Menntaskólinn við Hamrahlíð

2022

Menntaskólinn við Hamrahlíð er ríkisskóli sem starfar samkvæmt framhaldskólalögum. Hlutverk skólans er að mennta nemendur til stúdentsprófs með áherslu á undirbúning fyrir háskólanám.  

Markmið og gildi 
Markmið Menntaskólans við Hamrahlíð er að hvetja nemendur til ábyrgðar og dugnaðar í námi, vera fyrirmynd um framsækna kennslu og leggja rækt við menningu og listir. Undir forystu nýs rektors hafa verið sett fram gildi skólans sem eru þekking, ábyrgð, virðing og víðsýni. Kappkostað er að starfsemi skólans endurspegli þau. Lögð er áhersla á að nemendur axli ábyrgð um leið og frelsi þeirra til að velja er sett í öndvegi. Nemendur læra vinnubrögð sem tíðkast í háskólanámi og ólíkar þarfir einstaklinga eru virtar.

Kennsla við skólann 
Nám við skólann er skipulagt á átta brautum. Þær eru opin braut, þar sem nemendur velja sér þrjár kjörgreinar, félagsfræðabraut, málabraut, náttúrufræðibraut, fjölnámsbraut, IB-braut til alþjóðlegs stúdentsprófs og listdansbraut fyrir þau sem eru í framhaldsnámi í listdansi. Í skólanum er kennt eftir áfangakerfi sem tryggir fjölbreytni námsins en leggur einnig þá skyldu á herðar nemendum að skipuleggja nám sitt og framvindu þess. Nemendur geta haft áhrif á framboð valáfanga og komið með hugmyndir að nýjum áföngum. Þeir geta einnig valið að vinna að sjálfstæðum verkefnum og lokaritgerðum. Þá gefst nemendum kostur á að ljúka áföngum án þess að sitja kennslustundir.

Almennar upplýsingar
Menntaskólinn við Hamrahlíð hóf starfsemi sína árið 1966 og var fyrsti rektor hans Guðmundur Arnlaugsson. Skólinn var annar menntaskólinn sem stofnaður var í höfuðborginni og brautryðjandi í innleiðingu áfangakerfis og öldungadeildar sem rekin var við skólann um áratugaskeið. Í dag eru nemendur skólans um 1100 af um 30 þjóðernum og árlega eru brautskráðir um 250 stúdentar. Kennarar og starfsmenn eru 120. Núverandi rektor er Steinn Jóhannsson og konrektor er Helga Jóhannsdóttir.

Sérstaða
Sérstaða skólans felst einkum í fjölbreyttu áfangaframboði auk þess að vera kjarnaskóli fyrir listdans. Skólinn er miðstöð framhaldsskólakennslu í norsku og sænsku til viðbótar við óvenju mikla fjölbreytni í tungumálanámi. Nemendur í Menntaskóla í tónlist taka bóklegan hluta náms til stúdentsprófs í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Eftir að byggt var við skólann árið 2007 býr hann við einkar vel útbúnar raungreinastofur og þá varð aðstaða til íþróttakennslu einnig til fyrirmyndar.
Félagslíf
Blómlegt félagslíf er í skólanum og standa nemendur fyrir ýmsum lista- og menningarviðburðum. Kór Menntaskólans við Hamrahlíð hefur getið sér gott orð og hefur frá stofnun verið hluti af ímynd skólans. Loks má nefna að í skólanum er öflug stoðþjónusta sem felst í náms- og starfsráðgjöf, sálfræðiþjónustu og námsveri.

50 ára afmæli skólans
Árið 2016 var vikulöng dagskrá í tilefni 50 ára afmælis skólans. Mikill fjöldi útskrifaðra nemenda kom og kynnti störf sín og verk fyrir nemendum skólans. Vikunni lauk með mikilli afmælishátíð sem öllum fyrrverandi nemendum og starfsfólki var boðið til.
 

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd