Þróun kennsluhátta: Annir, spannir og verkefnatímar
Menntaskólinn á Egilsstöðum er einn af fáum framhaldsskólum landsins sem byggir nám sitt upp á spönnum en ekki á önnum eins og áður var (1979–2011). Í grein á heimasíðu skólans er fjallað um þá kennsluhætti sem hafa verið við skólann frá upphafi. Þar segir: Skólinn hefur frá fyrstu tíð starfað eftir áfangakerfi sem er sveigjanlegt og gefur nemendum kost á misjöfnum námshraða.
Á vorönn 1983 var brugðið út af hefðbundnum kennsluháttum við skólann og komið á fót svonefndu opnu kerfi sem síðar var kallað stoðkerfi. Nemendum var í sjálfsvald sett hvaða stoðtíma þeir mættu í og hvaða verkefnum þeir sinntu. Kennarar voru til staðar í tilteknum stofum, tilbúnir að veita aðstoð sína. Þannig fól stoðkerfið í sér aukna ábyrgð nemenda á eigin námi. Kerfið var við lýði í skólanum í rúma tvo áratugi en tók nokkrum breytingum í gegnum árin.
Haustið 2011 hóf skólinn að starfa eftir nýrri námskrá og samhliða því var ákveðið að breyta kennsluháttum umtalsvert. Í stað tveggja anna var skólaárinu skipt í fjórar spannir þar sem nemendur einbeita sér að færri námsgreinum í einu og ljúka áföngum á skemmri tíma. Einnig voru teknir upp verkefnatímar í anda stoðkerfisins, þó með mætingaskyldu. Þar vinna nemendur undir verkstjórn kennara en velja sjálfir hvaða námsgrein þeir sinna.
Spannir
Tvær átta vikna spannir eru á hvorri önn, sjö kennsluvikur og ein prófavika. Meðalnám á hverri spönn er fimmtán einingar og lýkur nemandi því um 60 einingum á skólaárinu. Lögð er áhersla á fjölbreyttar kennslu- og námsmatsaðferðir til þess að mæta margbreytilegum hópi nemenda og því allt eins líklegt að sérstakir prófadagar líði undir lok þegar fram í sækir. Með því að skipta önninni í tvær spannir er nemendum gefinn kostur á að einbeita sér að færri námsgreinum í einu. Þeir geta því kafað dýpra í námsefnið og sinnt hverju verkefni betur.
Verkefnatímar
Kennslustundum er skipt í bundna tíma og verkefnatíma. Í bundnum tímum er nemandinn í kennslustund hjá kennaranum í faginu og í verkefnatímum vinna nemendur, einir eða í hópum, að verkefnum í þeim námsgreinum sem þeir stunda þá spönnina og hafa kennara sér til aðstoðar. Oft er hægt að ljúka heimavinnu í verkefnatímum og getur því nemandinn sinnt öðru eftir að skóladegi lýkur. Kennsluhættir taka mið af aukinni verkefnavinnu og stuðla verkefnatímar að aukinni virkni og ábyrgð nemandans. Eru flestir sammála um að kerfið henti nemendum mjög vel
Um tæknismiðju Menntaskólans á Egilsstöðum
Á síðustu spönn skólaársins 2018–2019 hófust framkvæmdir við nýja tækni- og verkaðstöðu í Menntaskólanum á Egilsstöðum sem hefur í daglegu tali verið nefnd tæknismiðja. Húsnæðið sem um ræðir samanstendur af þrem litlum kennslustofum á neðri hæð heimavistarhúss og hafa verið í lítilli notkun undanfarin ár. Opnað var á milli rýma, þannig að hægt væri að skilja að eða opna með einföldum hætti á milli kennslustofa sem buðu upp á mismunandi eiginleika. Heildarstærð þessa húsnæðis er um 75 fermetrar og síðan er 80 fermetra stofa við hliðina, sem er með máluðum green screen vegg til að auka möguleika við myndvinnslu ýmiskonar. Þarna er ennfremur möguleiki til talsverðrar stækkunar, gangi verkefnið vel. Undanfarin ár hafa verið kenndir áfangar við skólann undir nafninu smiðja og þar hafa nemendur fengið ýmis tækifæri til að þroska sjálfstæð vinnubrögð í gegnum verkefnavinnu, með verklegri hætti en áður hefur tíðkast. Bæði í ljósi þessarar reynslu og áskorana, sem ungt fólk og samfélag á 21. öld stendur frammi fyrir, var ákveðið að bæta verulega í þessa aðstöðu sem og koma fyrir fullkomnum hugbúnaði og vélum til stafrænnar framleiðslu. Þá er við skólann listnámsbraut til stúdentsprófs og þessi viðbót nýtist vel við undirbúning ýmiss konar framhaldsnáms í hönnun og listum. Þá gagnast þessi tækjakostur og nám ekki síður gagnast þeim nemendum sem stefna á tækni- og verkfræðinám. Það má því segja að þetta sé tímabær viðbót í breyttum heimi og þar sem æ þyngri áhersla er lögð á sköpun, lausnaleit og fjölbreytt, sjálfstæð vinnubrögð.
Þessi þrjú rými samanstanda af hinni eiginlegu „stafrænu smiðju“ sem inniheldur átta tölvur og áðurnefnd tæki, miðrými með nokkuð hlutlausri aðstöðu til frekari vinnu við ýmis verkefni úr hinum smiðjunum og svo grófsmiðju sem er nokkurs konar lítil smíðastofa, með borvélum, sögum, slípivélum og þess háttar tækjum auk flestra algengra handverkfæra sem ættu í flestum tilfellum þó að duga til frekari útfærslu og samsetningar á afurðum þeirra véla sem tæknismiðjan býður upp á. Einnig nýtist þessi búnaður til undirbúnings ýmiss konar efnis til notkunar í þeim vélum og má þar nefna staðbundið hráefni af svæðinu eins og til dæmis ýmiss konar viðartegundir, hreindýrshorn og fleira. Vélbúnaðurinn samanstendur af laserskera, vinylskera, hitapressu og þrívíddarprentara og hugbúnaðurinn er Adobe creative cloud. Hann býður einnig upp á fleiri möguleika eins og kvikmyndagerð, hljóðvinnslu og margt, margt fleira, sem vonandi verður hægt að nýta betur en nú er gert er fram líða stundir.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd