Menntaskólinn í Kópavogi

2022

Menntaskólinn í Kópavogi var settur í fyrsta sinn 22. september 1973 af Ingólfi A. Þorkelssyni, skólameistara. Í fyrstu fór starfsemi skólans fram í viðbyggingu við Kópavogsskóla og voru nemendur alls 125 í sex bekkjadeildum en kennt var eftir bekkjakerfi. Árið 1982 var kennslukerfinu breytt og tekið upp svokallað kjarnakerfi sem var millileið milli bekkjakerfis og áfangakerfis og MK varð því menntaskóli með fjölbrautasniði. Menntaskólinn í Kópavogi var til húsa í Kópavogsskóla fyrstu tíu árin en árið 1983 var starfsemi hans flutt í Víghólaskóla. Á vordögum 1991 hófust byggingaframkvæmdir við skólann og var fyrsti hluti tekinn í notkun haustið 1993 og þremur árum síðar, 1996, var risið glæsilegt verknámshús fyrir hótel- og matvælagreinar. Árið 2002 var ráðist í að byggja nýja álmu við norðurenda skólans. Var þar m.a. sett upp sérútbúin kennsluaðstaða fyrir sérdeild skólans. Á 30 ára afmæli skólans 2003 var nýja norðurálman tekin í notkun. Haustið 1995 var kennslukerfinu breytt í núverandi horf eða hreint áfangakerfi og ári seinna hófst kennsla í verknámsdeildum skólans. Árið 2000 setti skólinn sér stefnu um fartölvuvæðingu og að upplýsingatækni væri notuð í allri kennslu. Á 40 ára afmæli sínu opnaði skólinn upplýsingatækniver þar sem sameinað var hið klassíska bókasafn við tölvu-, hugbúnaðar- og upplýsingaþjónustu. Skólinn hefur alltaf lagt áherslu á að vera í fararbroddi framhaldsskóla við not á nýrri tækni við nám. Þá hefur Menntaskólinn í Kópavogi lagt metnað sinn í að auka vitund nemenda sinna um jafnréttis- og umhverfismál og í þeim tilgangi helgað eina viku á hverju skólaári jafnréttismálum og aðra umhverfismálum þar sem hefðbundið skólastarf er brotið upp og þessum mikilvægu málaflokkum gefið sérstakt vægi. Stjórnendur stefna að því að í Menntaskólanum í Kópavogi verði áfram boðið, jöfnum höndum, upp á metnaðarfullt bóknám og verknám og bæta enn við sérhæfingu skólans á þeim sviðum. Einnig að auka námsframboð í takt við þarfir atvinnulífsins á hverjum tíma.

Námið
Nám í Leiðsöguskólanum er víðfemt og fjölbreytt. Fjallað er um jarðfræði Íslands, sögu og menningu, gróður, dýralíf, atvinnuvegi og íslenskt samfélag, bókmenntir og listir. Nemendur eru fræddir um helstu ferðamannastaði á Íslandi, ferðamannaleiðir, náttúruvernd, umhverfismál og leiðsögutækni.
Meistaranám matvælagreina er framhaldsnám nemenda að loknu sveinsprófi úr matvælagrein. Áhersla er lögð á stjórnun og rekstur í matvælafyrirtækjum og því hvernig hugað er að nemendum sem sækja í iðngreinar á matvælasviði frá námssamningi til útskriftar.
Stefna Menntaskólans í Kópavogi er að veita nemendum möguleika til menntunar og þroska á þeirra forsendum í framsæknum skóla. Skólinn kappkostar að bjóða hagnýtt og fjölbreytt nám með hag nemenda að leiðarljósi sem undirbýr nemendur fyrir störf í atvinnulífinu eða frekara nám. Skipulag yfirstjórnar skólans er skilgreint í skipuriti skólans og skólasamningi menntamálaráðuneytis og Menntaskólans í Kópavogi.
Afrekssvið Menntaskólans í Kópavogi býður upp á kröfuhart nám með sveigjanleika fyrir metnaðarfullt íþróttafólk. Afrekssviðið var stofnað þann 11. apríl 2019 af Menntaskólanum í Kópavogi, Breiðablik, Gerplu og Handknattleiksfélagi Kópavogs og er unnið í nánu samstarfi við þessi félög ásamt Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Afreksviðið er opið íþróttafólki úr öllum íþróttafélögum og er sniðið að því sem er talið henta hverjum einstaklingi.

Hlutverk skólans
Hlutverk Menntaskólans í Kópavogi endurspeglast í kjörorðum hans; þekking, þroski, þróun og þátttaka og þar fer fram kennsla til stúdentsprófs á bóknámsbrautum, kennsla á iðn- og verknámsbrautum, einkum í matvælagreinum allt með áfanga- og fjölbrautasniði. Skólinn stuðlar að alhliða þroska nemenda og menntun í samræmi við 2. gr. laga nr. 92/2008 um framhaldsskóla. Í skólastarfinu eru nemendur búnir undir störf og frekara nám og auka með þeim ábyrgðarkennd og víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi, þjálfa þá í öguðum vinnubrögðum, jafnrétti og gagnrýninni hugsun, kenna þeim að njóta menningarlegra verðmæta og hvetja þá til stöðugrar þekkingarleitar.

Allt starf skólans endurspeglar hina sex grunnþætti náms;
Læsi
Sjálfbærni
Heilbrigði og velferð
Lýðræði og mannréttindi
Jafnrétti
Sköpun
Í skólanámskrá mótar skólinn stefnu sína og markmið skólastarfsins, skipulag skólans og reglur, námsbrautir og áfangalýsingar. Menntaskólinn í Kópavogi er menntaskóli í víðasta skilningi, skóli bóklegra og verklegra mennta.

Leiðarljós Menntaskólans í Kópavogi eru:
Leiðbeina nemendum af festu án þess að teyma þá.
Gefa nemendum sýn til allra átta.
Kenna nemendum að hugsa fremur en innræta þeim hvað þeir eigi að hugsa.
Vera nemendum til fyrirmyndar um fornar dyggðir, iðjusemi, árvekni og stundvísi.
Leggja áherslu á hvort tveggja þekkingu og þróun.
Hvetja nemendur til virkrar þátttöku í nær- og fjærsamfélagi.
Koma hverjum og einum til nokkurs þroska.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd