Matarkjallarinn er einn af þessum úrvals veitingastöðum í miðborg Reykjavíkur. Hann er staðsettur í rúmlega 165 ára gömlu húsi í Aðalstræti 2 og er hluti af Geysishúsinu svokallaða með steinhlöðnum veggjum. Svæðið er nefnt Grófin. Húsið var allt endurnýjað af Minjavernd í upprunalegri gerð í byggingarstíl aldamótanna 1900. Allt þar innanstokks og innréttingar minna á gamla tíma og við innganginn blasir við Bösendorfer konsertflygill úr rósaviði sem var smíðaður í Vínarborg árið 1889. Við hann sitja annað slagið valinkunnir píanóleikarar sem kitla nóturnar fyrir gesti svo maturinn renni ljúflega niður.
Matarkjallarinn opnaði í maí 2016. Eigendur voru Lárus Gunnar Jónasson, Gústaf Axel Gunnlaugsson, Guðmundur Hansson, Valtýr Bergmann og Ari Freyr Valdimarsson.
Matarkjallarinn bauð upp á ýmislegt sem þótt nýstárlegt á sínum tíma. Staðurinn féll gestum vel í geð og margrómaður er maturinn sem þar er fram borinn. Svokölluð Brasserie matargerð er þema staðarins og matreiðslumennirnir eru afar metnaðarfullir þegar kemur að matseðlinum. Einkum er lögð áhersla á íslenskt hráefni til matargerðarinnar.
Sérstaða
Sérstaða Matarkjallarans hefur verið öðrum þræði mikið úrval alls kyns kokkteila sem fagmannlegir barþjónar reiða fram. Svo gestir fá ekki aðeins magafylli af mat og víni því andblær staðarins og lifandi tónlistin skapar ógleymanlega upplifun þeirra sem setjast þar inn til að njóta kvöldstundar í gömlu Grófinni í Reykjavík. Þjónustan er fyrsta flokks og gerður er góður rómur að Matarkjallaranum. Einkum er vinsæll Leyndó matseðillinn en þá renna gestir blint í sjóinn og bragðlaukunum komið á óvart. Matgæðingar hafa í gegnum tíðina gefið Matarkjallaranum háar einkunnir og er oft ofarlega á lista yfir á vefsíðunni Tripadvisor sem er mikilvægt í slíkum rekstri.
Framkvæmdastjóri
Fyrir rekstrinum fer Haraldur Guðmundsson sem ekki er alls ókunnugur veitingageiranum enda rak faðir hans veitingahúsið Lækjarbrekku um árabil.
Einkunnarorð Matarkjallarans eru: Matur fyrir líkamann og tónlist fyrir sálina.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd