreykta tilapiu í samkeppninni The Seafood Prix d‘Elite sem haldin er árlega. Þróun heitreyktu tilapiunnar var samstarfsverkefni fyrirtækjanna tveggja sem fór af stað í kjölfar hugmyndar sem kviknaði í Brussel vorið 2009 og er því gott dæmi um góðan árangur þegar horft er til vöruþróunar og nýjunga. Marz Sjávarafurðir ehf. hefur s.l. ár lagt aukna áherslu á mikilvægi rekjanleika og gæðamál í takt við kröfur markaða og hefur í sínum röðum menntaðan gæðastjóra sem er mjög fær í sínu fagi. Gæðastjóri Marz fer fyrir þessum málaflokki hjá fyrirtækinu en það hefur sýnt sig með þróun síðustu ára að gæðamál skipta höfuðmáli hjá stærri viðskiptavinum fyrirtækisins og sér í lagi þar sem fyrirtækið er á smásölumarkaði.
Marz Sjávarafurðir ehf. hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á að vera í persónulegu og góðu samstarfi við breiðan hóp af öflugum íslenskum framleiðendum um allt land og hefur aðaláherslan frá upphafi verið á að selja íslenskan fisk. Fyrirtækið selur jafnframt vörur með erlendan uppruna og á í viðskiptum við fyrirtæki í öllum heimsálfum þar sem helstu markaðir eru Evrópa, Asía og Suður-Ameríka.

Markmið
Fyrirtækið og starfsmenn þess munu hér eftir sem hingað til leggja áherslu á heiðarleika í viðskiptum, sanngirni og góða þjónustu en jafnframt að stýra vexti félagsins til þess að unnt sé að viðhalda sama þjónustustigi ákomandi tíð.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd