Miðflokkurinn

2022

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn formaður Framsóknarfloksins árið 2009. Hann var í upphafi óskrifað blað og voru margir tregir til að styðja til forystu mann sem fram að því hafði lítið látið kveða að sér í stjórnmálum. Sigmundur hafði þó tekið þátt í starfi In Defence hópsins og varð barátta hans gegn notkun Breta á hryðjuverkalögum gegn Íslendingum, Icesave samningunum og ágangi kröfuhafa einkennandi fyrir aðferðarfræði hans. Árið 2013 skilaði sú barátta og ný stefnumál Framsóknarflokksins honum bestu kosninganiðurstöðu í áratugi. Það ár varð Sigmundur forsætisráðherra og fór strax óhefðbundnar leiðir meðal annars með skuldaleiðréttingu verðtryggðra fasteignalána heimilanna og uppgjöri fjármálakerfisins sem fól í sér hundruð milljarða króna eftirgjöf kröfuhafa. Með því var efnahagsstöðu ríkisins gjörbreytt og við tók mikið hagvaxtarskeið. Árið 2016 tilkynnti Sigmundur að hann myndi víkja tímabundið sem forsætisráðherra en sat áfram sem formaður flokksins. Með því sagðist hann vilja skapa frið um störf annarra ráðherra og ríkisstjórnarinnar í heild svo að hún gæti klárað þau mikilvægu verkefni sem þyrfti að ljúka á kjörtímabilinu. Skömmu síðar sagðist Sigmundur aldrei hafa upplifað jafn mikinn stuðning og á sumarmánuðum 2016 en þá um haustið gagnrýndi hann ríkisstjórnina fyrir að fylgja ekki eftir ókláruðum verkefnum eins og upp var lagt og hugði á endurkomu. Þá hafði þó hópur sem gekk undir nafninu flokkseigandafélagið og hafði beitt sér gegn kjöri Sigmundar árið 2009 treyst tökin á flokknum. Úr varð að varaformaður flokksins fékkst til að bjóða sig fram gegn formanninum og gekk þannig á bak fyrirheitum sem hann hafði gefið, meðal annars opinberlega. Það var þó ekki tilkynnt fyrr en orðið var of seint að skrá þátttakendur á flokksþing.
Á flokkssþingi Framsóknarflokksins haustið 2016 var varaformaðurinn lýstur sigurvegari formannskosningar með rúmlega helmingi atkvæða. Framkvæmd flokksþingsins var harðlega gagnrýnd eftir að flokksmönnum til áratuga var meinað að greiða atkvæði á meðan aðrir hópar, m.a. nýskráðra meðlima, mættu til að kjósa án þátttöku í þinginu að öðru leyti. Hópum var auk þess heimilað að skrá sig eftir að frestur til þess rann út á meðan skráðum flokksmönnum, sem voru taldir stuðningsmenn Sigmundar, var vísað frá. Eftir þessa atburði voru því margir flokksmenn ósáttir en Sigmundur hvatti þá til að halda áfram störfum. Í Alþingiskosningum í lok október 2016 tapaði Framsóknarflokkurinn meira en helmingi fylgis síns og hlaut verstu kosningu í 100 ára sögu flokksins.

Stofnun Miðflokksins
Eftir kosningarnar jókst á ný órói meðal Framsóknarmanna sem töldu hið svo kallaða flokkseigendafélag nú alls ráðandi og flokkinn aftur kominn á vald kerfisbundinnar hagsmunagæslu. Farin var sú leið að búa til vettvang fyrir rökræðu og leit að pólitískum lausnum á sömu forsendum og unnið hafði verið að innan Framsóknarflokksins árin áður. Í því miði var Framfarafélagið stofnað hinn 1. maí 2017 en fjöldi fólks úr öðrum flokkum og utan flokka kom að stofnun félagsins.
Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sprakk óvænt haustið 2017 og þegar leið að kosningum var orðið ljóst að mikill ágreiningur væri innan Framsóknarflokksins um forystu, stefnu og vinnubrögð. Þegar Sigmundur taldi ljóst að hópurinn sem náð hafði völdum í flokknum ætlaði að koma í veg fyrir að þeir sem hefðu stutt hann til formennsku næðu sæti á framboðslistum sagði hann skilið við flokkinn. Að því búnu hófst vinna við stofnun nýs flokks, Miðflokksins. Að því starfi kom fjöldi fólks úr öllum flokkum. Myndaðar voru kosningastjórnir til bráðabirgða enda tíminn fram að kosningum skammur.
Formlegur stofnfundur var haldinn 15. október 2017 en Alþingiskosningar voru haldnar þann 28. sama mánaðar. Flokkurinn fékk 10,9% atkvæða sem var mesta fylgi sem nýr flokkur hafði hlotið í kosningum. Sjö manna þingflokki bættist svo liðsstyrkur í febrúar 2019 þegar tveir þingmenn Flokks fólksins gengu til liðs við Miðflokkinn. Fyrsta landsþing flokksins var haldið í Hörpu í október 2018. Þar voru samþykkt lög flokksins og skipulag hans að öðru leyti. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kosinn formaður, Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður og Anna Kolbrún Árnadóttir, 2. varaformaður. Í sveitarstjórnarkosningunum 2018 bauð flokkurinn fram í mörgum sveitarfélögum, ýmist einn eða í samstarfi við aðra og fékk 10 sveitarstjórnarmenn kjörna.

Flokksstarf og stefna
Miðflokkurinn er skipaður fólki sem kemur víða að. Stefnan byggist á skynsemishyggju, því að meta hvert viðfangsefni fyrir sig og beita rökum til að leita bestu lausna. Flokkurinn leggur áherslu á að lýðræðislegt vald liggi hjá almenningi. Kjósendur eigi að leggja línurnar um stjórn landsins fremur en ráðuneyti og stofnanir, innlendar eða erlendar.
Miðflokkurinn leggur áherslu á að verja fullveldi landsins og það sem best hefur reynst við uppbyggingu samfélagsins en um leið að bæta það sem betur má fara. Flokkurinn leitast við að taka vel í góðar hugmyndir hvaðan sem þær koma og nýta þekkingu þeirra sem best þekkja til á hverju sviði. Miðflokkurinn er meðvitaður um samhengið milli verðmætasköpunar og velferðar. Hann leggur því áherslu á að bæta lífskjör með því að veita ólíkum atvinnugreinum öruggt og hvetjandi starfsumhverfi og að tryggja velferð allra með skynsamlegri nýtingu almannafjár. Að mati Miðflokksins eru stjórnmálamenn fulltrúar almennings, ábyrgir fyrir því að leiða samfélagið eftir þeirri stefnu sem þeir hafa boðað og verið kosnir til. Á undanförnum árum hafa stjórnmálamenn hins vegar fært völd í allt of ríkum mæli til embættismannakerfisins, nefnda, hagsmunaafla og annarra. Þegar stjórnmálamenn gefa frá sér ákvörðunarvaldið á þann hátt skerðist vald almennings og lýðræðið virkar þá ekki eins og skyldi. Þetta vill Miðflokkurinn laga með því að boða aðeins þá stefnu sem flokkurinn treystir sér til að bera ábyrgð á og standa við. Miðflokkurinn heldur úti umfangsmiklu og öflugu félagsstarfi. Strax í upphafi var tekin ákvörðun um að festa flokkinn ekki í formi sem gerði utanumhald flókið. Skipulagið var því hannað með það að leiðarljósi að gera flokksfélögunum kleift að nýta krafta sína í félagsstarf fremur en skriffinnsku. Undir kjördæmafélögum starfa sjálfstæðar deildir sem halda utan um starfið í nærumhverfinu. Auk þess að halda mikinn fjölda pólitískra funda stendur flokkurinn fyrir fjölmennum skemmtunum, golfmótum, fræðslufundum og fleiru. Miðflokkurinn er ekki bara stjórnmálaflokkur heldur hópur vina þar sem vináttan byggist sameiginlega sýn og gagnkvæmu trausti. Hópur sem tekst á við stór og smá verkefni í sameiningu með bættan hag þjóðarinnar að leiðarljósi.

Stjórnendur

Fjóla Hrund Björnsdóttir
Framkvæmdastjóri þingflokks
865-4373
2018-

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd