Menntaskólinn við Sund

2022

Menntaskólinn við Sund var stofnaður þann 1. október árið 1969 og hét fyrstu árin Menntaskólinn við Tjörnina enda til húsa í gamla Miðbæjarskólanum. Fyrsta starfsárið var skólinn rekinn sem útibú frá MR. Fyrsti skipaði rektor skólans hét Björn Bjarnason og starfaði hann til ársins 1987. Hinn 30. maí 1973 voru fyrstu stúdentarnir útskrifaðir frá skólanum, 159 að tölu. Athöfnin fór fram í Háskólabíói og hefur svo verið síðan.
Árið 1976 flutti skólinn á núverandi stað inni við Sund og fékk nafnið Menntaskólinn við Sund ári síðar. Aðrir rektorar skólans hafa verið Sigurður Ragnarsson frá árinu 1987-1996,
Eiríkur G. Guðmundsson frá 1997-2001 og Már Vilhjálmsson frá 2001-2021. Núverandi rektor er Helga Sigríður Þórsdóttir, Leifur Ingi Vilmundason er kennslustjóri og Ágúst Ásgeirsson, námsbrauta- og námskrárstjóri.

Nýr tími
Skólinn var lengst af hefðbundinn bekkjarskóli sem bauð upp á fjögurra ára nám til stúdentsprófs. Árið 2015 var námstími til stúdentsprófs styttur í þrjú ár og skipulagi náms í skólanum breytt. Bekkjarkerfið var lagt til hliðar og tekið upp þriggja anna áfangakerfi. Markmið með breytingunum var að hækka útskriftarhlutfall nemenda úr skólanum og hefur það stóraukist á undanförnum árum. Tilgangur náms í skólanum er að veita nemendum menntun til stúdentsprófs, stuðla að alhliða þroska nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi. Skólanum er einnig ætlað að búa nemendur undir þátttöku í atvinnulífinu og undir frekara nám á háskólastigi. Á hverju skólaári stunda að jafnaði um 700 nemendur nám við skólann. MS er ungmennaskóli og meðalaldur nemenda í skólanum rúm 17 ár.

Skólinn
Á undanförnum árum hefur verið byggt við skólann og hann mikið endurnýjaður. Í upphafi árs 2016 var tekin í notkun ný og glæsileg bygging með sérstakri aðstöðu til raungreina og listgreinakennslu. Skrifstofa skólans, kaffistofa starfsmanna og mötuneyti nemenda er að finna í nýbyggingunni. Í skólanum starfa að jafnaði um 70 starfsmenn þar af um 55 kennarar.

Námsbrautir
Námsbrautir í skólanum eru tvær og á hvorri námsbraut eru auk þess tvær námslínur.
Félagsfræðabraut:
– Félagsfræða og sögulína
– Hagfræði og stærðfræðilína
Náttúrufræðibraut:
– Líffræði og efnafræðilína
– Eðlisfræði og stærðfræðilína
Nám til stúdentsprófs í MS er 206 feiningar og er skólaárinu skipt í þrjár jafnlangar 12 vikna annir. Skólinn brautskráir nýstúdenta þrisvar á ári í lok hverrar annar, í maí, desember og mars.

Stefna í námi og kennslu
Fjölbreytni í náms- og kennsluháttum eru lykilatriði í starfsemi skólans og í starfinu er haft að leiðarljósi að örva virkni og þátttöku nemenda. Í námskrá MS er lögð áhersla á skapandi nám, nám í lýðræðsvitund og umhverfisfræði þar sem einstaklingar fá að njóta sín í verkefnabundnu og samvinnutengdu námi. Nemendur fá tækifæri til að afla sér þekkingar, leikni í að vinna með hana og hæfni til að nýta með ólíkum hætti. Unnið er út frá kenningu um að byggja upp námskraft nemenda (LPA). Stefna skólans í námi og kennslu kallar á námsvenjur þar sem ábyrgð nemenda á eigin námi, mæting, virkni og þátttaka gegna lykilhlutverki. Mikilvægt er að nemendur vinni jafnt og þétt, ástundi heiðarleg vinnubrögð og þjálfi með sér þrautseigju þar sem mistök eru eðlilegur hluti af námsferlinu. Skólinn hvetur kennara til nýbreytni- og þróunarstarfs þar sem horft er bæði til innihalds náms og námsumhverfis. Á hverju ári sækir skólinn um utanaðkomandi styrki til þess að efla starfsþróun kennara.
Skólinn leggur áherslu á að hrinda í framkvæmd áherslum mennta- og menningarmála-ráðuneytis á hverjum tíma með því að setja fram aðgerðaáætlun til að draga úr brotthvarfi, efla veg skapandi greina og með því að bjóða nemendum upp á sveigjanleika í sínu námsvali ásamt möguleika á að stýra námshraða sínum í takt við það álag sem þeim hentar.

Félagslíf nemenda
MS er ungmennaskóli og félagslíf meðal nemenda líflegt. Í skólanum starfa auk aðalstjórnar Nemendafélagsins, skemmtinefnd, ritnefnd, vídeónefnd, feministafélag, málfundafélag, leiklistafélag, íþróttafélag og listafélag. Hápunktar skólaársins eru þemavikur, stórdansleikir, MORFÍS, blaðaútgáfa, nemendaútvarp og íþróttamót.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd