Menntaskólinn á Ísafirði

2022

Menntaskólinn á Ísafirði var stofnaður árið 1970 sem bóknámsskóli með hefðbundnu bekkjakerfi. Stofnun skólans má þakka ötulli baráttu heimamanna fyrir stofnun framhaldsskóla. Skólinn tók á sig núverandi mynd um 1990 þegar Menntaskólinn, Iðnskóli Ísafjarðar og húsmæðraskólinn Ósk sameinuðust í einn skóla sem þar með tók upp kennslu í ýmsum verknámsgreinum auk bóknáms til stúdentsprófs. Árið 1995 var gerður samningur við sveitarfélögin á Vestfjörðum um stofnun Framhaldsskóla Vestfjarða og var skólinn starfræktur undir því heiti til ársins 2000 þegar samþykkt var að færa nafn hans til fyrra horfs. Frekar má lesa um upphaf og þróun Menntaskólans á Ísafirði í Sögu Menntaskólans á Ísafirði sem gefin var út í tilefni af 40 ára afmæli skólans árið 2010.
Menntaskólinn á Ísafirði starfar eftir áfangakerfi. Boðið er upp á nám á bóknáms- og verknámsbrautum sem og nám á starfsbraut fyrir fatlaða nemendur. Nemendur skólans eru tæplega 500 og stunda nám í dagskóla, dreif- og fjarnámi. Hlutverk skólans er að bjóða upp á fjölbreytt nám þar sem bæði er tekið mið af þörfum einstaklingsins og samfélagsins og því er lögð rík áhersla á samstarf við stofnanir og fyrirtæki á heimaslóðum skólans.
Í skólanum er lögð áhersla á persónuleg samskipti við nemendur. Húsakynni skólans eru björt og rúmgóð og öll á einni lóð. Vel búin heimavist er við skólann þar sem nemendur búa í einstaklingsherbergjum. Öflugt starf er unnið innan skólans. Frá hausti 2016 hefur verið unnið að innleiðingu gæðastjórnunar og hefur skólinn nú hlotið vottun samkvæmt ISO 9001 á gæðakerfi skólans. Á vorönn 2018 hófst undirbúningur fyrir innleiðingu jafnlaunastaðals og hlaut skólinn vottun á jafnlaunakerfi sínu haustið 2019.

Fjölbreytt námsframboð
Menntaskólinn á Ísafirði er eini framhaldsskólinn á Vestfjörðum og það er skólanum kappsmál að geta boðið upp á gott og fjölbreytt nám. Innan skólans er því lögð áhersla á fjölbreytt námsframboð, bæði í bók- og verknámi. Á síðustu árum hefur námsfyrirkomulagið breyst mikið frá því að vera eingöngu kennsla á staðnum yfir í dreif- og fjarnám. Í dreifnámi mæta nemendur í staðlotur en stunda fjarnám þess á milli en nám í fjarnámi fer alfarið fram á netinu.
Kennarar við skólann hafa í auknum mæli tileinkað sér ýmsa tækni til að sinna breyttu námsfyrirkomulagi og kom það sér vel þegar skólanum var lokað um miðjan mars 2020 vegna COVID-19 og allt bóknám færðist í fjarnám. Í rúman áratug hefur skólinn síðan lagt áherslu á að breyta kennsluháttum og námsmati með þeim hætti að nám nemenda skili sem bestum árangri.
Nokkru fleiri stunda bóknám en verknám við skólann. Árið 2020 var skiptingin milli bóknáms annars vegar og verknáms hins vegar þannig að 61,3% nemenda voru í bóknámi og 38,7% í verknámi.

Eftirfarandi námsbrautir eru kenndar við skólann

Fjölbreyttur nemendahópur
Skólinn þjónar breiðum og fjölmenningarlegum nemendahópi á þann hátt að sem flestir fá menntun við hæfi. Upptökusvæði dagskólanemenda skólans eru norðanverðir Vestfirðir en dreif- og fjarnámsnemar koma af öllu landinu. Kynning á skólanum fer fram með ýmsum hætti, s.s. á heimasíðu hans www.misa.is, samfélagsmiðlum, með kynningum fyrir grunnskólanemendur og heimsóknum.
Í MÍ er þrenns konar námsfyrirkomulag. Í fyrsta lagi dagskólanám. Í öðru lagi dreifnám sem er verknám skipulagt sem nám með vinnu. Undanfarin ár hefur slík kennsla verið í boði í húsasmíða-, sjúkraliða- og skipstjórnargreinum og á haustönn 2020 bættist grunnnám rafiðna í þann hóp. Í þriðja lagi fjarnám þar sem nemendur stunda fjarnám í bóklegum áföngum. Dreif- og fjarnám hefur verið einn aðalvaxtabroddur skólans undanfarin ár.

Samstarf við aðra framhaldsskóla
Menntaskólinn á Ísafirði á í góðu samstarfi við aðra framhaldsskóla á landinu. Sem verknámsskóli er skólinn í góðu samstarfi við aðra slíka skóla um allt land. Skólinn á einnig samstarf við 11 aðra framhaldsskóla á landsbyggðinni um fjarnám og gengur samstarfið undir nafninu Fjarmenntaskólinn. Innan Fjarmenntaskólans er sérstakt samstarf milli Menntaskólans, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Verkmenntaskóla Austurlands um sjúkraliðanám.

FabLab – stafræn smiðja
Menntaskólinn á Ísafirði er aðili að FabVest sem er hollvinafélag um stofnun og rekstur FabLab, stafrænnar smiðju, á Ísafirði. Aðilar að félaginu eru auk skólans Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur og Fræðslumiðstöð Vestfjarða. FabLab er ætlað að efla þá nýsköpunarhugsun og frumkvöðlastuðning sem smiðjur af þessu tagi  veita nemendum á öllum skólastigum, fyrirtækjum og almenningi. Smiðjan er staðsett í húsnæði Menntaskólans og ber skólinn ábyrgð á starfseminni og hefur umsjón með daglegum rekstri smiðjunnar.

50 ára afmæli
Árið 2020 fagnaði Menntaskólinn á Ísafirði 50 ára afmæli sínu. Í tilefni afmælisins voru fyrirhuguð mikil hátíðarhöld en í ljósi aðstæðna í samfélaginu vegna Covid-19 urðu þau smærri í sniðum. Ákveðið var að gera afmælismyndband og var myndbandið frumsýnt föstudaginn 2. október, sem var vel við hæfi því þann dag árið 1970 mættu fyrstu nemendur skólans til að taka á móti stundatöflum.
Skóli sem hefur starfað í hálfa öld er í stöðugri þróun og það er engan veginn hægt að gera hálfrar aldar sögu skóla skil í stuttu myndbandi. Myndbandinu var því ekki ætlað að gera það heldur að gefa góða innsýn í þann skólabrag sem einkennir Menntaskólann á Ísafirði. Þegar skólinn fagnaði 50 ára afmæli höfðu aldrei fleiri nemendur verið skráðir í nám við skólann en á afmælisárinu. Mikill eldmóður, hæfni og góður skólabragur er einkennandi innan skólans. Horfa má á afmælismyndbandið á Youtube rás skólans.

Mannauður
Árið 2020 var starfsfólk Menntaskólans á Ísafirði 47,22 konur og 25 karlar. Af þessum 47 sinntu 36 kennslu. Yfirstjórn skólans er þannig skipuð: Jón Reynir Sigurvinsson skólameistari (frá 2007), Hildur Halldórsdóttir aðstoðarskólameistari (frá 2007), Heiðrún Tryggvadóttir áfangastjóri (frá 2015) og Friðgerður Guðný Ómarsdóttir fjármálastjóri (frá 2014).

Hefðir í skólastarfinu
Ýmsar hefðir hafa skapast í skólastarfi Menntaskólans á Ísafirði. Sumar hafa verið lengi við lýði meðan aðrar eru nýrri af nálinni. Í byrjun haustannar eru nýnemar boðnir velkomnir í skólann með nýnemaferð sem farin hefur verið að Núpi í Dýrafirði. Stuttu síðar, eða í september, er haldin róðrarkeppni þar sem etja kappi nemendur, kennarar og stundum fleiri gestir.
Á haustdögum eru haldnir Vísindadagar þar sem nemendur sýna og kynna ýmis verkefni úr námi sínu. Fullveldisfagnaður, svokölluð 1. des. hátíð, er haldin í kringum fullveldisdaginn. Þá koma nemendur og starfsfólk saman til hátíðarkvöldverðar með skemmtidagskrá og dansleikjahaldi. Síðasta fimmtudag janúarmánaðar er boðið upp á sólarkaffi og rjómapönnukökur á sal en sólin skín í fyrsta sinn á ný á glugga skólans 25. janúar, eftir meira en tveggja mánaða fjarveru handan fjalla. Í febrúar ár hvert er haldin árshátíð skólans. Þá mæta nemendur og kennarar prúðbúnir til hátíðarkvöldverðar með skipulagðri dagskrá og svo er dansleikur á eftir. Í mars er haldin sérstök lista- og menningarvika í umsjá nemenda skólans, nefnd Sólrisuhátíð og hefur hún verið fastur liður í menningarlífi bæjarins árlega síðan 1975. Hluti af Sólrisuvikunni eru Gróskudagar þar sem nemendur sækja ýmiss konar smiðjur og kynnast ýmsu sem jafnan er ekki hluti af námi þeirra í skólanum.
Í tengslum við útskrift að vori hafa útskriftarefni boðið starfsfólki skólans til kaffisamsætis daginn fyrir dimmision. Á útskriftardaginn er síðan haldinn útskriftarfagnaður þar sem útskriftarefni, fjölskyldur þeirra og starfsfólk fagna saman með borðhaldi og dansleik fram á nótt.

Öflugt félagslíf
Í skólanum er gróskumikið félagslíf. Kjörin stjórn nemendafélagsins hefur yfirumsjón með félagslífinu og frumkvæði að nýjungum. Í stjórninni sitja 8 fulltrúar nemenda.
Hápunktur félagslífsins er gjarnan Sólrisuhátíðin í byrjun mars ár hvert. Sérstök Sólrisunefnd sér um að skipuleggja viðburðina og leggur metnað sinn í að skipuleggja vikuna vel. Á meðan á hátíðinni stendur er m.a. rekið útvarp, MÍ-flugan. Á Sólrisu eru ýmsar uppákomur alla vikuna en hæst ber uppfærsla leikhóps MÍ sem frumsýnir leikrit í fullri lengd á Sólrisu og hefur það verið árviss viðburður frá árinu 1993. Leiksýningarnar vekja jafnan mikla athygli í nærsamfélaginu. Dæmi um leiksýningar undanfarinna ára eru m.a. söngleikirnir Konungur ljónanna, Ávaxtakarfan, Mamma mia og Hárið.
Innan skólans er starfandi ritnefnd en til margra ára hefur verið gefið út skólablað í tengslum við Sólrisu. Sömuleiðis er vídeóráð starfandi sem hefur skapað ýmiss konar efni á myndrænu formi. Á vegum nemendafélagsins er margs konar önnur starfsemi og stjórn félagsins stendur fyrir reglulegum viðburðum af ýmsum toga yfir skólaárið. Nemendur taka auk þess þátt í ýmsum keppnum á vettvangi framhaldsskólanna svo sem Morfís, Gettu betur og Söngkeppninni.

Mögleikar til framtíðar
Undanfarin ár hefur bæði námsbrautum og nemendum fjölgað við skólann og má gera ráð fyrir áframhaldandi vexti. Slíkur vöxtur getur ekki átt sér stað nema til komi annars vegar öflugur hópur starfsfólks sem sameinast um að halda uppi góðu skólastarfi og hins vegar nemendur sem velja að sækja sér nám við skólann.
Tækniframfarir hafa leitt til þess að nám er nú ekki bundið við skólastofu eina og sér. Þann möguleika hefur skólinn nýtt sér sem sjá má í vaxandi aðsókn og möguleikum í dreif- og fjarnámi. Bættar samgöngur innan Vestfjarða skapa líka vaxtarmöguleika fyrir skólann sem áhugavert verður að fylgjast með á næstu árum.
Menntaskólinn á Ísafirði er mikilvægur hlekkur í mannlífi Vestfirðinga og til að svo megi áfram verða þarf skólinn að vaxa og dafna með samfélaginu. Ljóst er að nýjar áskoranir í tæknimálum og atvinnuháttum kalla á nýja nálgun í menntamálum. Því kalli mun skólinn svara.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd