Menningarmiðstöð Þingeyinga

2022

Fjölbreytta safneign og einstakar söguminjar er að finna á margbreytilegum söfnum og sýningum sem tilheyra Menningarmiðstöð Þingeyinga. Allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi á ólíkum byggðasöfnunum sem segja áhugaverður sögur af mannlífi héraðsins, eða við að fræðast um náttúru nærumhverfisins í gegnum muni Náttúrugripasafnsins. Á Sjóminjasafninu er meðal annars að finna dæmi um hina einstöku Súðbyrðinga sem nú eru á heimsminjaskrá Unesco. Héraðsskjalasafn og ljósmyndasafn geyma einstakar heimildir og svipi sveitunga í áranna rás. Að lokum á stofnunin stóra og dýrmæta myndlistareign.
Menningarmiðstöð Þingeyinga er sjálfseignarstofnun sem rekin er af þeim sveitarfélögum sem tilheyra Héraðsnefnd Þingeyinga. Starfstöðvarnar eru fjórar talsins, en skrifstofur stofnunarinnar er að finna í Safnahúsinu á Húsavík.

SAFNAHÚSIÐ Á HÚSAVÍK 

Safnahúsið á Húsavík er rekið af Menningarmiðstöð Þingeyinga (MMÞ) og hýsir ólíkar safneignir og menningarminjar Þingeyinga. Þar er að finna tvær fastasýningar, annars vegar áhugaverðu byggðasýninguna “Mannlíf og náttúra – 100 ár í Þingeyjarsýslum”, sem unnin er úr safneign Byggðasafns Suður-Þingeyinga og með munum úr Náttúrugripasafni Þingeyinga. Sýningin segir frá samtali manns og náttúru í Þingeyjarsýslum á tímabilinu frá 1850 til 1950. Hin fastasýningin er unnin úr safnkosti Sjóminjasafns Þingeyinga og segir/sýnir frá sjósókn á Skjálfanda og sjóminjum Þingeyinga. Héraðsskjalasafn Þingeyinga er einnig í húsinu, auk safneigna Ljósmyndasafns Þingeyinga og Myndlistarsafns Þingeyinga. Í Safnahúsinu eru jafnframt tvö rými sem eru nýtt undir tímabundnar myndlistar- og sögusýningar en myndlistarsalnum á 3. hæð opna reglulega allt árið um kring sýningar á myndlist í hæsta gæðaflokki. Í húsinu er einnig að finna skrifstofur MMÞ og munageymslur. Reglulega eru þar haldnir ýmsir menningartengdir viðburðir á borð við tónleika, námskeið og fræðsluerindi. Safnahúsið er opið allan ársins hring. 

GRENJAÐARSTAÐUR – GAMLI BÆRINN

Grenjaðarstaður í Aðaldal er forn landnámsjörð og prestssetur sem staðsett er um 30 km. suður af Húsavík. Þar er að finna einn stærsta torfbæ landsins, sem sérstakur er fyrir þær sakir að vera einangraður með hrauni úr næsta nágrenni hans, undir þiljum unnum úr rekaviði. Gamli bærinn er í eigu Þjóðminjasafns Íslands en Menningarmiðstöð Þingeyinga (MMÞ) sér um rekstur byggðasýningarinnar sem þar er að finna og endurspeglar hún lifnaðarhætti gamla bændasamfélagsins. Sýningin samanstendur af um 2000 munum úr safneign Byggðasafns Suður-Þingeyinga sem varpa ljósi á líf fólks sem bjó í bænum.  

Á Grenjaðarstað er einnig að finna kirkju sem byggð var 1865 og er ennþá í notkun og í kirkjugarðinum geta gestir skoðað rúnastein frá miðöldum. Gamla hlaðan hefur verið endurgerð og hýsir í dag móttöku safnsins, snyrtingar, kaffisölu og handverkssölu úr héraði.  Safnið er opið yfir sumartímann.

SNARTARSTAÐIR
Snartarstaðir hýsa Byggðasafn Norður-Þingeyinga og eru staðsettir í aðeins 1 km. fjarlægð frá Kópaskeri. Safnið var opnað árið 1991 í gamla skólahúsi staðarins og eru þar rúmlega 2000 munir til geymslu, en undirbúning safnsins má rekja aftur til ársins 1950 þegar söfnun á munum og minningum hófst. Einkennist sýningin í húsinu aðallega af annars vegar einstöku safni fjölbreyttra hannyrða sem unnar voru flestar af konum í Norður-Þingeyjarsýslu á síðustu öld, en hins vegar er þar að finna 9000 binda bókasafn hjónanna Helga og Andreu frá Leirhöfn á Melrakkasléttu. Safnið er opið yfir sumartímann.

SAUÐANESHÚS

Sauðanes á Langanesi er fornfrægur kirkjustaður sem staðsettur er 7 km norðan við Þórshöfn. Prestsbústaðurinn á Sauðanesi, Sauðaneshús, er elsta steinhús í Þingeyjarsýslum, hlaðið úr grágrýti árið 1879, afar sjaldgæf bygging og er einstakt á landsvísu. Í kringum 1957 fór Sauðaneshús í eyði og stóð það kalt og yfirgefið í nærri 40 ár. Um 1990 var ákveðið að endurreisa húsið, sem þá var að hruni komið, og var reist nánast frá grunni, stein fyrir stein og fjöl fyrir fjöl, en endurbyggingin tók um 11 ár. Fallega endurbyggða húsið hýsir nú sýninguna “Að sækja björg í björg” sem unnin var á árunum 202-21. Þar er hægt að fræðast um lífið á Langanesi á þeim tíma sem búið var í Sauðaneshúsi og hvernig prestsbústaðurinn var í raun miðpunktur samfélagsins á svæðinu. Safnið er opið yfir sumartímann.

Stjórn

Árni Pétur Hilmarsson
Formaður
2022 -
Gerður Sigryggsdóttir
Þingeyarsveit
2022 -
Gréta Bergrún Jóhannesdóttir
Langanesbyggð
2022 -
Hafrún Olgeirsdóttir
Norðurþing
2022 -
Halldór Jón Gíslason
Norðurþing
2022 -
Katý Bjarnadóttir
Tjörneshreppur
2022 -
Knútur Emil Jónasson
Þingeyjarsveit
2022 -

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd