Miðás hf.

2022

Brúnás-innréttingar
Miðás ehf. var stofnað á Egilsstöðum árið 1990 þar sem höfuðstöðvar þess eru til húsa. Stofnfélagar voru 25 en félaginu var skipt út úr Brúnás hf. sem hafði frá 1985 rekið innréttingaframleiðslu sem sér deild innan fyrirtækisins. Á starfstíma hennar, var þróuð vörulína innréttinga með tæknilegri ráðgjöf frá Iðntæknistofnun sem kynnt var undir vörumerkinu Brúnás-innréttingar.

Starfsemin
Markmið og tilgangur félagsins hefur frá upphafi verið að þjóna húseigendum og byggingar-aðilum með ráðgjöf, sölu, smíði og uppsetningu á innréttingum. Brúnás-innréttingar, sem eru þekktar fyrir fallega og hagnýta hönnun, góða þjónustu og vandaða smíði, byggir orðstír sinn á mikilli reynslu og þekkingu fólksins sem kemur að hönnun og smíði innréttinganna á öllum stigum. Fyrirtækið leggur metnað sinn í að vera leiðandi á innréttingamarkaði með nýjungar í hönnun og um leið bjóða vandaða vöru og þjónustu. Söluskrifstofur eru í Ármúla 17a í Reykjavík og Miðási 9 á Egilsstöðum þar sem veitt er þjónusta fagfólks við val á innréttingum. Þeirra á meðal eru innanhússhönnuðir sem hanna og teikna innréttingar fyrir fólk í þrívíðu formi svo væntanlegir kaupendur sjái eins vel og hægt er hvers er að vænta áður en gengið er frá kaupum og framleiðsla hefst.

Framleiðsla og vöruþróun
Framleiðsla innréttinganna fer fram að Miðási 9 á Egilsstöðum, í fullkomnum 2000 m2 framleiðslu- og vélasal. Frá upphafi starfseminnar hefur stöðugt verið leitast við að endurnýja og uppfæra tækjabúnað á verkstæðinu til að mæta sífellt auknum kröfum varðandi afköst og gæði. Gengið er út frá því að viðskiptavinir fyrirtækisins, sem eru bæði einstaklingar og verktakar, meti gæði vöru og þjónustu með hliðsjón af því hvernig fyrirtækinu tekst til að uppfylla væntingar þeirra og þarfir. Því er lögð áhersla á að vanda öll störf, frá pöntun til uppsetningar. Hráefni til vinnslu þarf að uppfylla gæðakröfu fyrirtækisins fyrst og síðar verðkröfu og þess að gætt sé að því að vörur uppfylli kröfur um hollustuhætti. Vöruþróun fyrirtækisins byggist á því að fylgjast vel með breytingum er hafa áhrif á efnisval, liti og form og þróa áfram af innanhússarkitektum fyrirtækisins og innleiða í framleiðsluna þannig að viðskiptavinir geti sífellt fengið innréttingar samkvæmt nýjustu straumum í heimi innréttinga.

Eigendur, velta og mannauður
Miðás ehf. er einkahlutafélag með 5 hluthafa og 22,5 milljónir króna í hlutafé. Velta ársins 2019 var 487 milljónir króna og eru starfsmenn 26. Framkvæmdastjóri frá 2005 er Jón Hávarður Jónsson.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd