Einkunnarorð Menntaskólans á Tröllaskaga eru frumkvæði, sköpun og áræði. Frumkvæði vísar til frumkvæðis í kennslu og að nemendur tileinki sér frumkvæði. Sköpun vísar til skapandi hugsunar, að hugsa í lausnum og fara ótroðnar slóðir. Áræði vísar til þess að skólinn – nemendur og starfsfólk – hafi þor til þess að fara óhefðbundnar leiðir í skólastarfi. Menntaskólinn á Tröllaskaga er í Ólafsfirði. Skólinn var settur á stofn árið 2010 og hefur frá byrjun markað sér sérstöðu í kennsluháttum, viðfangsefnum og skipulagi sem hefur virkni og sjálfstæði nemenda að leiðarljósi.
Námið
Menntaskólinn á Tröllaskaga leggur áherslu á sköpun – menningu og listir – og taka allir nemendur skólans áfanga í listum. Í samræmi við einkunnarorð skólans er áhersla á nýsköpun og var skólinn fyrstur framhaldsskóla til þess að taka upp skylduáfanga í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt sem hefur verið kallaður Tröllaskagaáfanginn. Í áfanganum kynnast nemendur atvinnulífinu frá ýmsum hliðum og fá fjölda fyrirlesara, m.a. stjórnendur fyrirtækja og stofnana, í heimsókn. Menntaskólinn á Tröllaskaga er þriggja ára framhaldsskóli til 200 eininga stúdentsprófs og hafa allar námsbrautir sama fjölda eininga kjarnagreina til stúdentsprófs. Boðið er upp á nám á sviði félags- og hugvísinda og náttúruvísinda en einnig í listljósmyndun, skapandi tónlist, íþróttum og útivist. Á opinni kjörnámsbraut gefst nemendum kostur á að setja saman nám sitt út frá sérhæfingu og áhugasviði. Starfsbraut er við skólann.
Gerð er krafa um að allir nemendur Menntaskólans á Tröllaskaga séu með eigin fartölvur sem undirstrikar mikilvægi upplýsingatækni í skólastarfinu og sjálfstæði nemenda. Námið er skipulagt í vikulöngum lotum og verkefni og símat kemur í stað prófadaga.
Fjöldi nemenda
Nemendum hefur fjölgað stöðugt frá fyrstu önninni haustið 2010. Þá voru 73 nemendur skráðir við skólann en á vorönn 2021 eru þeir yfir fimm hundruð. Grunngildi skólastarfsins hafa í öllum meginatriðum verið þau sömu frá byrjun en stóra breytingin hefur verið sú að fjarnemum hefur fjölgað verulega en nemendum í dagskóla hlutfallslega fækkað. Á vorönn 2020 voru átta af hverjum tíu nemendum Menntaskólans á Tröllaskaga fjarnemar, með búsetu um allt land og í útlöndum.
Rekstur skólans
Í tíu ára sögu Menntaskólans á Tröllaskaga hefur rekstur hans gengið vel og starfsmannavelta verið lítil. Árin 2015, 2016, 2017 og 2019 var hann efstur í útnefningu stofnunar ársins í flokki meðalstórra ríkisstofnana, þar sem starfsmenn eru 20-49, og í öðru sæti árin 2014 og 2018. Val á stofnun ársins byggir á mati starfsmanna og er m.a. horft til starfsanda, trúverðugleika stjórnenda, launakjara, sjálfstæðis í starfi, vinnuskilyrða, sveigjanleika vinnu og ímynd stofnunarinnar.
Skólinn
Skólinn hefur tekið virkan þátt í erlendum samstarfsverkefnum, bæði nemendur og kennarar, og víkkað þannig út sjóndeildarhringinn. Menntaskólinn á Tröllaskaga er mikilvæg stofnun fyrir Fjallabyggð. Auk atvinnusköpunar er það samfélaginu dýrmætt að nemendur á framhaldsskólaaldri geti sótt menntun sína í heimabyggð. mtr.is
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd