Menntaskólinn í Reykjavík er framhaldsskóli í miðbæ Reykjavíkur. Hann á sér afar langa skólahefð og hefur í aldanna rás m.a. ýmist verið kallaður Lærði skólinn, Reykjavíkurskóli, Latínuskólinn eða, upp á latínu, Schola Reykjavicensis.
Saga skólans
Sögu skólans má rekja allt aftur til biskupstíðar Ísleifs Gissurarsonar 1056-1080, en hann var fyrsti biskup yfir Íslandi og hóf skólahald á bæ sínum í Skálholti. Í Suðurlandsskjálftunum árið 1784 hrundu nær öll hús Skálholtsstaðar og í framhaldinu var skólinn fluttur til iðnaðarþorpsins Reykjavíkur árið 1786. Þar fór skólahald í fyrstu fram við Hólavelli (nálægt þeim stað sem nú er norðurendi gamla kirkjugarðsins við Suðurgötu), en húsnæði Hólavallaskóla þótti alla tíð óboðlegt. Á Bessastöðum var hins vegar vandaður stiftamtmannsbústaður og þangað flutti skólinn árið 1805. Var hann starfræktur þar allt til ársins 1846, er hann flutti aftur til Reykjavíkur, þar sem hann hefur starfað allar götur síðan. Frá 1937 hefur skólinn heitið Menntaskólinn í Reykjavík.
Elsta hús Menntaskólans í Reykjavík er skólahúsið við Lækjargötu, í daglegu tali kallað „gamli skóli“. Skólahald hófst þar þann 1. október 1846, en hátíðarsalur byggingarinnar var þó tilbúinn til notkunar ári fyrr, svo þar mætti halda fyrsta þing hins endurreista Alþingis. Þar fór einnig fram Þjóðfundurinn 1851 og þar sat Jón Sigurðsson öll sín þing. Þegar Kristján IX. heimsótti Ísland 1874 til að fagna þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar og færa Íslendingum stjórnarskrá, hafði hann skólahúsið til afnota fyrir veislur og móttökur. Margir þekktir Íslendingar og fjöldi erlendra gesta hafa því haft þar viðkomu í gegnum tíðina. Húsakostur skólans hefur jafnframt aukist mjög og fer starfsemi hans nú fram í mörgum húsum á reit, sem afmarkast af Lækjargötu, Þingholtsstræti, Amtmannsstíg og Bókhlöðustíg.
Námið
Skólinn kappkostar að gera nemendur sína sem best undirbúna fyrir háskólanám og veitir haldgóða menntun sem nýtist þeim hvert sem leið þeirra liggur að loknu stúdentsprófi. Svo að vel megi til takast þurfa skólinn og nemendur hans jafnan að gera miklar kröfur og setja markið hátt. Menntaskólinn í Reykjavík er bóknámsskóli með bekkjakerfi og hefur hver bekkur sína heimastofu. Stúdentsprófið er í dag þriggja ára nám. Skólinn skiptist í tvær meginbrautir, náttúrufræðibraut og málabraut. Þær greinast áfram í samtals átta deildir, náttúrufræði-, eðlisfræði-, fornmála- og nýmáladeild, allar með skiptingu í I og II.
Félagslíf
Félagslíf Menntaskólans í Reykjavík er afar öflugt, haldið uppi af tveimur nemendafélögum, Skólafélaginu og Framtíðinni, málfundafélagi. Félögin eru bæði afar metnaðarfull og standa fyrir fjölmörgum viðburðum, með stuðningi fjölmargra undirfélaga og nefnda. Félagslíf nemenda er því sérstaklega blómlegt. Heilmikil útgáfustarfsemi er á vegum félaganna, þar á meðal Skólablaðið-Skinfaxi sem er elsta skólablað landsins, Menntaskólatíðindi og Loki Laufeyjarson fjalla um það sem hæst ber í skólalífinu yfir veturinn. De Rerum Natura er gefið út í lok vetrar af Vísindafélagi skólans.
Á hverju ári er haldin söngkeppni og sigurvegari hennar er svo fulltrúi MR í Söngkeppni framhaldsskólanna. Fleiri keppnir eru haldnar milli framhaldsskólanna og eru alltaf sérstaklega spennandi en auk Söngkeppninnar er Morfís, keppni framhaldsskólanna í ræðulist og Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna á RÚV, en hana hefur MR nú unnið 20 sinnum, oftast allra skóla.
Nemendur Menntaskólans í Reykjavík hafa náð framúrskarandi árangri í margvíslegum keppnum, má þar nefna Olympiuleika í stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði. Hafa nemendur skólans jafnan raðað sér í efstu sætin í framhaldsskólakeppnum. Einnig er skólinn öflugur í alþjóðlegu samstarfi eins og Erasmus og NordPlus.
Herranótt, leikfélag Skólafélagsins stendur á vorin fyrir uppsetningu leikrits. Það er hefð sem nær aftur til Skálholtsskóla. Framtíðin heldur úti öðru leikfélagi, Frúardegi, sem sýnir á haustmisseri.
© 2025 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd