Stofnun mennta- og menningarmálaráðuneytis er oftast miðuð við 1. júní 1947 þegar formlega var staðfest að málefni á sviði forsætisráðherra og menntamálaráðherra skyldu heyra undir sama ráðuneytisstjóra. Sú skipan hélst til 1970 að ráðuneytin voru aðskilin. Heiti ráðuneytisins var breytt 1. október 2009 í mennta- og menningarmálaráðuneyti.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti starfar samkvæmt lögum nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands, með síðari breytingum. Samkvæmt lögunum kveður ráðherra á um skiptingu ráðuneytisins í skrifstofur og starfsdeildir eftir verkefnum. Aðsetur ráðuneytisins er við Sölvhólsgötu 4 í Reykjavík og eru starfsmenn um 70. Mennta- og menningarmálaráðherra er Lilja Alfreðsdóttir og ráðuneytisstjóri er Páll Magnússon.
Ráðuneytið starfar sem ein heild og skiptist í sex skrifstofur; skrifstofu ráðuneytisstjóra, skrifstofu menningarmála og fjölmiðla, skrifstofu fjármála og rekstrar, skrifstofu háskóla og vísinda, skrifstofu framhaldsskóla- og fræðslu og skrifstofu skóla-, íþrótta- og æskulýðs-mála. Helstu verkefni ráðuneytisins eru stefnumótun um margvísleg málefni á sviðum þess, gerð lagafrumvarpa og reglugerða, úrskurðir og samstarf við stofnanir auk afgreiðslu fjölbreyttra erinda frá almenningi og stofnunum.
Menningarmál
Helsta hlutverk stjórnvalda á sviði menningarmála er að skapa skilyrði fyrir fjölbreytni, sköpun og frumkvæði, stuðla að rannsóknum og miðlun á menningararfi þjóðarinnar auk þess að standa vörð um íslenska tungu. Þá er lögð áhersla á að efla menningu barna og ungmenna á landinu öllu og að þau séu virkir þátttakendur í menningarlífinu.
Meginhluti þess menningarstarfs sem unnið er í landinu er í höndum einstaklinga eða samtaka þeirra, án opinberrar íhlutunar um inntak og tilhögun starfseminnar. Hlutverk ríkisins á sviði lista og menningarmála er rekstur stofnana og stuðningur við margvíslega menningarstarfsemi, ýmist með lögbundnum framlögum eða styrkjum á grundvelli fjárveitinga á fjárlögum hverju sinni. Sjóðir til stuðnings lista- og menningarstarfsemi veita einkum verkefnastyrki nema launasjóðir listamanna og höfunda fræðirita, sem veita starfslaun. Hefð er fyrir miklu sjálfstæði menningarstofnana ríkisins og miklu samráði við fagfélög og aðra hagsmunaaðila um flest er viðkemur þeim lista- og menningarmálum, sem ríkið styður.
Höfundaréttarmál eru á verksviði ráðuneytisins og felast einkum í stöðugri endurskoðun laga vegna örra breytinga við miðlun höfundaréttarvarins efnis.
Fjölmiðlamál
Afskipti ráðuneytisins af fjölmiðlamálum lúta meðal annars að málefnum Ríkisútvarpsins ohf. og fjölmiðlanefnd. Hlutverk hennar er m.a. að veita lögaðilum og einstaklingum tímabundið leyfi til fjölmiðlarekstrar auk almenns eftirlits með að fjölmiðlar starfi í samræmi við lög. Þá fylgist ráðuneytið með þróun á fjölmiðlamarkaði, m.a. með þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.
Íþrótta- og æskulýðsmál
Ráðuneytið fer með yfirstjórn íþrótta- og æskulýðsmála að því leyti er ríkið lætur þau til sín taka. Í því skyni aflar það upplýsinga um iðkun íþrótta í landinu og aðstöðu til íþróttastarfs. Einnig stuðlar það að rannsóknum á sviði íþróttamála, tekur þátt í aðgerðum til að sporna gegn lyfjamisnotkun í íþróttum og alþjóðlegu samstarfi stjórnvalda á ýmsum sviðum íþrótta- og æskulýðsmála.
Menntamál
Ráðuneytið mótar menntastefnu og fjallar um málefni allra skólastiga. Það gefur út aðalnámskrár fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla, listdansskóla og tónlistarskóla. Einnig sér það um greiningu og miðlun upplýsinga, styður við nýjungar og þróunarstarf í skólum og sér um mat og eftirlit með skólastarfi. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og er frjálst val foreldra. Öllum börnum, að jafnaði á aldrinum 6–16 ára, er skylt að sækja grunnskóla. Allir sem hafa lokið grunnskóla, eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun, eiga rétt á að hefja nám á framhaldsskólastigi. Þar eru skilgreind námslok; framhaldsskólapróf, próf til starfsréttinda, stúdentspróf, viðbótarnám við framhaldsskóla og önnur lokapróf. Tónlistarskólar bjóða nemendum kennslu frá leikskólaaldri fram á fullorðinsár. Námið skiptist í grunnstig, miðstig og framhaldsstig. Framhaldsfræðsla er meðal annars í boði hjá símenntunarmiðstöðvum á landsbyggðinni og ýmsum fræðsluaðilum á höfuðborgarsvæðinu.
Hlutverk háskóla er að veita nemendum menntun til þess að sinna vísindalegum verkefnum, nýsköpun og listum á sjálfstæðan hátt og til þess að gegna störfum í þjóðfélaginu sem krefjast æðri menntunar. Ráðuneytið hefur eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna sem háskólar veita og veitir háskólum viðurkenningu eftir fræðasviðum.
Vísindamál og rannsóknir
Stefna stjórnvalda í vísinda- og tæknimálum er mörkuð af Vísinda- og tækniráði til þriggja ára í senn. Hlutverk ráðsins er að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækniþróun í landinu til að treysta stoðir íslenskrar menningar og auka samkeppnishæfni atvinnulífsins. Í ráðuneytinu er almenn stjórnsýsla á sviði vísinda, rannsókna og nýsköpunar og hefur það umsjón með starfi Vísinda- og tækniráðs og vísindanefndar ráðsins. Rannsóknir eru framkvæmdar á vegum háskóla, rannsóknastofnana, sjálfseignarstofnana og fyrirtækja, auk sjálfstætt starfandi einstaklinga.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti fer með mál er varða:
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd