Miðstöð ehf

2022

Miðstöð ehf. var stofnuð árið 1982 af þeim Elíasi Óskarssyni, Baldri Helgasyni og Karli Haraldssyni. Þeir höfðu allir lært til pípulagna hjá föður Elíasar, sem hafði verið pípulagningamaður á Akureyri áratugum saman. Rekstur Miðstöðvar var, til að byrja með, að Óseyri en árið 1997 flutti fyrirtækið í glæsileg húsakynni að Draupnisgötu 3g. Þaðan gerði fyrirtækið út til 2018, en þá flutti það í Hörgárbyggð og hóf sambúð með ÁK Smíði, sem hafði keypt fyrirtækið af stofnendum tveimur árum fyrr.

Sagan
Miðstöð hefur í gegnum árin sinnt öllum mögulegum verkefnum og hefur safnast umtalsverð reynsla í sarpinn. Starfssvæðið er allt Norðurland, og kom jafnvel fyrir að verk væru unnin austur á fjörðum. Starfsmenn hafa alla tíð lagt sig fram um að ná sér í nýja þekkingu í pípulögnum og að eiga nýjustu verkfæri í faginu. Unnið hefur verið við neysluvatn, hitaveitulagnir, fráveitulagnir, gaslagnir fyrir heimili og veitingastaði, bæði nýlagnir og viðgerðir, flókin lagnakerfi í stórum verksmiðjum og allt niður í að laga sírennsli í klósettum bæjarbúa. Fyrirtækið hefur unnið fyrir einstaklinga, opinbera aðila, og fyrirtæki í einkageiranum. Einnig hafa starfsmenn þess sinnt kennslu í pípulögnum við Verkmenntaskólann á Akureyri.

Starfsemin
Hjá fyrirtækinu starfa nú ellefu pípulagningamenn og einn skrifstofumaður, samtals tólf manns. Starfsemin á árinu 2020 var ekki ólík því sem oft hefur verið; stærsta verkefnið á fyrri helmingi ársins var opnun H&M búðar á Glerártorgi, en á seinni hluta ársins endurbygging Lundarskóla vegna rakaskemmda. Einnig féll til nokkuð af verkefnum í gegnum þjónustusamninga við Ríkiseignir og Akureyrarbæ. Covid 19 hafði vissulega áhrif á fyrirtækið og þurfti að grípa til ýmissa ráðstafana til að tryggja áframhaldandi rekstur og tókst það með mikilli vinnu og útsjónarsemi.
Miðstöð hefur alla tíð haft það að leiðarljósi að vöxtur væri langhlaup, og hefur því aldrei safnað skuldum eða lent í greiðsluvandræðum. Fyrirtækið hefur safnað fyrir því sem þarf að kaupa, hvort sem um verkfæri, bifreiðar eða aðra rekstrarliði er að ræða.
Fyrirtækið er að fullu í eigu ÁK Smíði, en eigendur þess eru Ármann Ketilsson húsasmíðameistari, Jóhannes Gunnar Jóhannesson rafvirkjameistari og Finnur R. Jóhannesson framkvæmdastjóri.
Í stjórn félagsins sitja Ármann Ketilsson stjórnarformaður, Finnur R. Jóhannesson meðstjórnandi og Jóhannes Gunnar Jóhannesson meðstjórnandi. Við eigendaskiptin 2016 urðu litlar breytingar á rekstrinum, en áfram byggt á traustum grunni.

Framtíðarsýn
Framtíðarsýn fyrirtækisins er því einföld; að halda áfram að bjóða góða þjónustu og vöru, á sanngjörnu verði, á sama grundvelli og verið hefur.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd