Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum

2022

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS) var stofnuð 10. desember 1997. MSS hefur verið einn máttarstólpanna í menntun Suðurnesjamanna í nær aldarfjórðung.
Meginhlutverk MSS er að bjóða upp á nám, námskeið, ráðgjöf og þjónustu, ásamt því að skapa aðstöðu til náms þar sem einstaklingnum líður vel. Markmiðið frá upphafi hefur verið að hækka menntunarstig á Suðurnesjum. Þannig má efla bæði atvinnulíf og mannlíf á svæðinu sem leiðir til aukinna lífsgæða. Háskólamenntuðum einstaklingum á Suðurnesjum hefur fjölgað á því tímabili sem háskólamenntun hefur staðið til boða í fjarnámi í gegnum MSS og önnur menntaúrræði á svæðinu. Á sama tíma hefur þeim sem eingöngu hafa lokið grunnskólaprófi fækkað.
Starfsemi MSS hefur vaxið jafnt og þétt og námsframboðið tekið mið af þörfum viðskiptavina hverju sinni. Starfsmenn miðstöðvarinnar eru 20 og hún er til húsa í Krossmóa í Reykjanesbæ.

Forstöðumenn frá upphafi

  • Kjartan Már Kjartansson 1998
  • Skúli Thoroddsen 1998-2003
  • Guðjónína Sæmundsdóttir frá 2003

Stofnaðilar MSS

  • Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum
  • Reykjanesbær
  • Fjölbrautaskóli Suðurnesja
  • Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis
  • Iðnsveinafélag Suðurnesja
  • Verslunarmannafélag Suðurnesja
  • Rafiðnaðarfélag Suðurnesja
  • Vélstjórafélag Suðurnesja
  • Útvegsmannafélag Suðurnesja
  • Vinnuveitendafélag Suðurnesja
  • Kaupfélag Suðurnesja
  • Hitaveita Suðurnesja

Fjölmargar námsleiðir í boði
Hjá MSS er fjölbreytt námsframboð og ýmsar námsleiðir í boði. Lögð er mikil áhersla á að bjóða upp á nám sem hentar sem flestum, hvort sem fólk stundar nám á dagtíma eða með vinnu. Þá geta nemendur valið um staðnám eða fjarnám. Dæmi um nám sem MSS býður upp á:
Grunnmennt og Menntastoðir er fyrir nemendur sem ekki hafa lokið grunn- eða framhalds-skóla en vilja aftur í nám.
Stökkpallur er ætlaður ungu fólki sem þarf aðstoð við að komast aftur í nám eða út í atvinnulífið.
Uppleið hefur það að markmiði að auka færni námsmanna með hamlandi líðan.
Starfstengt nám miðar að því að styrkja stöðu þátttakenda á vinnumarkaði. Hér má nefna Skrifstofuskóla I og II, Sölu-, markaðs- og rekstrarnám, Grunnnámskeið fyrir fiskvinnslufólk, Meðferð matvæla, Færni í ferðaþjónustu, Fagnám í umönnun fatlaðs fólks, Tæknilæsi og tölvufærni, Samfélagstúlk og Móttöku og miðlun.
Tómstundanámskeið sem einstaklingar sækja sér til skemmtunar og fróðleiks.

Fjarnám á háskólastigi
Aldamótaárið 2000 var sögulegt í starfsemi MSS. Í ágúst það ár hófst fjarnám á háskólastigi í góðu samstarfi við Háskólann á Akureyri. Möguleikar fólks á háskólamenntun gjörbreyttust með tilkomu fjarnáms í hjúkrunarfræði og rekstrar- og viðskiptafræði. Ekki síst var fjarnámið mikil bylting fyrir fjölskyldufólk. Þáttaskil urðu í sögu menntunar á Suðurnesjum þegar fyrsta útskriftin var haldin í Kirkjulundi 17. júní 2004. Þá útskrifuðust níu hjúkrunarfræðingar og átta viðskiptafræðingar sem hófu fjarnám haustið 2000. Í dag er hægt að stunda nám í fjölmörgum greinum á háskólastigi í fjarnámi og fá náms- og prófaðstöðu hjá MSS.

Fyrirtækjaþjónusta
Einn angi af þjónustu MSS er sí- og endurmenntun fyrirtækja á svæðinu og starfsmanna þeirra. Boðið er upp á ráðgjöf og námskeið þar sem þarfir fyrirtækja og einstaklinga eru hafðar að leiðarljósi. Sem dæmi má nefna námskeið tengd stjórnun, hópefli, tölvu- og upplýsingatækni og um einelti á vinnustöðum.

Íslenskukennsla fyrir nemendur af erlendum uppruna
Öflug íslenskukennsla hefur verið einn af hornsteinunum í starfsemi MSS. Hjá miðstöðinni er kennd íslenska á fimm stigum þar sem talað mál og skrifað er æft. Erlendir nemendur með góða íslenskukunnáttu eru sérstaklega hvattir til að hefja nám á íslensku og efla færni sína með þeim hætti.

Náms- og starfsráðgjöf
MSS veitir einstaklingum náms- og starfsráðgjöf með samningi við Fræðslusjóð. Ráðgjöfin hefur notið mikilla vinsælda hjá almenningi á Suðurnesjum sem getur nýtt sér þjónustuna endurgjaldslaust. Ráðgjöfinni er ætlað að auðvelda fólki að átta sig á styrkleikum sínum, færni og áhuga. Þá eiga einstaklingar auðveldara með að ákveða stefnu í námi og/eða starfi. Einnig býður MSS upp á hópráðgjöf og ráðgjöf á vinnustað.

Raunfærnimat
MSS sér um framkvæmd á raunfærnimati fyrir einstaklinga sem eru orðnir 23 ára og með að lágmarki þriggja ára starfsreynslu í viðkomandi fagi. Í raunfærnimati er þekking og færni á ákveðnu sviði metin, svo sem reynsla af starfi, námi eða félagsstörfum. Þá er hægt að staðsetja einstaklinginn innan formlega skólakerfisins á framhaldsskólastigi og liðka fyrir áframhaldandi námi í greininni.

Fullorðinsfræðsla fatlaðs fólks
MSS er með samning við Fjölmennt um námskeiðahald fyrir fullorðið fatlað fólk á Suðurnesjum. Alla jafna er boðið upp á fjögur til fimm námskeið á önn, s.s. ýmis tómstundanámskeið, færni- og sjálfstyrkingarnámskeið og námskeið í tengslum við listahátíðina List án landamæra.

Samvinna starfsendurhæfing
Samvinna starfsendurhæfing var stofnuð sem sjálfseignarstofnun 15. maí 2008. Frá árinu 2014 hefur Samvinna verið rekin sem hluti af MSS.
Hugmyndafræði Samvinnu gengur út á að vinna með styrkleika og hindranir þátttakenda á einstaklingsmiðaðan hátt. Þátttakandi er sjálfur virkur í sinni endurhæfingu frá upphafi og tekið er mið af þörfum hvers og eins. Þjónustan getur verið í formi námskeiða, fræðslu, hópeflis, sálfræðiþjónustu, sjúkraþjálfunar, líkamsþjálfunar, vinnuprófana o.fl.

Erlent samstarf
Erlent samstarf hefur verið stór hluti af starfsemi MSS frá upphafi. Miðstöðin tekur þátt í nokkrum erlendum verkefnum á hverjum tíma til að fylgjast með þróuninni út í heimi, taka inn nýjungar í starfið og sem lið í sí- og endurmenntun starfsmanna.

Framtíðarsýn MSS
MSS er framsækið og virt afl í samfélaginu sem eflir einstaklinga og atvinnulíf – brú til aukinna lífsgæða.
MSS veitir íbúum á svæðinu ráðgjöf, persónulega þjónustu og aðstöðu til náms þar sem einstaklingum líður vel.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd