Matís ohf. er framsækið og öflugt þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttum rannsókna- og nýsköpunarverkefnum í þágu atvinnulífsins, einkum fyrir matvæla- og líftækniiðnaðinn í landinu. Með samstarfi við stofnanir og fyrirtæki innanlands og utan eru niðurstöður rannsókna og þróunar á matvælum og öðrum auðlindum lífríkisins nýttar til að auka þekkingu og skapa verðmæti í samfélaginu. Þannig skipar Matís stóran sess í verðmætaaukningu innan lífhagkerfisins, eflir matvælaframleiðslu og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og afurða – og stuðlar um leið að sjálfbærni og umhverfisvernd.
Matís er leiðandi í efna- og örverurannsóknum matvæla á Íslandi. Til að tryggja matvælaöryggi neytenda og verðmæti útflutningsafurða vinnur Matís náið með opinberum eftirlitsaðilum við ráðgjöf, mælingar, vöktun og áhættumat. Með rannsóknum og vöruþróun á matvælum og innihaldsefnum í matvælum stuðlar Matís að bættri lýðheilsu landsmanna og áhersla er lögð á þróun fjölbreyttra næringarríkra matvæla sem hafa heilsubætandi áhrif.
Meginaðsetur fyrirtækisins er að Vínlandsleið 12 í Reykjavík og starfsstöðvar eru fjórar, á Akureyri og Ísafirði, í Neskaupstað og Vestmannaeyjum. Starfsemin er margvísleg með sérstaka áherslu á samvinnu fyrirtækja og einstaklinga í nærumhverfi. Starfsmannafjöldi Matís telur í dag um 90 manns. Innan þess hóps eru margir af helstu sérfræðingum landsins í matvæla- og líftækni auk fjölda M.Sc. og Ph.D. nema sem stunda rannsóknatengt nám hjá fyrirtækinu í tengslum við atvinnulífið. Vinnuumhverfið er krefjandi og spennandi og býr að fyrsta flokks aðstöðu og tækjabúnaði.
Matís í áranna rás
Árið 2006 voru sett lög á Alþingi sem heimiluðu stofnun opinbers hlutafélags sem sameinaði undir einn hatt þrjár ríkisstofnanir sem sérhæfðu sig í rannsóknum og þróun í matvælaiðnaði. Þetta voru Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknir Keldnaholti og Rannsóknastofa Umhverfisstofnunar. Við stofnun Matís rann líftæknifyrirtækið Prokaria einnig inn í fyrirtækið. Sömu lög kváðu á um nýja stofnun Matvælarannsókna hf. en starfræksla þess sem opinbers hlutafélags hófst þann 1. janúar 2007 undir nafninu Matís. Starfsemi þess í dag heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
Fyrrum forstjóri Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins, Dr. Sjöfn Sigurgísladóttir, tók við starfi forstjóra hins nýstofnaða fyrirtækis, Matís. Hún stýrði fyrirtækinu í þrjú ár þar til Dr. Sveinn Margeirsson var ráðinn í hennar stað. Oddur Már Gunnarsson tók við af Sveini árið 2019 og er hann forstjóri fyrirtækisins í dag. Dr. Anna Kristín Daníelsdóttir er aðstoðarforstjóri og rannsóknastóri. Stjórn Matís skipa í dag þau Hákon Stefánsson, stjórnarformaður, Arnar Árnason, Drífa Kristín Sigurðardóttir, Helga Sigurrós Valgeirsdóttir, Sigmundur Einar Ófeigsson, Sigrún Traustadóttir og Sindri Sigurðsson.
Sameining fyrri eininga, undir merkjum Matís, hefur haft jákvæð samlegðaráhrif í för með sér. Stefnumótun er markvissari og skilar sér í árangursríku starfi. Fyrirtækið sinnir fjölþættum verkefnum og á allra síðustu árum hefur sérstök áhersla verið lögð á að efla samstarf við fyrirtæki og stofnanir, sem og að auka umsvif Matís um allt land í samræmi við uppbyggingaáætlun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um eflingu starfsemi stofnana á landsbyggðinni. Nýsköpun hefur verið efld með því að auka samstarf við iðnfyrirtæki og samvinnu milli landsvæða, tengjast menntastofnunum og byggja upp rannsóknaaðstöðu í nábýli við atvinnulífið. Að auki er skipulega unnið að því að byggja upp samstarf við erlendar rannsóknastofnanir og fyrirtæki sem róa á sömu mið. Áform eru um að efla til muna starfsemina víða um landsbyggðina og fjölga samstarfsverkefnum með fyrirtækjum til sjávar og sveita. Þannig skilar Matís íslensku samfélagi verðmætum afurðum og þjónustu.
Starfsemin
Í samræmi við lög um hlutverk Matís er rannsóknum innan fyrirtækisins skipt upp eftir þremur áherslum; verðmætasköpun, lýðheilsu og matvælaöryggi. Samhliða rannsóknum og þjónustu stendur fyrirtækið fyrir margvíslegri útgáfu og miðlun upplýsinga á formi almenns kynningarefnis, skýrslna, greina í tímaritum og ýmsum fagbókum. Matís sinnir einnig ráðgjöf við stjórnvöld, þróunarsamvinnu og menntun og þjálfun sem fellur undir áherslur fyrirtækisins.
Verðmætasköpun
Matís vinnur markvisst að því að auka verðmætasköpun, efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs og nýsköpunarhæfni Íslands. Markmiðið er sjálfbær og arðsöm nýting auðlinda til sjávar og sveita, í nánu samstarfi við fyrirtækin í landinu. Matís hefur unnið með atvinnulífinu að rannsóknum og þróun til að ná sem mestum verðmætum úr lífauðlindunum, til að mæta kröfum neytenda og auka sjálfbærni. Helstu áherslur Matís hafa verði á þróun nýrra afurða og vinnsluferla, sem og úrbætur í virðiskeðju matvæla til að tryggja gæði, auka verðmæti eða draga úr kostnaði við framleiðsluna. Verðmætasköpun úr hliðarafurðum hefur verið eitt af forgangsverkefnum Matís og fyrirrennara þess í samstarfi við atvinnulífið.
Náið samstarf hefur verið við landbúnaðar- og sjávarútvegsfyrirtæki í gegnum tíðina, þar sem unnið hefur verið að því að auka verðmæti samfélaginu til hagsbóta. Einnig hefur Matís átt í góðu samstarfi við þá aðila sem þjónusta matvælaiðnaðinn, s.s. tækjaframleiðendur, hugbúnaðarfyrirtæki og menntastofnanir.
Undanfarin ár hefur Matís einnig í auknum mæli beint sjónum að sjávarlíftækni sem felur í sér rannsóknir og þróun á vinnslu lífvirkra efna úr íslensku sjávarfangi, svo sem á fæðubótarefni, lyfja, snyrtivara og lífplasts. Einnig hafa rannsóknir á nýjum, sjálfbærari og umhverfisvænni próteingjöfum hlotið aukið vægi í umræðunni í heiminum og er Matís á meðal fremstu rannsóknafyrirtækja í heimi við þróun nýrra próteina í matvæli og fóður. Sérstaklega hefur fyrirtækið verið framsækið í þróun nýrra próteingjafa fyrir fiskeldi og rekur Matís tilraunaeldisstöð þar sem framleitt er fóður og það prófað á ýmsum fiskeldistegundum.
Lýðheilsa
Matís stuðlar að því að bæta lýðheilsu á Íslandi með rannsóknum og vöruþróun. Mikilvægt er að þekkja eiginleika íslenskra afurða og eru haldgóð gögn forsenda umræðna um hvernig við bætum líf og heilsu. Matís hefur á grundvelli rannsóknaniðurstaðna sinna byggt upp gagnvirka gagnagrunninn ÍSGEM, um efnainnihald matvæla sem eru á íslenskum markaði. Gagnagrunnurinn stuðlar að því að neytendur geti tekið upplýstar ákvarðanir um sína neyslu og heilsu. Auk þess nýtist ÍSGEM framleiðendum, seljendum, kaupendum, rannsóknaaðilum, stjórnvöldum, skólum og öðrum hagsmunaaðilum.
Matís hefur komið að fjölmörgum rannsóknaverkefnum á sviði lýðheilsu svo sem með þróun á nýjum matvælum sem bæta heilsu og velferð almennings og viðkvæmra hópa á borð við aldraða og barnshafandi kvenna og stuðlað þannig að lækkun útgjalda til heilbrigðismála á Íslandi. Einnig hefur Matís stutt við matvælaiðnaðinn með því að auka þekkingu og áhuga ungu kynslóðarinnar á málefnum tengdum mat. Þannig er leitað nýrra og vænlegra leiða til að efla þekkingu og vitund um mat og matvælaframleiðslu, sérstaklega á staðbundinni íslenskri frumframleiðslu. Þannig tók Matís nýverið þátt í Háskóla unga fólksins, í samstarfi við Háskóla Íslands, um mat í geimnum, þar sem nemendur fengu fræðslu um meðferð og eiginleika matvæla á nýstárlegan hátt. Einnig hefur Matís í samstarfi við Matarauð Íslands, unnið að því að vekja athygli og áhuga íslenskra barna á betri nýtingu matarafurða og þar með minni matarsóun, nýtingu staðbundinna íslenskra afurða í matreiðslu og nýsköpun í matreiðslu úr hefðbundnum íslenskum afurðum.
Matvælaöryggi
Matís styður íslaensk yfirvöld í að tryggja öryggi og heilnæmi matvæla. Styrkur fyrirtækisins á sviði matvælaöryggis liggur í breiðum grunni getu, þekkingar og innviða ásamt tengslum við iðnaðinn og landsbyggðina. Matvælarannsóknir Matís hafa verið yfirgripsmiklar þar sem nýjustu og bestu tækni sem völ er á hverju sinni hefur verið beitt í mismunandi og fjölbreyttum verkefnum. Aukinn skilningur á eðli, uppruna og smitleiðum sjúkdómsvaldandi örvera er til dæmis mikilvægur til að tryggja öryggi matvæla og koma í veg fyrir faraldra og efla öryggi neytenda. Miðlun þekkingar til almennings og vísindasamfélagsins með útgáfu kynningarefnis og skrifum í tímarit er mikilvægur liður í þeirri vinnu sem Matís sinnir ötullega. Lögð er áhersla á að hafa tiltæk vönduð og vel skilgreind vísindaleg gögn um óæskileg efni og örverur í íslenskum matvælum til að sýna fram á öryggi og heilnæmi þeirra ef hætta steðjar að þeirri jákvæðu ímynd sem íslensk matvæli hafa áunnið sér í gegnum tíðina. Haldgóð gögn eru nauðsynleg á hverjum tíma og því þarf stöðuga vöktun á ástandi íslenskra matvæla og samanburð við sambærileg erlend matvæli sem seld eru hérlendis. Slík gögn geta einnig liðkað til fyrir markaðssetningu og sölu íslenskra afurða á krefjandi erlendum mörkuðum þar sem kröfur um gæði og öryggi endurspeglast í afurðaverðinu. Rannsóknir og sívirk vöktun miða að því að auka öryggi neytenda og vernda ímynd íslenskra afurða.
Nánari upplýsingar um Matís má nálgast á vefsíðunni www.matis.is.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd