Menntaskólinn á Akureyri er ein af elstu og helstu menntastofnunum landsins. Hann er ekki einungis gamalgróin stofnun heldur jafnframt nútímalegur skóli í stöðugri þróun. MA var til dæmis í fararbroddi framhaldsskóla að endurnýja námskrá skólans samkvæmt framhaldsskólalögum frá 2008 og starfaði samkvæmt henni frá 2010. Þá voru teknar upp allmiklar breytingar og nýjungar, meðal annars samþætting nokkurra námsgreina, flestir námsáfangar voru endurnýjaðir og teknar upp fjölbreyttar nýjar náms- og kennsluaðferðir. Þó er þess gætt að skólastarfið standi meira og minna á gömlum merg í anda kjörorða skólans: Virðing, víðsýni, árangur. Enn urðu breytingar á skólafyrirkomulaginu haustið 2016, en þá voru fyrst teknir inn nemendur samkvæmt ákvörðun yfirvalda um að skipuleggja nám til stúdentsprófs sem þriggja ára nám. Samkvæmt nýjustu námsskrá býður skólinn upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs, eða 200 framhaldsskólaeiningar, með valmöguleikum nemenda til að taka stúdentspróf á lengri tíma, 3½ eða 4 árum. Meginmarkmið skólans er sem fyrr að búa nemendur vel undir háskólanám í lýðræðisþjóðfélagi og koma öllum nemendum til nokkurs þroska. Þetta hefur skólanum auðnast að gera lengi og stúdentar frá MA hafa, eins og kannanir til margra ára hafa sýnt, náð einstaklega góðum árangri í háskólanámi.
Sagan
Menntaskólinn á Akureyri á rætur að rekja til hins endurreista norðlenska skóla á Möðruvöllum í Hörgárdal, sem stofnaður var 1880. Með lögum frá Alþingi árið 1930 var kveðið á um að á Akureyri skyldi vera „skóli með fjórum óskiptum bekkjum, er nefnist Menntaskólinn á Akureyri“. Allar götur síðan hafa stúdentar brautskráðst frá Menntaskólanum á Akureyri. Norðlenskur skóli var endurreistur 1880, en þá var settur gagnfræðaskóli á Möðruvöllum í Hörgárdal. Eftir að skólahús á Möðruvöllum brann árið 1902 var skólinn fluttur til Akureyrar. Gamli skóli, hið mikla og fagra timburhús á Brekkubrúninni, var reistur sumarið 1904, íþróttahúsið ári síðar og hús Heimavistar á árunum 1946-1956. Haustið 1969 var tekið í notkun kennsluhús fyrir raungreinar með samkomusal í kjallara, Möðruvellir. Haustið 1996 var síðan tekið í notkun nýtt kennsluhúsnæði, Hólar, með 9 stórum kennslustofum, vel búnu bókasafni og samkomusal, sem gengur undir nafninu Kvosin og rúmar um 600 manns. Sumarið 2003 var svo tekið í notkun á skólalóðinni nýtt heimavistarhús. Þá var stofnað rekstrarfélag um heimavist fyrir nemendur úr báðum framhaldsskólunum á Akureyri, Menntaskólanum og Verkmenntaskólanum, sem hýsir um það bil 300 nemendur í eins og tveggja manna herbergjum.
Námið
Á Hólum, er Kvosin, þar sem allir nemendur og flestir kennarar eiga leið um og meginhluti félagsstarfsins fer fram, en þar er einnig bókasafn skólans og lesaðstaða fyrir 80 nemendur. Nemendur hafa auk þess lesaðstöðu í kennslustofum skólans utan kennslutíma, fram á kvöld virka daga og á laugardögum. Langflestir nemendur hafa með sér fartölvur og það gera kennarar líka. Í skólanum er mikil verkefnavinna, bæði einstaklings- og hópverkefni, og tölvutækni, hljóðtækni og myndtækni meira og minna notað við efnisöflun og skil. Nútímalegt námsumhverfið er mikið notað og skólinn hefur samning við Microsoft Office um full afnot af hugbúnaði þess.
Í skólanum er bekkjakennsla, en hugtakið bekkur tekur breytingum eins og tíminn. Nám og kennsla er með fjölbreytilegu móti, verkefnamiðað, hópvinna auk einstaklingsverkefna, stórra og smárra. Áhersla er á munnleg jafnt sem skrifleg skil á verkefnum, leitarnám og leiðsagnarnám og námsferðir, svo eitthvað sé nefnt.
Nöfn á brautum, deildum eða sviðum hafa breyst í tímans rás, en með námskrá frá 2016 eru í skólanum mála- og menningarbraut, félagsgreinabraut, náttúrufræðibraut (sem skiptist á öðru ári í þrjár brautir) og kjörnámsbraut í sviðslistum. Auk þess stunda nemendur nám á kjörnámsbraut (tónlist) í samvinnu við Tónlistarskólann.
Sívaxandi tölvueign nemenda og tölvunotkun hefur á undanförnum árum breytt námi þeirra mikið, en skólinn leitast við að fá nemendur til að temja sér góðar og gagnlegar aðferðir við að nota tölvur og síma á jákvæðan hátt í námi.
Kappkostað er að nemendum geti liðið vel í Menntaskólanum á Akureyri og hann hefur lengi verið í fararbroddi skóla um nemendavernd.
Skólaárið hefur verið fært til og nú er skóli settur seinni hluta í ágúst og reglulegu námsmati lýkur í desember. Vorönn hefst um miðjan janúar og lýkur viku af júní. Brautskráning verður sem fyrr 17. júní. Skóla er þá slitið við veglega athöfn í Íþróttahöllinni á Akureyri. Þá um kvöldið er haldin í höllinni hátíðarsamkoma nýstúdenta, vina þeirra og vandamanna, með kvöldverði, skemmtun og dansi. Félagslíf í Menntaskólanum á Akureyri hefur áratugum saman verið talið afar fjölskrúðugt, enda hafa skólayfirvöld gætt þess vel að sameina í skólalífinu hefðbundið nám og fjölbreytt, heilbrigt tómstundastarf. Innan skólans er eitt nemendafélag, Huginn, skólafélag Menntaskólans á Akureyri.
Mannauður
Skólinn býr að traustum og stöðugum hópi kennara skólans en þeir eru á bilinu fimmtíu til sextíu alls. Auk þeirra hefur skólinn á að skipa um það bil tveimur tugum afar góðra starfsmanna, sem eins og kennararnir hafa iðulega mjög langa viðdvöl.
Framtíðarsýn
Þessi gamli skóli, sem getur á góðum degi rakið sögu sína þúsund ár aftur í tímann, stefnir ótrauður inn í framtíðina með öllu því góða sem hún hefur í boði.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd