Meniga var stofnað árið 2009 af frumkvöðlunum Georgi Lúðvíkssyni, Ásgeiri Erni Ásgeirs-syni og Viggó Ásgeirssyni. Hugsjón stofnendanna var frá upphafi að byggja upp alþjóðlegt fyrirtæki sem hefði það að markmiði að hjálpa fólki að stýra heimilisfjármálunum sínum og gera þau einfaldari og skemmtilegri og nýta til þess nýjustu tækni í hugbúnaðargerð. Stofnendurnir þrír starfa allir enn hjá fyrirtækinu, Georg er forstjóri, Ásgeir Örn tæknistjóri og Viggó stýrir starfsemi fyrirtækisins á Íslandi. Fyrsti starfsmaður fyrirtækis og ofurforritarinn, Tinna Karen Gunnarsdóttir starfar líka enn hjá Meniga eins og margir af fyrstu starfsmönnunum, t.d. Áslaug Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri innleiðingaþjónustu, sem ber ábyrgð á að afhenda hugbúnað fyrirtækisins til alþjóðlegra fjármálastofnana. Fyrsti viðskiptavinur Meniga var Íslandsbanki og var heimilisfjármálalausnin meniga.is opnuð í samstarfi við bankann á stofnári fyrirtækisins 2009 og í kjölfarið í samstarfi við Arion banka og Landsbankann í ársbyrjun 2010. Meniga hlaut strax frá byrjun mjög góðar viðtökur á Íslandi og hefur allar götur síðan notið mikillar velvildar.
Vorið 2010 fjárfesti íslenski fjárfestingasjóðurinn Frumtak í Meniga, sem gerði fyrirtækinu kleift að opna söluskrifstofu í Stokkhólmi. Það leiddi til þess að Meniga náði að selja hugbúnað sinn til tveggja meðalstórra skandinavískra banka, Skandiabanken í Noregi og Svíþjóð og Säästöpankkilitto í Finnlandi árið 2011. Í framhaldi af því óx Meniga hratt í Evrópu. Í ársbyrjun 2014 flutti Meniga sölu- og markaðsstarfsemi sína til London, miðstöðvar fjármálatækni í Evrópu, og í janúar 2016 voru höfuðstöðvar fyrirtækisins fluttar til Bretlands. Í ársbyrjun 2019 keypti Meniga svo sænska fjártæknifyrirtækið Wrapp og varð þar með leiðandi í sölu og markaðssetningu endurgreiðslutilboða á Norðurlöndum.
Í dag er Meniga leiðandi í þróun og sölu heimilisfjármálahugbúnaðar og nýrrar kynslóðar hugbúnaðar fyrir net- og farsímabanka fjármálastofnana um allan heim. Hugbúnaður Meniga hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar hérlendis sem erlendis.
Sagan
Meniga er alþjóðlegt fjártæknifyrirtæki með 160 starfsmenn og starfsstöðvar í 7 löndum, Turninum í Kópavogi, Varsjá í Póllandi, Stokkhólmi í Svíþjóð, London í Englandi, Singapúr, Barcelóna á Spáni og New York í Bandaríkjunum. Hugbúnaður Meniga hefur verið innleiddur hjá yfir 160 fjármálastofnunum og er aðgengilegur 100 milljónum manna í meira en 30 löndum. Meðal viðskiptavina eru margir stærstu bankar heims, þeirra á meðal Unicredit, Swedbank, BPCE, Santander, Commerzbank, ING Direct og Intesa Sanpaolo.
Tekjur og vöruframboð Meniga hafa vaxið jafnt og þétt frá stofnun og viðskiptavinum fjölgað ár frá ári. Í dag er Meniga leiðandi fyrirtæki í heiminum í þróun og sölu heimilisfjármálahugbúnaðar og eru viðskiptavinir fyrirtækisins margir af stærstu og framsæknustu bönkum heims. Yfir 90% af tekjum Meniga koma frá erlendum fjármálastofnunum, oftast bönkum, sem semja við Meniga um afnotagjöld af hugbúnaði sem þeir síðan leyfa viðskiptavinum sínum að nota. Þessir bankar geta boðið netbankanotendum sínum að nýta alla helstu virkni Meniga.
Hjá Meniga starfar öflugur og samhentur hópur sérfræðinga í hugbúnaðargerð, vöruþróun, gagnagreiningum og fjártækni. Starfsfólkið brennur fyrir þá hugsjón að hjálpa fólki að öðlast fjárhagslegt öryggi og þróa gagnadrifnar hugbúnaðarlausnir með framúrskarandi notendaviðmóti. Landsmönnum stendur til boða að nýta sér lausnir Meniga gjaldfrjálst á vefnum meniga.is og í Meniga appinu fyrir iPhone og Android síma. Sömuleiðis býðst fyrirtækjum á Íslandi að kaupa markaðsgreiningar sem byggja á neyslu tugþúsunda Íslendinga og bjóða þeim sérsniðin tilboð gegnum fríðindakerfi Meniga og Íslandsbanka. Gagnavörur Meniga byggja á ópersónugreinanlegum upplýsingum úr gagnagrunnum fyrirtækisins.
Markmið Meniga er að hjálpa fólki að öðlast fjárhagslegt öryggi.
Lausnirnar
Meniga þróar hugbúnað fyrir net- og farsímabanka fjármálastofnana og hjálpar þeim að veita viðskiptavinum sínum framúrskarandi netbankaþjónustu. Vörur Meniga eru fyrst og fremst ýmis konar heimilisfjármálahugbúnaður. Meniga kerfið flokkar allar færslur af reikningum og greiðslukortum sjálfkrafa, setur upp sjálfvirka fjárhagsáætlun og bókhald og gerir fólki kleift að setja sér fjárhagsleg markmið með einföldum og skilvirkum hætti.
Jafnframt hefur Meniga þróað fríðindakerfi sem gerir bönkum mögulegt að bjóða viðskiptavinum sínum sérsniðna afslætti af verslun og þjónustu. Nýjasta afurð Meniga reiknar svo út áætlað kolefnisfótspor notenda út frá neyslusögu þeirra. Hægt er að kynna sér vörur og þjónustu Meniga á alþjóðlegum vef fyrirtækisins www.meniga.com
Fjárfestar og mannauður
Meniga hefur notið dyggs stuðnings fjárfesta en stærstu hluthafar fyrirtækisins auk stofnenda eru íslensku fjárfestingasjóðirnir Frumtak og Kjölfesta, hollenski fjárfestingasjóðurinn Velocity og sænski fjárfestingasjóðurinn Industrifonden. Mesta gæfa Meniga og stærsti lykillinn að velgengni fyrirtækisins er þó mannauðurinn en Meniga hefur í gegnum tíðina laðað til sín framúrskarandi og vel menntað starfsfólk. www.meniga.is
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd