Menningarfélags Akureyrar
Menningarfélag Akureyrar er sjálfseignarstofnun sem samanstendur af þremur menningarstofnunum á Akureyri; Leikfélagi Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Menningarfélaginu Hofi. Sameiningin tók í gildi árið 2014 og er markmiðið að skapa öflugan vettvang fyrir þrjár af stærstu menningarstofnunum á Norðurlandi til að starfa saman, sækja fram í menningarlífi á Akureyri og efla enn frekar þá starfsemi sem þessir aðilar hafa staðið að. Í starfseminni er áhersla lögð á fagmennsku í listum, jafnvægi í rekstri og góðan starfsanda. Vefsíða Menningarfélagsins www.mak.is
Markmið Menningarfélags Akureyrar
Efla atvinnustarfsemi í leiklist og sinfónískri tónlist á Akureyri
Bjóða fyrirmyndarvettvang fyrir tónlistar- og sviðslistaviðburði, fundi og ráðstefnur
Stuðla að öruggum rekstri og góðri meðferð og nýtingu opinberra fjármuna
Stuðla að auknu framboði og fjölbreytileika í menningar- og listalífi Norðurlands
Stjórnendur
Framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar er Þuríður Helga Kristjánsdóttir. Leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar er Marta Nordal. Viðburðarstjóri Menningarhússins Hofs er Kristín Sóley Björnsdóttir. Tónlistarstjóri MAk er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson.
Leikfélag Akureyrar
Leikfélag Akureyrar er eina atvinnuleikhús landsins utan höfuðborgarsvæðisins og hefur verið atvinnuleikhús frá árinu 1973. Það er rekið með stuðningi Akureyrarbæjar á grunni samnings við menntamálaráðuneytið. Saga Leikfélagsins spannar yfir heila öld en félagið var stofnað árið 1908. Leikfélag Akureyrar hefur sitt aðal aðsetur í fallegu húsi sem stendur nærri hjarta Akureyrar, Samkomuhúsinu, sem tekur 210 manns í sæti. Samkomuhúsið er hefðbundið leikhús með sviði, upphækkuðum sal og svölum.
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands er nútímaleg og verkefnamiðuð hljómsveit. Sveitin var stofnuð árið 1993 og hefur vaxið mikið undanfarin ár, sem hluti af rekstri Menningarfélags Akureyrar. Fyrir utan að hafa í hávegum flutning á klassískri tónlist hefur hljómsveitin á síðustu árum sérhæft sig í upptökum á kvikmyndatónlist og stuðlað að frumflutningi á nýrri íslenskri sinfónískri tónlist. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands brýtur múra milli tónlistarstefna og leitast við að brúa bilið milli áheyrenda og flytjenda með samstarfi við listamenn úr öðrum geirum tónlistarlífsins. Frábær árangur hljómsveitarinnar ber vitnisburð um að starfsemi hennar hefur unnið sér sess á Akureyri hjá bæði áheyrendum og listamönnum sem öflug uppspretta afþreyingar, frumsköpunar og atvinnutækifæra.
SinfoniaNord
Sprotaverkefni Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands heita SinfoniaNord. Tilgangur verkefnisins er að skapa hljóðfæraleikurum SN aukin atvinnutækifæri. Undir verkefnið falla upptökur á alþjóðlegri kvikmyndatónlist í Hofi og þjónustuverkefni þar sem hljómsveitin veitir sinfóníska þjónustu til þriðja aðila. Aðstæður og tækjabúnaður Hofs til að taka upp sinfóníska tónlist er á heimsmælikvarða og ekki skemmir hljómburður Hamraborgar fyrir.
Verkefnið hefur verið starfrækt síðan 2015 og hefur nú þegar verið hljóðrituð kvikmyndatónlist fyrir Netflix, BBC, Sony og History Channel svo eitthvað sé nefnt. Undir þjónustuverkefni falla verkefni eins og Lord of the Rings, þar sem kvikmyndirnar þrjár eru sýndar við lifandi undirleik 230 tónlistarmanna og söngleikir á borð við Phantom of the Opera og War of The Worlds, auk undirleiks á tónleikum listamanna úr öðrum geirum tónlistarinnar. Söngleikurinn EVITA í Eldborg 15. nóvember 2019 er dæmi um þjónustuverkefni þar hljóðfæraleikarar með samning við SN eru ráðnir.
Sprotaverkefnið SinfoniaNord hlaut nýsköpunarverðlaun Akureyrar 2017 ásamt Atla Örvarssyni og var valið átaksverkefni sóknaráætlunar Eyþings 2018.
Menningarhúsið Hof
Menningarhúsið Hof er staðsett í miðbæ Akureyrar og er eitt af helstu kennileitum bæjarins. Í Hofi er framúrskarandi aðstaða fyrir allar gerðir viðburða. Fjölbreytt úrval rýma í húsinu gefur kost á að halda þar allt frá litlum stjórnarfundum og námskeiðum upp í fjölmennar ráðstefnur, stórtónleika og glæsilegar veislur. Starfsfólk Menningarhússins Hofs hefur mikla reynslu af skipulagningu fjölbreyttra viðburða og veitir faglega ráðgjöf auk þess að vera skipuleggjendum innan handar við undirbúning og framkvæmd. Glæsileg hönnun hússins að innan sem utan skapar notalegt andrúmsloft og og vekur mikla athygli gesta og gangandi. Menningarhúsið Hof er miðpunktur menningar á Norðurlandi og þjónustar íbúa á öllum norðurausturhluta landsins með fjölbreyttu úrvali viðburða. Árlega sækja þúsundir gesta alls staðar að af landinu, auk erlendra gesta, Hof til að sækja menningar- og listviðburði, sinfóníutónleika, ráðstefnur, fundi og svo mætti lengi áfram telja. Rekstur Menningarhússins Hofs er í höndum Menningarfélags Akureyrar sem sér að auki um framleiðslu á mörgum viðburðum sem fram fara bæði í Hofi og Samkomuhúsinu. Þess utan sér Menningarfélag Akureyrar um útleigu á fjölbreyttum rýmum Hofs og Samkomuhússins fyrir hvers kyns viðburði og stuðlar þannig að auknu framboði og fjölbreytileika í öflugu menningarlífi á Norðurlandi. Saga Menningarhússins Hofs á Akureyri nær aftur til ársins 1999, þegar ákvörðun um byggingu hússins var tekin, enda þörfin fyrir góða aðstöðu til tónleikahalds og aðra listviðburði óumdeild. Opnunarhátíð Hofs og vígsla hússins var á Akureyrarvöku dagana 27. til 29. ágúst 2010.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd