ML er heilsueflandi framhaldsskóli og heimavistarskóli, ríkur af hefðum og sögu. Hann er staðsettur í fögru umhverfi í Laugardal í Bláskógabyggð. Skólinn rekur markvissa jafnréttis- og umhverfisstefnu og flaggar grænfána í umhverfisverkefninu „Skóli á grænni grein“.
Einkunnarorð og leiðarljós skólans eru manngildi, þekking, atorka
Manngildi: Í ML ríkir jákvæður skólabragur. Þar er borin virðing fyrir einstaklingum og umhverfi. Starfshættir eru lýðræðislegir og samskipti persónuleg. Lagt er upp úr velferð og líðan nemenda enda er skólinn jafnframt heimili flestra sem þar stunda nám. Skólastarfið miðar að því að efla alhliða þroska, siðferðisvitund, samkennd, ábyrgð, víðsýni og umburðarlyndi nemenda.
Þekking: Skólinn býður þriggja ára nám til stúdentsprófs í bekkjakerfi sem líkist áfangakerfi, einkum á lokaári. Námsbrautir eru tvær, náttúruvísindabraut og félags- og hugvísindabraut. Markmið kennslu og náms er að styrkja vísindaleg vinnubrögð, sjálfstæða þekkingarleit og gagnrýna hugsun. Áhersla er lögð á samvinnu, fagmennsku og starfsþróun.
Atorka: Íþróttastarf, heilsuefling og útivist eru veigamikill þáttur í skólastarfinu ásamt líflegu félags- og menningarlífi sem ýtir undir sköpun og frumkvæði. Kapp er lagt á að nýta umhverfið og nærsamfélagið eins og kostur er, með sjálfbæra þróun og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Vettvangsferðir, samstarfsverkefni og skólaheimsóknir stuðla að virkum tengslum við atvinnulífið og aðra skóla.
Merki skólans
Fáni skólans er hvítbláinn, útfararfáni Einars skálds Benediktssonar sem hann vildi að yrði þjóðfáni Íslendinga, og er hann ásamt einkunnarorðunum í merki skólans . Fáninn var færður skólanum að gjöf við stofnun og er hvítbláinn meðal merkustu gripa í hans eigu. Skólasöngur ML er ljóð Einars „Til fánans“.
Upphaf og þróun
Menntaskólinn að Laugarvatni var formlega stofnaður 12. apríl 1953. Áður hafði verið starfrækt framhaldsdeild, svokölluð Skálholtsdeild, við Héraðsskólann á Laugarvatni frá 1947 í samstarfi við Menntaskólann í Reykjavík. Menntaskólinn að Laugarvatni var þriðji menntaskóli landsins og sá fyrsti sem stofnaður var í „sveit“.
Fimm skólameistarar hafa verið við stjórnvöl skólans frá stofnun. Fyrstur var dr. Sveinn Þórðarson (1953-1959), þá Ólafur Briem (1958-1960), Jóhann S. Hannesson (1960-1970), Kristinn Kristmundsson (1970-2002) og núverandi skólameistari, Halldór Páll Halldórsson frá 2001.
Þegar Menntaskólinn að Laugarvatni hóf göngu sína voru þar 52 nemendur en í dag eru þeir um 140. Nemendur koma úr öllum landshlutum en um 80% eru af Suðurlandi.
Starfsfólk
Í dag eru 38 starfsmenn við Menntaskólann að Laugarvatni, þar af eru 22 á kennslu- og stjórnunarsviði. Aðrir starfsmenn starfa við heimavist, þvottahús, mötuneyti, ræstingar og umsjón fasteigna.
Sérstaða
Fagurt umhverfi, einstök aðstaða fyrir íþróttir og útivist, heimavist, stærð og skipulag, allt skapar þetta skólanum sérstöðu. Fyrir utan hefðbundna kennslu hefur skólinn hátt þjónustustig þar sem rekið er þvottahús fyrir nemendur og mötuneyti fyrir allt skólasamfélagið.
Menntaskólinn að Laugarvatni er fremur lítið samfélag sem er hvort tveggja í senn vinnustaður og heimili. Sú tilhögun skapar nánd milli nemenda og aukið utanumhald í skólastarfi. Heimavist hefur verið við skólann frá upphafi. Nös og Kös kallast heimavistarhúsin tvö. Þriðja vistin sem er fyrir elstu nemendurna er í skólabyggingunni og nefnist Fjarvist.
Eldri nemendur Menntaskólans að Laugarvatni mynda Nemendasamband ML (NEMEL). Þeir hafa í tímans rás látið sér annt um skólann sinn í orði og verki.
Framtíðarsýn og markmið
Starfsfólk og stjórnendur eru bjartsýn á framtíðina og þau verkefni sem hún ber í skauti sér. Menntaskólinn að Laugarvatni er og verður heilsueflandi framhaldsskóli með grænfána við hún og markvissa jafnréttisstefnu að leiðarljósi. Áfram verður kappkostað að rækta með nemendum læsi í víðum skilningi, þjálfa þá í samvinnu og miðlun upplýsinga og efla þannig færni þeirra til þátttöku í íslensku samfélagi. Áfram verður hlúð að góðu skólasamfélagi sem styður vel við grunnþætti menntunar: Jafnrétti, sköpun, sjálfbærni, heilbrigði og velferð á forsendum lýðræðishugsunar og mannréttinda. Þessar áherslur eru framtíðarmarkmið í starfi skólans, meitlaðar í kjörorðunum þremur: Manngildi – þekking – atorka.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd