Matvís

2022

MATVÍS er félag iðnaðarmanna í matvæla- og veitingagreinum. Í félaginu eru bakarar og kökugerðarmenn, framreiðslu-, kjötiðnaðar- og matreiðslumenn auk nema og ýmissa annarra sem starfa við framleiðslu, matreiðslu og sölu á matvælum. Tilgangur félagsins er að sameina í eitt félag alla launþega í matvæla- og veitingagreinum með það fyrir augum að vinna að bættum kjörum þeirra. Það er einnig hlutverk félagsins að vera í forsvari um samræmdar aðgerðir við samninga um kaup og kjör og koma fram fyrir hönd félagsmanna í þessum greinum þegar um heildarsamninga er að ræða. Félagið á einnig samskipti við önnur heildarsamtök, innlend sem erlend, stjórnvöld og norræn heildarsamtök greinanna, svo eitthvað sé upp talið.

Saga félagsins
Matvæla- og veitingasamband Íslands hafði lengi verið í undirbúningi þegar það var loks stofnað formlega 12. mars 1996. Þeir sem að stofnun sambandsins stóðu voru Bakarasveinafélag Íslands, Félag framreiðslumanna, Félag matreiðslumanna og Félag kjötiðnaðarmanna. Seinna komu inni í sambandið Félag nema í matvæla- og veitingagreinum og Félag matartækna. Þessi félög voru flest stofnuð á fyrri hluta 20. aldar. Bakarasveinafélag Íslands var stofnað fyrst þessara félaga, árið 1908. Saga félagsins teygir því anga sína meira en 100 ár aftur í tímann.

Hagræðing og samvinna
Markmiðið með stofnun sambandsins fyrir síðustu aldamót var að ná fram aukinni hagræðingu hjá félögunum. Í því fólst meðal annars að stofna einn sjúkrasjóð, einn orlofshúsasjóð og koma á öflugum vinnudeilusjóði. Innheimta og lögfræðiþjónusta fyrir félögin varð sameiginleg. Áður höfðu félögin starfað saman í fræðslumálum, með góðum árangri. Fyrsti formaður félagsins var Níels S. Olgeirsson, sem starfaði sem slíkur þar til núverandi formaður, Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, var kjörinn í mars 2018. Um tíu árum eftir stofnun sambandsins, síðla árs 2006, var samþykkt að ganga alla leið í sameiningu félaganna sem að sambandinu stóðu. Þá varð MATVÍS að því félagi sem það er í dag.

Iðnfélög undir einu þaki
MATVÍS hefur aðsetur í Húsi Fagfélaganna við Stórhöfða 31 í Reykjavík. Þar eru sameinuð undir einu þaki fimm félög iðnaðarmanna. Félögin eru, auk MATVÍS, Rafiðnaðarsamband Íslands, BYGGIÐN – Félag byggingamanna, SAMIÐN – Samband iðnfélaga og FIT, félag iðn- og tæknigreina. Hús Fagfélaganna var formlega opnað 25. nóvember 2019.
Félögin starfa saman á ýmsum sviðum en samstarfið miðar allt að því að bæta enn frekar þjónustu við félagsmenn. Félögin samnýta móttöku, fundarsali, mötuneyti og starfsfólk sem sinnir almenni skrifstofuvinnu. Starfsfólk nýtur þess einnig að hafa undir einu þaki mikla þekkingu og reynslu þegar kemur að ýmsum viðfangsefnum í rekstrinum, svo sem vegna kjaramála og sjúkrasjóðs. Í þessu felst mikill styrkur fyrir félögin en þau hyggja á samstarf á fleiri sviðum. Óskar Hafnfjörð Gunnarsson hefur verið formaður MATVÍS í rúm tvö ár, þegar hann leysti fyrsta formann félagsins af hólmi. Að honum meðtöldum hafa fjórir starfsmenn verið í fullri vinnu á skrifstofu félagsins, að viðbættu því starfsfólki sem félögin nýta sameiginlega.

Öflugt fræðslustarf
MATVÍS vinnur að aukinni starfsmenntun á því sviði sem félagið tekur til; bæði að því er snertir iðnnám, framhaldsnám og aðra starfsþjálfun og fræðslustarfsemi hverskonar. Félagið er í hópi eigenda IÐUNNAR fræðsluseturs, sem varð til við samruna fjögurra fræðslumiðstöðva í iðnaði og ferðaþjónustu vorið 2006. Hlutverk IÐUNNAR er fyrst og fremst að bæta hæfni fyrirtækja og starfsmanna í iðnaði. Hjá matvæla- og veitingasviði IÐUNNAR geta félagsmenn MATVÍS sótt ýmis námskeið og aukið þannig hæfni sína og færni.

Lífeyrissjóður iðnaðarmanna
MATVÍS starfrækir lífeyrissjóð fyrir félagsmenn og hefur gert svo að segja frá stofnun. Skömmu eftir að MATVÍS varð til, árið 1996, stofnuðu matreiðslumenn, ásamt Rafiðnaðarsambandi Íslands, lífeyrissjóðinn Lífiðn. Lífiðn og Samvinnulífeyrissjóðurinn sameinuðust undir heitinu Stafir lífeyrissjóður árið 2006, sem áratug síðar sameinaðist Sameinaða lífeyrissjóðnum undir heitinu Birta. Birta er helsti lífeyrissjóður iðnaðarmanna á Íslandi.

Verkefni frá degi til dags
Starfsfólk MATVÍS liðsinnir félagsmönnum og aðstoðar eftir megni allt árið um kring. Félagið stendur þétt við hlið félagsmanna þegar þeir verða fyrir launaþjófnaði eða brotið er með öðrum hætti á samningsbundnum réttindum þeirra. Vinnustaðaeftirlit er mikilvægur þáttur í starfsemi MATVÍS. Að eftirlitinu stendur félagið með öðrum félögum í Húsi Fagfélaganna. Í vettvangsferðum er meðal annars fylgst með aðbúnaði starfsmanna við vinnu sína.
MATVÍS heldur eins og önnur stéttarfélög úti öflugum sjúkrasjóði. Þangað geta félagsmenn leitað eftir styrkjum, þegar greiðslum atvinnurekenda lýkur, ef veikindi eða slys ber að garði.
MATVÍS rekur einnig svokallaðan orlofsheimilasjóð. Sjóðurinn hefur það hlutverk að koma upp og reka orlofshús sem félagsmenn geta nýtt sér. Í dag geta félagsmenn leigt orlofshús og -íbúðir í Svignaskarði í Borgarfirði, í Grímsnesi, á Akureyri og í Reykjavík. Að auki rekur félagið íbúð á Spáni og í Flórída í Bandaríkjunum, sem jafnframt eru leigðar út til félagsmanna. Á vefsíðu félagsins, matvis.is geta félagsmenn nálgast hagnýtar upplýsingar um réttindi sín og skyldur, kjarasamninga, orlofsmál og sjúkrasjóð, svo eitthvað sé nefnt. Á tímum farsóttar eru félagsmenn hvattir til eiga samskipti við félagið með rafrænum leiðum. Þetta hefur gengið vel. Fyrir félaginu vakir því að efla rafræna upplýsingagjöf enn frekar.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd